Hvort erum við lítil eða stór?

Hvort erum við lítil eða stór?

Ég kemst ekki hjá því að finnast ég vera ósköp lítill þegar ég horfi á myndirnar af hinum risavaxna gosstrók standa upp úr Grímsvötnum. Sömu tilfinningu hef ég upplifað oft í náttúrunni. Ég finn til smæðar gagnvart sköpunarverkinu t.d. þegar ég stend við Dettifoss eða á Hvannadalshnúki.
fullname - andlitsmynd Sigfús Kristjánsson
25. maí 2011

Eins einkennilegt og það er þá finnst mér stutt síðan ég tók við preststarfi í Hjallakirkju. Þó eru nærri tíu ár síðan. Mér finnst hins vegar eins og ég hafi nánast alltaf átt dætur mínar sem þó eru ekki nema bráðum sjö og fjögurra ára og man varla að ég hafi átt líf áður en þær fæddust. Mér finnst stutt síðan ég útskrifaðist úr MR þó að það séu víst ein sextán ár síðan ég stóð á sviðinu í Háskólabíó með hvítan koll. Hins vegar finnst mér ferlega langt þangað til ég kemst í sumarfrí með fjölskyldunni þó að það sé ekki nema rúmur mánuður í það.

Sigfús KristjánssonÉg kemst ekki hjá því að finnast ég vera ósköp lítill þegar ég horfi á myndirnar af hinum risavaxna gosstrók standa upp úr Grímsvötnum. Sömu tilfinningu hef ég upplifað oft í náttúrunni. Ég finn til smæðar gagnvart sköpunarverkinu t.d. þegar ég stend við Dettifoss eða á Hvannadalshnúki. Hins vegar finnst mér stundum að ég sé stór t.d. þegar ég hjálpa dætrum mínum, þegar litlar hendur læðast inn í lófann minn. Einnig get ég ekki annað en upplifað mig sem risa þegar ég neyðist til að skrifa og senda langar setningar á símanum mínum (SMS-inu) og takkarnir virðast allt of litlir fyrir fingurna mína.

Það eru tveir sálmar sem hafa í gegnum tíðina fengið mig til að hugsa um það hversu stór eða lítill ég er bæði í tíma og rúmi. 90. Davíðssálmur færir mér heim þau sannindi að í samanburði við eilífðina þá er ævi mín ekki löng, varla mælanleg, þar stendur: Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár,og dýrasta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.

8. Davíðssálmur fær mig til að hugsa um hvað ég er ósköp smár í samanburði við hina risavöxnu sköpun, þar segir: Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess? Báðir þessir sálmar hafa þó að geyma fagnaðarerindi, þann ótrúlega gleðilega boðskap að stærð eða smæð í samanburði við aðra eða umhverfi okkar skiptir í raun engu. Það sem skiptir máli er samband okkar við Guð.

Í 90 Davíðssálmi kemur þessi merkilega hvatning um að nýta tímann vel því að hann er auðlind sem er dýrmæt. Þar segir: Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. Hugsanlega mætti draga þessa setningu saman á þessa leið: Hjálpaðu mér Guð að verja tíma í stað þess að eyða tíma. Í 8 Davíðssálm segir einnig um okkur: Þú gerðir hann litlu minni en Guð, krýndir hann hátign og heiðri. Stundum upplifi ég mig lítinn og stundum stóran. Hvort ég er skiptir þó litlu máli, það sem skiptir máli er að Guð hefur ætlað mér hlutverk og það hlutverk er ekki lítið í augum hans.