Stuðningur frá grasrótinni. Velferðarsjóður á Suðurnesjum

Stuðningur frá grasrótinni. Velferðarsjóður á Suðurnesjum

Yfirskrift þessa erindis tengist einmitt þessu framtaki sem helst má líkja við vakningu. Stuðningurinn kemur úr grasrótinni þar sem fólk skynjar það að með gjöfum sínum er það í hlutverki hins virka geranda fremur en þess sem horfir upp á ástandið versna í aðgerðarleysi.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
19. desember 2010
Meðhöfundar:
Hjördís Kristinsdóttir

Eins og alþjóð veit hefur ástandið í atvinnumálum á Suðurnesjum verið erfitt nú í nokkur ár og hlutfall fólks á bótum er hvergi hærra á landinu öllu. Ekki sér fyrir endann á þessum erfiðleikum og mun það taka langan tíma að koma samfélaginu hér Suður með sjó aftur í eðlilegt horf.

Ástæður samdráttarins

Of langt mál er að rekja ástæður þess að þessi landshluti hefur farið svo illa út úr keppunni. Fyrst og fremst ber þó að horfa til þess að tveir stærstu atvinnuveitendurnir á svæðinu hafa horfið af sjónarsviðinu. Sjávarútvegurinn nánast lagðist af í Keflavík í byrjun 10. áratugarins þegar kvótinn var allur seldur úr bænum, en fram að því höfðu allt að þúsund manns haft atvinnu af sjávarútvegi og tengd störf voru umfangsmikill hluti af atvinnulífinu í bænum og nágrannabyggðum. Þá var það mikil blóðtaka þegar starfsemin á varnarsvæðinu lagðist af en það var með stærstu vinnustöðum á landinu. Ekki þarf því að koma á óvart að áhrifa þessa skuli gæta nú þegar hjól atvinnulífsins hafa hægt jafn mikið á sér og raun ber vitni.

Óhætt er því að segja að mannlífið á þessu svæði hafi orðið fyrir þungum höggum og margur sjái sjálfan sig í hlutverki fórnarlambsins. Það segir þó ekki nema hálfa söguna því hjálparsamtök á Suðurnesjum hafa unnið hörðum höndum að því að mæta neyðinni. Einstaklingar og hópar hér á svæðinu hafa sýnt mikið frumkvæði við það að leggja náunganum lið með ýmsum hætti. Yfirskrift þessa erindis tengist einmitt þessu framtaki sem helst má líkja við vakningu. Stuðningurinn kemur úr grasrótinni þar sem fólk skynjar það að með gjöfum sínum er það í hlutverki hins virka geranda fremur en þess sem horfir upp á ástandið versna í aðgerðarleysi.

Hér verður greint frá starfi og fyrirkomulagi Velferðarsjóðs á Suðurnesjum og í framhaldi af því þeim tveimur verkefnum sem Keflavíkurkirkja og Velferðarsjóðurinn hafa unnið að á þessu ári.  Það er fræðsluverkefnið „Skref fyrir skref“ og svo „Sumarið suður með sjó“.  Bæði verkefnin eru fjármögnuð með styrkjum frá verkefninu Evrópuári gegn fátækt.  

Forsaga Velferðarsjóðsins

Í októberbyrjun 2008 fór hópur sjálfboðaliða, starfsmanna og presta  úr Keflavíkursókn í Skálholt, þar sem var unnið að stefnumótun og framtíðarsýn safnaðarins.  Á þessum tíma var talsvert rætt um aukna þörf almennings á Suðurnesjum fyrir aðstoð og stuðning, þótt hið eiginlega hrun hafi í raun orðið sömu helgi og hópinn var staddur þarna fyrir austan. Í umræðum kom m.a. fram auka þyrfti samstarf  félagasamtaka og skapa farveg fyrir þá sem vilja láta gott af sér leiða til stuðnings á svæðinu.  Alls átti  þessi eftirspurn eftir að aukast um 300% milli áranna 2007 og 2008.Niðurstaðan var að setja á laggirnar sjóð, sem síðar fékk heitið Velferðarsjóður á Suðurnesjum.

Í kjölfar atburðanna í þjóðlífinu hafði félagsþjónusta Reykjanesbæjar frumkvæði að því síðar um haustið að stefna saman þeim sem koma að hjálparstarfi á svæðinu. Fulltrúi Keflavíkurkirkju kynnti hugmyndina að Velferðarsjóðnum þar. Í framhaldi var rætt við forystu Verkalýðsfélaganna, Rauða krossins og önnur líknarfélög. 

Biðlað var til einstaklinga og fyrirtækja í gegnum staðarblöðin einnig ekki síst með því að dagskrá kirkjunnar var löguð að því að safna í sjóðinn. Var formlega blásið til sóknar í nóvember það árið með hátíðardagskrá þar sem tekið var við framlögum. Framkvæmdin tókst afar vel en skemmst er frá því að segja að fyrir jólin 2008 söfnuðust í sjóðinn á 12. milljón króna.  

Starfsemin þróast

Upphaflega var sjóðnum ætlað að aðstoða barnafjölskyldur til viðbótar við þá aðstoð sem Hjálparstarf kirkjunnar veitir á svæðinu. Velferðarsjóðurinn laðaði hins vegar ekki aðeins að sér fjármagn heldur einnig hugmyndir og ýmis konar frumkvæði. Fólk var ófeimið við að hafa samband með ýmis ráð sem kynnu að nýtast sjóðnum til framdráttar. Margvíslegir viðburðir voru haldnir til söfnunar í sjóðinn og má þar nefna, tónleika, golfmót, hlutaveltu, sölu á ýmsum varningi, veitingasölu, fiskimarkaði og hinni svonefndu jólaföstu í Keflavíkurkirkju þar sem fyrirtæki bjóða starfsmönnum í helgistund og þiggja látlausar veitingar. Á móti leggja þau framlag í Velferðarsjóðinn.

Þetta bar góðan árangur og í ársbyrjun  2009 var sjóðurinn orðinn það stór að ákveðið var að hafa sérstakar úthlutunarreglur og mynda stjórn um sjóðinn. Var það gert í þeim tilgangi að tryggja að fleiri kæmu að því að móta stefnu og reglur fyrir sjóðinn en eingöngu Keflavíkurkirkja. Í stjórn sat fulltrúi frá Keflavíkurkirkju, Rauða krossinum auk þess sem verkalýðsfélögin höfðu þar einn fulltrúa. 

Samstarf við Hjálparstarf kirkjunnar

Áfram var unnið náið með Hjálparstarfi kirkjunnar og kerfi þeirra til skráningar og úthlutunar notað. Umsækjendur um styrki skila inn upplýsingum um tekjur og útgjöld heimilisins samkvæmt viðmiðunum Hjálparstarfsins en Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfinu hefur verið til sérlegrar ráðdeildar við úthlutanir og utanumhald.

Stuðningur frá sjóðnum er hugsaður sem viðbót við úthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar, með þeim hætti að þeir sem eru búnir með úthlutun sína frá Hjálparstarfinu geta fengið viðbótarstyrk. Í samstarfi við verslunareigendur í Reykjanesbæ eru keypt fyrirframgreidd kort í matvöruverslunum þannig að skjólstæðingar gætu komið 5x á ári í stað 3x eins og úthlutunarreglur HK gera ráð fyrir. Þessi aðferð hefur m.a. þann stóra kost að skjólstæðingarnir kaupa varning í verslununum, rétt eins og aðrir viðskiptavinir. Einnig var veittur stuðningur til jólagjafa í samstarfi aðstoðar við einstaka fjölskyldur. 

Snemma árs 2010 var haldið áfram að þróa aðstoðina. Farið var að bera á því að börn færu að flosna upp úr íþróttum og öðru tómstundastarfi vegna bágrar fjárhagsstöðu fjölskyldunnar. Einnig tók fólk að segja upp áskrift af skólamat af sömu ástæðum. Farið var í samstarf við fyrirtæki sem styrkir nú að jafnaði 17 börn með daglegan skólamat. Velferðarsjóðurinn styrkir annan eins fjölda á svæðinu. 

Sumarið suður með sjó

Vorið 2010 kom fram sá vilji að auka möguleika barna til þátttöku í námskeiðum og sumardvalar í sumarbúðum til jafns við önnur börn. Sjóðurinn fékk styrk fyrir verkefnið „Sumarið suður með sjó“. Markmiðið var að greiða sumarnámskeið og sumarbúðadvöl fyrir börn. Í lok sumars voru enn fjármunir ónotaðir og var því veitt undanþága til að nýta styrkinn til að greiða niður aðrar tómstundir fyrir börn. Það hefur gefist vel og njóta nú allmörg börn á Suðurnesjum þess að taka þátt í tónlistarskóla og öðrum tómstundum sem annars ættu þess ekki kost.

Skref fyrir skref

Hitt verkefnið fékk yfirskriftina „Skref fyrir skref: Námskeið til uppbyggingar“.  Verkefnið varð til í umræðum um aðstæður skjólstæðinga okkar út frá þeirri reynslu sem fengist hafði af úthlutuninni. Niðurstaðan var sú að ekki aðeins þyrfti að mæta fjárhagslegum erfiðleikum þeirra heldur tengdust vandamálin í mörgum tilvikum einnig meðferð á þeim takmörkuðu fjármunum sem fólk hefði milli handanna.  Auka þurfti ráðgjöf og fræðslu í þeim efnum. 

Boðið var upp á fyrirlestraröð í októbermánuði með 4 fyrirlestrum, sem allir tengdust því að bæta líf sitt og lífsstíl.

Fyrsta kvöldið flutti Ásdís Ýr Jakobsdóttir frá SPKEF erindi þar sem hún kynnti þau úrræði sem boðið er upp á fyrir fólk í greiðsluvanda og  benti á þær leiðir sem bankar hefðu til að aðstoða fólk í vandræðum. Margir þeirra sem komu á erindi Ásdísar fengu svo frekari ráðgjöf hjá henni í framhaldi af fundinum. Áður hafði sóknarprestur fjallað um sjálfseflingu og sjálfstraust.

Annað kvöldið kom í kirkjuna fagfólk frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og flutti kynningu um heilsufar, hreyfingu og mataræði. Fyrirlesarar voru Þórunn Benediktsdóttir frkv stjóri hjúkrunar, Sonja Middelink sjúkraþjálfari og Sara Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari. Þær buðu einnig upp á ókeypis blóðþrýstings- og sykurmælingu og veittu heilsufarsráðgjöf. 

Þriðja kvöldið fræddi Lára Ómarsdóttir fréttakona okkur um listina að lifa af litlu. Lára greindi frá því hvernig hún skipuleggur innkaup sín og deildi með okkur reynslu sinni við að lifa af við þröng kjör.

Lokakvöldið fengum við svo Maríu Ellingssen leikkonu og kennara í Opna Háskólanum til að tala um venjurnar í lífinu.  Hún kynnti fyrir okkur í stuttu máli aðferðafræði Stevens Covey um venjurnar sjö sem miðar að því að breyta lífi okkar til hins betra með því að huga að langtímahegðun okkar.  

Öll kvöldin var boðið upp á heita súpu og kaffi.  Aðsóknin var ágæt en alls komu á milli 20 og 30 manns á hvert kvöld. Ánægjulegt er að segja frá því að margir þátttakenda buðu síðar fram krafta sína til sjálfboðaliðastarf fyrir Velferðarsjóðinn og nú um miðjan desembermánuð voru þeir í hópi fólks sem vann að undirbúningi matarúthlutun fyrir jólin.

Lærdómur

Niðurstöður þessa verkefnis eru þær að talsverð þörf er fyrir fræðslu fólks á svæðinu og má hún gjarnan haldast í hendur við þá beinu aðstoð sem þegar er veitt. Vandi Suðurnesja liggur ekki eingöngu í vannýttum orkulindum neðanjarðar, heldur ekki síður í því að mannauðurinn nýtur sín ekki sem skyldi.

Framhaldssýn Velferðarsjóðsins er því sú að auka enn við fræðslu og ráðgjöf af þessum toga. Leitað verður samstarfs sem fyrr við þá sem geta lagt þarf gott af mörkum. Þar ber einkum að horfa til sveitarfélagsins, til Virkjunarinnar upp á Ásbrú, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og háskólans að Keili. Fólk sem starfar að fjármálum hefur einnig boðið fram krafta sína til þess að hjálpa fólki við umsóknir og gerð framtala, auk þess stöðuga straums sem leggur til framlag sitt til styrktar sjóðnum.

Stuðningur frá grasrótinni

Þessi stuðningur kemur frá grasrótinni og hann hefur sýnt okkur fram á það hversu öflugt samfélagið okkar er þrátt fyrir þann mikla mótbyr sem það má glíma við og hér hefur verið fjallað um. Hvað sem öllum úrræðum líður þá verður hin raunverulega viðreisn svæðisins aðeins að veruleika með því að hlúa að þeim vaxtarbroddi sem í fólkinu býr.

Vandi Suðurnesjamanna er ekki afmarkaður við þetta landsvæði. Landsmenn þurfa allir að leggjast á eitt við að styðja íbúa á svæðinu til menntunar og styrkingar. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og sú staða sem ríkir á Reykjanesskaganum er landi okkar til lítils sóma. Með því að bæta kjör Suðurnesjamanna, verður þjóðfélag okkar öflugra og leiðin út úr kreppunni verður greiðari.

Með ósk um gleðilega jólahátíð.

Erindi flutt á málþingi sem haldið var á vegum Félagsmálaráðuneytisins í Ráðhúsinu í Reykjavík.