Sem kunnugt er barst sköpunarsagan í tal á þingi Evrópuráðsins nú fyrr í þessum mánuði. Lögð var fram ályktun þess efnis að kennsla í Vitrænni hönnun – eða Intelligent Design – yrði ekki stunduð í skólum þeirra landa sem eiga aðild að ráðinu. Fulltrúi Íslands á þinginu, Guðfinna Bjarnadóttir, greiddi atkvæði gegn ályktuninni og hefur sætt nokkurri gagnrýni fyrir.
Hugmyndafræði sú sem hér er fjallað um gengur út á það að túlka sköpunarsögu Biblíunnar með svo bókstaflegum hætti að þar sé að finna lýsingu á tilurð heimsins með öllu því sem í honum er. Trúarsöfnuðir vestanhafs hafa margir hverjir beitt sér fyrir því að slík kennsla sé stunduð í skólum og má jafnvel finna háskóla sem byggja líffræðikennslu sína á hugmyndunum um Vitræna hönnun.
Ástæða þess að Guðfinna samþykkti ekki ályktunina var að hennar sögn sú að engin vísbending væri um það að hugmyndafræði þessi ætti sér ríkan hljómgrunn hér í álfunni og engar tölur lægju fyrir þ.a.l. Bætti hún því jafnframt við að efnislega væri hún hlynt því að greina á milli trúar og vísinda og gerði um leið ljóst að hún aðhylltist ekki sjálf kenningar þessar.
Sú afstaða er að öllum líkindum dæmigerð fyrir stöðu hins almenna Íslendings sem er að miklu leyti mótaður af trúaruppeldi kirkju og skóla. Óhætt er að fullyrða að mótun sú sem þjóðkirkjan hefur stundað með öflugu barna- og unglingastarfi og ríkulegri þátttöku í lífi fólks í sorg og gleði hafi lagt mikið af mörkum til þess að skapa þá trúarlegu menningu sem hér ríkir. Samkvæmt könnunum eru Íslendingar afar jákvæðir í garð þróunarkenningar Darwins er og hlutfall þeirra sem hafna henni eða líta á hana sem ógnun við trúarsannfæringu sína, hverfandi lítið.
Ástæðu þessa má vafalítið rekja langt aftur í árdaga evangelískrar lútherskrar kirkju. Sé litið lengra um öxl og horft aftur til fyrri alda kemur vel fram skýr stefna um að setja mörk á milli trúarlífsins og þeirra sviða tilverunnar sem lúta að vísindum og umsýslu með veraldleg gæði. Kirkjan virti hlutverk sitt gagnvart söfnuðunum, m.a. að„ hughreysta þeirra hrelldu samviskur“, eins og það er orðað í Ordinansíunni frá 1537, en lét konunginum, og embættismönnum hans eftir önnur svið tilverunnar (Dipl. Isl. X, s. 199). Svipuð hugsun hefur æ síðan verið við lýði innan íslensku þjóðkirkjunnar. Kirkjan vill forðast það í lengstu lög að fara út fyrir mörk sín vitandi það að hið andlega og trúarlega svið lífsins er verðugt hlutskipti og ærið. Kristindómur sá sem þjóðkirkjan boðar leitast ekki við að taka sæti vísindanna eða að hnekkja á þeim þegar allt er með felldu. Þvert á móti er það stefna kirkjunnar að leggja sitt af mörkum til gróandi mannlífs og að efla hér velferð og hagsæld og leggja sitt af mörkum til þess gefandi samfélags ólíkra hópa sem stefna sjálfir að sama marki.
Sköpunarsögu Biblíunnar túlkar evanegelísk lúthersk hefð með þeim hætti að heimurinn, með öllu því sem í honum er, sé góð sköpun Guðs. Þetta stangast á við boðskap þeirra trúarbragða sem líta á við veraldlega sem illt afl og gera það að köllun mannsins að yfirstíga það eða hefja sig yfir það. Sú er ekki staða kristins manns. Sköpunarsagan er mikilvæg vísbending þess efnis að líf mannsins er hluti af stóru samfélagi alls sem lifir en minnir manninn um leið á ráðsmennskuhlutverk sitt og ábyrgð gagnvart lífi og náttúru. Frásögnin um sköpunina höfðar því til hins huglæga og andlega sviðs okkar en ber ekki að túlka sem vísindalega greingerð á tilurð heimsins.
Þegar farið er yfir landamæri trúar og vísinda verður því til fyrirbæri sem hvorki má með sanni kallast trú né vísindi. Það er ekki trú því það sækir rætur sína til skynseminnar/reynslunnar en ekki opinberunar út frá orði Guðs. Og það er ekki vísindi því það virðir ekki þá frumreglu vísindanna að hafna því sem ekki stenst próf efans.