Raunveruleg lífsgæði

Raunveruleg lífsgæði

Eitt af því sem mælikvarði Jesú Krists gengur út frá er að láta sér annt um annað fólk – annast þá sem minna mega sín. Á þeim grunni er óhætt að reisa velferðarríkið Ísland. Forgangsröðunin í samfélaginu ætti að endurspegla þann mælikvarða á lífsgæði sem lifað hefur af allar heimsins kreppur síðastliðin tvö þúsund ár.
fullname - andlitsmynd Kristinn Ólason
16. janúar 2009

Íslenska þjóðin þekkir mótlæti harla vel. Þau eru ekkert ný á nálinni. Íslandssagan er full af dæmum um áföll og harðindi af ýmsum toga, jafnvel af þeirri stærðargráðu að efnahagskreppa eins og sú sem nú ríður yfir, getur reynst léttvæg þegar upp er staðið. Munurinn er ekki síst fólginn í mannauðnum; Íslendingar hafa aldrei átt svo stóran hóp af vel menntuðu og skynsömu fólki sem er líklegt til að leggja mikið af mörkum í því endurreisnarstarfi sem framundan er. Það var ekki alltaf raunin. Stundum voru áföllin í íslenskri sögu af þeim toga að mannfólkið féll umvörpum – ekki bankar! Dæmi um slíkt er hin skæða bólusótt sem geisaði í upphafi 18. aldar, en það var gífurleg blóðtaka. Áætlað er að 35% landsmanna hafi látist af hennar völdum eða allt að 18.000 manns. Atburðirnir í kjölfar Skaftárelda síðar á 18. öldinni sem nefnast móðuharðindi eru af sama meiði því þá féllu 20% landsmanna eða rúmlega 10.000 manns. Sumir vilja líkja efnahagskreppunni nú við móðuharðindin og jafnvel kalla hana móðuharðindin hin nýju á sama hátt og ríkisbankarnir eru kallaðir Nýi Landsbanki og Nýi Glitnir. Slíkur samanburður er hins vegar vafasamur – ekki síst vegna þess að harðindin sem hér voru nefnd flokkast undir náttúrulegt böl sem manneskjan hefur ekki á valdi sínu – en efnahagskreppan er fyrst og fremst mannanna verk. Hún endurspeglar þá forgangsröðun og efnishyggju sem margir Íslendingar gátu fellt sig við, ekki síst vegna þess að margir nutu góðs af því góðæri sem hér hefur ríkt undanfarin ár. En nú er sú bóla sprungin og það þarf engan að undra þó spurt sé um orsök, ábyrgð og afleiðingar.

Biblía kristinna manna geymir fjöldann allan af textum sem voru skrifaðir í kjölfar endurmats vegna mótlætis og áfalla. Endurmatið sem Biblían lýsir snýst ávallt um grundvallarspurningar: Hver eru hin raunverulegu lífsgæði? Hvað er það sem mestu máli skiptir í lífinu? Hvar er uppspretta hamingju og lífsfyllingar? Þetta eru spurningarnar. Svörin sem veitt eru byggjast undantekningarlaust á þeim mælikvarða sem lagður er til grundvallar matinu. Sennilega er óhætt að fullyrða að efnahagslegur mælikvarði á velferð þjóðarinnar verði ekki eins áberandi í umræðunni næstu misserin eins og verið hefur á undanförnum árum. Mælikvarðinn skiptir miklu máli þegar kemur að því að móta lífsstefnuna. Enginn kemst hjá því að íhuga og gera það upp við sig hvaða leið hann vill ganga, hvaða stefnu hann tekur í lífinu.

Kristin kirkjan boðar mælikvarða á lífsgæði sem er ekki í líkingu við neitt annað á markaðstorgi lífsskoðana og heimsmyndar. Sá mælikvarði er Jesús Kristur, líf hans, dauði og upprisa. Að líta tilveruna hans augum, leggja mat á heiminn á forsendum hans – um það snýst boðskapur kirkjunnar! Í þessu er fólgin mikil von fyrir íslenska þjóð. Eitt af því sem mælikvarði Jesú Krists gengur út frá er að láta sér annt um annað fólk – annast þá sem minna mega sín. Á þeim grunni er óhætt að reisa velferðarríkið Ísland. Forgangsröðunin í samfélaginu ætti að endurspegla þann mælikvarða á lífsgæði sem lifað hefur af allar heimsins kreppur síðastliðin tvö þúsund ár.