“Í dag er glatt í döprum hjörtum” syngjum við í kirkjum landsins um jól. Þegar ég var barn átti ég erfitt með að skilja þessi döpru hjörtu sem sungið er um í jólasálminum góða. Jólin og aðventan voru jú tími gleðinnar og tilhlökkunar. En eftir að ég komst til vits og ára skil ég betur þetta með döpru hjörtun. Ég skil betur þegar talað er um jólakvíða, þegar talað er um jól í skjóli sorgar. Við vitum að það ríkir ekki hamingjan ein á öllum heimilum. Í hjörtum margra eykst kvíðinn og sorgin í takt við birtu jólaljósanna. Jólin eru einstakur árstími. Jólin eru tími fjölskyldunnar, tími hefðar og endurtekningar, sá tími þegar fortíð, nútíð og framtíð tvinnast saman, sá tími þegar minningarnar sækja að okkur, umfram allt sá tími sem við viljum helst vera með þeim sem okkur þykir vænst um. Stundin hér í kvöld er helguð ykkur hverju og einu. Hún er helguð minningunum ykkar, fjölskyldum og ástvinum, já ykkur sem hafið gengið í gegnum sorg á árinu, ykkur sem hafið verið og eruð enn á göngu eftir vegi sorgar og saknaðar.
Kannski eru aðeins örfáar vikur liðnar, jafnvel minna, síðan þú misstir ástvin þinn. Kannski eru einhverjir mánuðir liðnir ? Kannski var það á síðasta ári ? Kannski ertu nú þegar búin/n að upplifa fyrstu jólin þín eftir missi ? Hvar svo sem þú ert staddur eða stödd á vegi sorgarinnar, þá er alveg ljóst að jólaundirbúningurinn og jólahátíðin kalla fram ótal margar minningar og hugsanir og söknuðurinn verður kannski sjaldan jafn sár og áþreifanlegur og um jól. Ég hef verið prestur við Landspítalann síðast liðin 14 ár. Að starfa á sjúkrahúsi veitir á stundum mikla nánd við einstaklinga og við fjölskyldur á tímamótum, tímamótum sem jafnvel breyta lífinu varanlega. Mér er minnisstæð ein aðventan. Það var komið langt fram í desember. Ég var á hraðferð. Langaði að ljúka hratt verkefnum dagsins á spítalanum svo ég kæmist sem fyrst heim til dætra minna. Við ætluðum að baka piparkökur þennan dag, koma okkur í almennilega jólastemningu. Þá hringdi síminn, slysadeildin. Ungur maður, eiginmaður og faðir tveggja barna, hafði farist í bílslysi. Hvort ég gæti komið. Eða foreldrarnir sem áttu von á sínu fyrsta barni, jólabarninu sínu. Barnið kom í heiminn að morgni Þorláksmessu. . En óskabarnið fæddist með ólæknandi sjúkdóm og heimurinn hrundi. Ég lauk auðvitað mínum verkefnum, var þátttakandi í sorg þessara fjölskyldana um stundarsakir. Ég gat svo farið heim en alls ekki án þeirrar hugsunar hvernig þeim myndi reiða af, hvernig jólin yrðu í skugga þeirrar sorgar sem nú hafði kveðið dyra. Aðventana er nú gengin í garð af fullum þunga.
Þegar ég var að undirbúa orðin mín fyrir kvöldið í kvöld, komu upp í huga minn orð ekkjunnar sem fylgt hafði eiginmanni sínum til 35 ára til grafar tæpu ári áður, “mér fannst ég öll vera að koma til, mér fannst eins og ég væri að rétta úr kútnum, en þá var eins og jólin helltust yfir mig”!
Aðventan er margslunginn tími. Yndislegur tími. Viðkvæmur tími. Erfiður tími. Besti tími ársins, en líka sá sársaukafyllsti. Tími andstæðna. Jafnvel þótt við höfum ekki ekki gengið í gegnum sorg á árinu sem er að líða, þá eru jólin og aðventan sá tími þegar við horfum aftur til bernskunnar. Tími minninga. Við hugsum til ástvina okkar, ekki síst þeirra ástvina sem eru okkur horfnir. Þið eruð mörg hér í kvöld sem sjálfsagt skynjið innra með ykkur sjálfum hinar margslungnu tilfinningar og andstæður sem svo oft birtast okkur í hátíð aðventu og jóla.
Við ykkur sem nú syrgið, við ykkur sem nú horfið fram til jóla í skugga sorgar og saknaðar, við ykkur sem e.t.v. berið kvíða í brjósti frammi fyrir jólahátíð og jólahaldi, vil ég segja að jólin koma til okkar hvers og eins. Þau koma hvar sem við erum stödd í lífinu hverju sinni. Þau koma til okkar í gleði og þau koma til okkar í sorg.
Við erum sjaldan jafn bundin hefðum og venjum og um jólin. Hefðirnar eru fyrir okkur mörgum stór hluti jólagleðinnar. Að gera hlutina eins ár eftir ár. Við erum vön hinum og þessum jólasiðunum. Það eru ekki jól nema við fáum frómasinn hennar ömmu eða súkkulaðismákökurnar hennar mömmu. Hefðirnar eru hluti af okkur sjálfum og fjölskyldum okkar, hluti af sögu okkar hvers og eins. Þær eru um leið hluti af því hvernig við deilum hamingju okkar með þeim sem okkur þykir vænst um. Auðvitað er þetta dýrmætt. En munum þó að hefðirnar eru fyrir okkur en ekki við fyrir þær ! Látum þær ekki stjórna okkur. Höfum hlutina eins og okkur líður best með. Gerum það sem við treystum okkur til og það sem okkur langar til. Nú horfum við fram til jóla, kannski fyrstu jólanna án ástvinar okkar. Ef við viljum hafa þessi jólin með öðrum hætti en venjulega, þá er það allt í lagi. Ef við viljum halda í allt það hefðbundna, þá er það líka allt í lagi. Mundu að það er aldrei hægt að segja að eitthvað eitt sé rétt og annað rangt. Mundu líka að hvernig sem jólahaldið þitt verður, þá verður það með öðrum blæ þessi jólin en venjulega. Það er líka öruggt að sá eða sú sem þú syrgir og saknar mun með einum eða öðrum hætti fylgja þér í gegnum jólahaldið þitt. Gefðu minningunum sitt svigrúm. Gefðu þeim tækifæri. Leyfðu þér að minnast ástvinar þíns. Nefndu hann eða hana með nafni, ryfjaðu upp þær minningar sem þér þykir vænt um. Það hjálpar líka þeim sem í kringum þig eru.
Mundu líka að þú mátt gleðjast. Ef þú finnur gleðitilfinningu á einhverjum tímapunkti aðventu og jóla, þá er það í góðu lagi og eðlilegt. Það er allt í lagi að gleðjast. Þú þarft ekki að fyllast sektarkennd vegna þess. Leyfðu þér að hlæja. Leyfðu þér að finna frið í hjarta. Vertu góð eða góður við sjálfa þig eða sjálfan þig. Mitt í sorginni er gleðin og hláturinn hluti af lækningunni. Gleðin er engin vanvirðing við ástvin þinn. Sú staðreynd að þú getur jafnvel brosað út í annað er enginn mælikvarði á minnkandi tilfinningar þína í garð ástvinar þíns. Ef þú því finnur að þú getur glaðst, þótt ekki sé nema augnablik í senn, þá taktu því fagnandi. Vissulega eru kaflaskil í lífi þínu. Lífið verður aldrei alveg eins. En það heldur áfram og það getur orðið gott þrátt fyrir allt. Ímyndaðu þér að þú spyrjir ástvin þinn hvort þú megir finna gleðina á ný. Ímyndaðu þér líka svarið.
Og ef þú finnur fyrir vansæld og vanlíðan, þá er það líka allt í lagi. Það er engin ákveðin uppskrift að því hvernig okkur á að líða. Sorgin á sér einfaldlega svo ótal mörg andlit.
Og að lokum.
Haltu upp á hin raunverulegu jól, jólin sem eiga rætur að rekja til jötunnar í Betlehem. Hugsum um Maríu, Jósef og barnið. Þetta er falleg mynd. Heilög mynd. Við sjáum fyrir okkur Maríu mey, glaða og hamingjusama á þessum myndum, með bústið Jesúbarnið í fanginu. Þessi sama mynd hefur sjálfsagt oft prýtt jólakortin okkar. Horfum betur á myndina, horfum á bak við hana. Ef við hugsum okkur aðeins um, þá sjáum við strax að hin fyrstu jól voru engin glansjól. Þvert á móti. Þau segja okkur sögu kornungrar, ráðvilltrar móður sem fæddi fyrsta barnið sitt, fjarri heimahögum, hjálparlaus innan um kýr og kindur. Þessi litla saga hennar Maríu forðum endurspeglar lífð eins og það svo oft er. Líf okkar er sjaldnast eins og á glansmynd. En munum eftir fyrirheitinu sem var fólgið í þessu litla barni. Saga hinna fyrstu jóla er saga lífsins, saga okkar hvers og eins þar sem skiptast á sigrar og ósigrar, gleði og sorgir. Saga okkar hvers og eins er einstök og lang oftast óútreiknanleg. Við vitum aldrei hvað bíður okkar handan við hornið. Eins og segir í jólakvæðinu gamla, “Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól”. Leyfum Jesúbarninu að fylgja okkur inn í jólin, að vera með okkur í gleði og sorg. Leyfum boðskap jólanna að fylla okkur friði og gleði mitt í sorginni, leyfum honum að gefa okkur von um betri tíð. Ég leyfi jólasálminum góða sem ég vitnaði í hér í upphafi að vera lokaorðin mín hér í kvöld. Í dag er glatt í döprum hjörtum, Því Drottins ljóma jól. Í niðamyrkum nætur svörtum Upp náðar rennur sól. Er vetrar geisar stormur stríður, Þá stendur hjá oss friðarengill blíður, Og þegar ljósið dagsins dvín, Oss Drottins birta kringum skin. Guð gefi okkur öllum góða aðventu og síðan gleðileg jól.