Ef að Jósef og María kæmu til Betlehem um þessi jól væri nóg af rúmum í gistihúsinu. Hins vegar kann að vera að þeim hefði brugðið við háan múrinn sem liggur í gegnum aðalgötu bæjarins og lokar leiðinni inn. Og lokar fólkið inni. Fáir ferðamenn treysta sér til Betlehem um þessar mundir.
Ef að Jósef og María kæmu til Betlehem um þessi jól kynni líka að vera að ungu strákarnir á herstöðinni við múrinn meini þeim inngöngu – eru þau með rétta gerð af vegabréfi? Ófrískar konur er sérstaklega grunsamlegir ferðamenn á þessum slóðum og oft stöðvaðar við hliðin á múrnum, á þessum illræmdu “Check points”. Þar hafa mörg börn fæðst því að sjúkrabílnum eða fjölskyldubílnum var ekki hleypt áfram á sjúkrahúsið. Ef að Jósef og María hefðu komið til Betlehem um þessi jól er hreint ekki ólíklegt að Jesú hefði fæðst á check point, við hliðina á ungum hermanni með alvæpni sem tekur sér hálftíma sígarettuhlé og lætur alla bíða, konur í barnsnauð, sjúkrabíla, fólk á leið í skóla eða vinnu. Hans er valdið. Fólkið, foreldrarnir, börnin eru varnarlaus.
Múrinn í miðjum bænum
Fyrir tuttugu árum varði ég talsverðum tíma á söguslóðum Biblíunnar, í Jerúsalem, Betlehem, Jeríkó og við Genesaretvatn. Ég bjó sumarlangt í Beit Hanina þar sem Lúterska heimssambandið rekur iðnskóla. Beit Hanina er rétt hjá Ramallah þar sem Palestínska heimastjórnin hefur aðsetur. Og báðir þessir bæir eru rétt hjá Jerúsalem, svæðið er á stærð við höfuðborgarsvæðið okkar, en þéttbýlla og meiri umferð. Það var auðvelt að ferðast um Vesturbakkann á þessum tíma og gaman að fara til Betlehem og á aðra sögufræga staði.
Ég kom aftur á þessar slóðir til að taka þátt í stjórnarþingi Lúterska heimssambandsins í septemberbyrjun á þessu ári. Ég hafði í 20 ár fylgst með þróuninni í landinu, heyrt um múrinn sem verið var að byggja, talað við fólk sem hafði unnið í sjálfboðastarfi á vegum samkirkjulegra samtaka við að aðstoða Palestínumenn, til dæmis fylgja börnum í skólann. Ég hélt að ég vissi mikið um pólitískt ástand svæðisins. En ég vissi ekkert.
Ekkert getur búið mann undir að mæta múrnum sem nú liggur bæði í gegnum Betlehem og í gegnum Beit Hanina, bæinn sem ég bjó í. Múrinn er hvergi í grennd við grænu línuna sem dregin var í alþjóðasamningum milli landssvæðis Palestínumanna og Ísraelsríkis. Múrinn er nær eingöngu langt inni á landi Palestínumanna, í miðjum bæjum og hringinn í kringum þorp.
Hvatt til friðar- og pílagrímsferða til að kynnast ástandinu
Þinggestir á stjórnarþingi Lúterska heimssambandsins fengu áþreifanlega að reyna hversu erfitt það er að ferðast í hersetnu landi þar sem múr aðskilnaðar hefur verið reistur í gegnum bæi og þorp. Oft töfðust rútur við eftirlitsstöðvar, stundum bara vegna þess að hermennirnir voru að reykja og spjalla, síðan var einhver dreginn út og ásakaður um rangan passa. Við misstum til dæmis af flugvélinni heim vegna slíkra tafa, en það er algjört smámál miðað við skelfilegar afleiðingar múrsins fyrir daglegt líf í Palestínu. Í ályktun frá þinginu er þess krafist að hernámi Ísraela í Palestínu ljúki. Þar er ástandinu lýst svo: „sóknarbörn geta ekki sótt messu, bændur komast ekki á akra, skólabörn eru hindruð í að komast í skólana og sjúklingar, læknar og heilsugæslustarfsfólk kemst ekki á sjúkrahús eða á heilsugæslustöðva. [..] Reynsla okkar hér knýr okkur til að hvetja allar aðildarkirkjur Lúterska heimssambandsins til að hvetja til friðar- og pílagrimsferða til kirknanna á þessu svæði til að fólk fái að upplifa lífskjör á Palestínsku landssvæði og til að styrkja það í trúnni.“
Mig langar að taka undir síðustu orðin hér. Farðu í pílagrímsferð til landsins helga og sjáðu með eigin augum hvað er að gerast þar. Talaðu við prestana í Betlehem, Jerúsalem og Ramallah – og heyrðu hvernig líf kristinna Palestínumanna er, og líf múslimskra bræðra og systra. Og vertu endilega á hóteli í Betlehem – þessa dagana er nóg rúm í gistihúsinu.