Takk, Guð, fyrir að ég er ekki ...

Takk, Guð, fyrir að ég er ekki ...

Það er gömul saga og ný að við mennirnir eigum mjög auðvelt með að sjá veikleika annarra en líta framhjá okkar eigin. ,,Þið bendið á flísina í auga náungans en sjáið ekki bjálkan í eigin auga.” sagði Jesú. En af hverju gerist þetta? Hvernig stendur á því að við eigum svona auðvelt með að benda á galla náungans en lítum jafnframt framhjá okkar eigin syndum?

Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða. Lk. 18.9-14

Kennari minn í guðfræðideildinni sagði okkur frá eldri konu sem kom til hans eftir messu og sagði við hann: ,,Mikið var þetta nú góð ræða Séra minn, en afskaplega var ég svekkt að hún Gunna skildi ekki koma til messu, þetta var einmitt boðskapur sem hún þurfti að heyra.”

Það er gömul saga og ný að við mennirnir eigum mjög auðvelt með að sjá veikleika annarra en líta framhjá okkar eigin.

,,Þið bendið á flísina í auga náungans en sjáið ekki bjálkan í eigin auga.” sagði Jesú.

En af hverju gerist þetta? Hvernig stendur á því að við eigum svona auðvelt með að benda á galla náungans en lítum jafnframt framhjá okkar eigin syndum?

Gæti verið að það sé vegna þess að það er í senn óþægilegt og erfitt að líta í eigin barm og horfast í augu við galla sína. Að það gári vatnið að horfast í augu við gamlar og nýjar syndir og þurfa ef til vill að gera eitthvað í málunum?

Þá er auðvitað miklu auðveldara að lifa í afneitun og horfa frekar í kringum sig og leita eftir því sem fer miður hjá náunganum. Hvar er nú hún Gunna? Hún þyrfti sko að heyra þetta? Hún er svo rosalega hrokafull!

Afneitunin er sterkt afl, en alger andstæðingur framfara og bata. Sá sem lifir í afneitun og þorir ekki að horfast í augu við syndir sínar og mistök mun aldrei ná framförum í hátterni sínu eða trúarlífi. Afneitunin leysir ekki neitt. Það er einu sinni þannig að þó við lokum augunum fyrir staðreyndunum, hætta þær ekkert að vera staðreyndir. Þó við lokum augunum fyrir syndum okkar, hætta þær ekki að vera syndir.

Faríeseinn í guðspjallið dagsins lifði í afneitun um að nokkuð væri að honum, hann lokaði augunum fyrir eigin syndum, en benti í staðinn á tollheimtumanninn og þakkaði fyrir að vera ekki eins og hann.

,,Sá sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða.”

Sálfræðingur sagði mér einu sinni frá því að sú setning sem hann notaði mesti í sínu starfi væri eftirfarandi: ,,það er sama hvað við spjöllum lengi saman, svo lengi sem þú sjálfur ert ekki tilbúin að horfast í augu við vandann muntu aldrei leysa hann. “

Í orðum sálfræðingsins endurómar boðskapur dagsins. Sá sem vill ekki skoða draslið í herbergi sínu, mun aldrei geta tekið til í því. Sá sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða.

Það er langt í frá auðvelt að gegnumskoða sjálfan og játa að það sé eitthvað að.

Tollheimtumanninum í textanum þótti það raunar svo erfitt að hann stóð langt frá helgidóminum og þorði ekki að líta upp til himins er hann sagði: ,,Guð vertu mér syndugum líknsamur” En hann fór réttlátur heim, hann auðmýkti sig og var því upphafinn.

Ágústínus kirkjufaðir sagði einhvern tímann að kirkjan væri ekki hótel fyrir heilaga heldur sjúkrahús fyrir syndara.

Hvort sem það er í trúarlegum tilgangi eða í lífinu almennt er fátt sem veitir meiri lausn en að gegnumskoða sjálfan sig og horfast í augu við syndir sínar. Það er vissulega þversagnakennt en: Það sem meiðir og er erfitt – þ.e. að fá leyndarmál sín og galla afhjúpuð- er um leið það sem frelsar og veitir lausn.

Það fylgir því léttir að draga syndina fram í dagsljósið-eða það sem leitt getur til syndar. Þá fyrst er hægt að taka framförum og þá fyrst er hægt að öðlast fyrirgefningu.

Kristur sjálfur býður með faðm fyrirgefningarinnar, hann stendur og segir ,,barnið mitt syndir þínar eru fyrirgefnar” og það að gegnumskoða sjálfan sig og játa mistökin er í leiðinni tækifæri til að taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni. Þá sjáum við hvað er að og hvað við þurfum með Guðs hjálp að bæta.

Vissulega getum við aldrei losað okkur við syndina, hún er okkur sammannleg ,,Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð” freistingar munu ávallt bíða okkar á hverjum degi.

En það er eins með syndina og fugla himins, við getum ekki komið í veg fyrir að fuglar himins sveimi yfir höfðum okkar en við getum komið í veg fyrir að þeir geri sér hreiður á í hári okkar.

Til að syndin taki sér ekki varanlegan bólstað í hjarta okkar megum við ekki afneita henni heldur játa hana reglulega og fara með bæn tollheimtumannsins. Guð, vertu mér syndugum líknsamur. Í texta dagsins takast á hroki og auðmýkt.

Ég átti alltaf erfitt með orðið auðmýkt þegar ég var lítill og heyrði það oft notað í kirkjunni. Lítill barnshugurinn tengdi það við mýkingarefni fyrir þvott. –Auðmýkt- Kannski var það ekki svo fjarri lagi.

En segja má að ég hafi skilið hugtakið best þegar ég heyrði að garðyrkjumenn tala stundum um auðmjúkan jarðveg. Auðmjúkur jarðvegur er jarðvegur sem auðvelt er að rækta í. Hann er steinalaus og hefur verið hreinsaður af öllu því sem spillir fyrir góðum vexti. Auðmjúkur jarðvegur er í rauninni bara gæðamold.

Með því að vera auðmjúk gagnvart Guði, sköpum við góðan jarðveg fyrir hann að gera mikið úr lífi okkar. Syndin og hrokinn, eru steinar í moldinni sem koma í veg fyrir að við berum ávöxt.

Í bókinni Gæfuspor þar sem heimspekingurinn Gunnar Hersveinn hugleiðir útfrá kristnum grunni segir hann eftirfarandi orð um auðmýktina:

Sá sem nemur auðmýkt verður mjúklyndur í hjarta. Auðmýkt er tilfinning sem foreldrar rækta með börnum sínum meðal annars með því að kenna þeim að bera virðingu fyrir öðrum. Auðmýkt felst þannig í viðhorfi gagnvart umhverfi sínu og sjálfum sér. Sá sem er auðmjúkur gerir sér grein fyrir smæð sinni en þó án þess að missa móðinn, þvert á móti vill hann leggja sitt af mörkum án þess að upphefja sjálfan sig. ... Auðmýkt gagnvart lífinu felur í sér löngun til að hlúa að sprotunum sem vaxa í stað þess að traðka á þeim. Sá sem tileinkar sér auðmýkt verður ekki sakaður um skeytingarleysi gagnvart öðrum.

Faríseinn í dæmisögu dagsins, var ekki tilbúin að horfast í augu við sinn vanda. Hann velur auðveldari leið, hann afneitar því að nokkuð sé að sér. Hann ber sér, þess í stað á brjóst, fullur hroka og segir ,,Takk Guð, fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn.” Svo tilgreinir hann ræningja, rangláta og hórkarla og álítur sjálfan sig vera yfir þá hafna. Að lokum bendir hann á tollheimtumanninn sem dæmi um mann sem sé mun verri en hann og segir: takk fyrir að ég er ekki eins og hann.

Tollheimtumaðurinn, þorir hins vegar varla að líta upp í bæn sinni, hann hefur farið hina erfiðu, en frelsandi leið, hann hefur horfst í augu við galla sína og biður. ,,Guð, vertu mér syndugum líknsamur”

Munurinn á afstöðu mannanna liggur í viðmiðum þeirra. Faríseinn finnur þá sem lægst þykja standa í þjóðfélags röðinni og miðar sig útfrá þeim. Í afneitun sinni notar þá sem hvað verst eru staddir til að upphefja sjálfan sig.

Tollheimtumaðurinn miðar útfrá því að hann sé skapaður í Guðs mynd, hann miðar útfrá fullkomleikanum. Þannig verða syndir hans honum ljósar. Hann vill ganga á Guðs vegum og iðrast feilspora sinna.

Boðskapur dagsins er því þessi:

Við eigum að horfast í augu við syndir okkar, við eigum að játa þær fyrir Guði og iðrast þeirra, þá mun Guð vera okkur líknsamur. En jafnframt þurfum að leita leiðsagnar Hans og leitast við að taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni.

Við útskrifumst aldrei sem kristnir einstaklingar, trúarlegan þroska getum við aldrei tekið út og sagt, nú er ég fullnuma.

Kristnu fólki ber leitast við að þekkja smæð sína og biðja bænarinnar: Guð, vertu mér syndugugum líknsamur. Boðskapur dagsins er ætlaður þér, en ekki bara henni Gunnu sem þyrfti svo að heyra hann.

Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.