Flutt á nýársdag
Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi. Lúk. 2:21
Gleðilegt nýtt ár. Það er gott að vakna upp til sérhvers nýs dags, og nýrra tíma. Einhverjir eru að vísu nokkuð seinir að átta sig á morgni nýjárs, en það fylgja því yfirleitt ekki neinir eftirmálar. Þannig er venjan á slíkum tímamótum, og segja má að þjóðin, jafnvel heimsbyggðin öll sameinist um það að gera sér dagamun. Þá er gengið seint til hvílu og vaknað seint, þótt auðvitað sé það engan veginn einhlítt. En það er nýr dagur, nýtt ár tímatalsins, nýr tími runninn upp. Og eins og á ferðalagi þá vaknar spurningin: Hvert er ferðinni heitið? Hvert vil ég fara?
Þegar framhald jólaguðspjallsins er lesið er ljóst að í huga Maríu og Jósefs skipti mestu að öðlast blessun Guðs barninu til handa. Sjálf vildu þau uppfylla viðteknar venjur trúar sinnar, og drengurinn var umskorinn og formlega gefið nafnið, sem þau höfðu þegar heyrt af munni engilsins og ákveðið. Þannig uppfylltu þau reglur samfélagsins um leið og þau báru barnið fram til bænagjörðar í helgidóminum. Þar hlaut hann blessun Guðs fyrir bænir Símeons gamla, hins réttláta og guðrækilega manns, og Önnu, ekkjunnar, sem þjónað hafði með föstum og bænahaldi í helgidóminum í meir en hálfa öld. Bæði voru þau augljósir og viðurkenndir boðberar trúar sinnar. Blessun fyrirbænarinnar er vörn trúarinnar, og fyrirheit um handleiðslu Guðs.
Jesú. Nafnið þýðir Guð bjargar. Það nafn átti síðar eftir að fá dýpri merkingu. Með nafnið sitt, blessun Guðs og fyrirheit, lagði þetta litla barn af stað út í lífið. Barn hefur ávallt og alls staðar verið talið hin mesta og dýrmætasta af öllum gjöfum Guðs. María og Jósef áttu greinilega þann skilning í brjósti sér. María geymdi auk þess þá boðun í hjartanu, að henni hefði verið trúað fyrir alveg sérstöku hlutverki af Guði og því vildi hún vera trú umfram allt. Jesú. Barn Maríu. Barn Guðs.
Það er jafnan gott að vera vel og rétt búinn til næstu dagleiðar. Og rétt nestaður. Hin gríska goðafræði geymir söguna af Þetísi sjávargyðju, sem átti soninn Akkilles. Hún laugaði hann upp úr Stígsfljóti, honum til blessunar og varnar fyrir öllum illum skeytum í vopnalíki. Styx var elfur undirdjúpanna, en áheitalaug guðanna um leið. Þetis hélt fast um fót drengsins og baðaði hann allan, en hællin laugaðist ekki. Seinna þegar Akkilles varð ógnarmikil bardagamaður og hetja í Trojustríði, varð það fyrir tilstilli Appollosar hins mikla sjávarguðs að hugleysinginn París beindi ör sinni að Akkillesi, Hún stakkst í hælinn og varð honum að bana. Þar með varð til hugtakið “akkillesarhæll”, þ.e. þegar eitthvað vantar á til að vera fullkomið. Það er auðvelt að láta sér í sama andartaki detta í hug goðsögn Eddu af Baldri góða og Heði blinda, sem Loki leiddi til vanhæfuverks, og mistilteinninn deyddi, af því að hann hafði ekki verið látinn vinna eið friðhelgunar vegna ungdóms síns. Þannig gat illskan og fláræðið notað sér blindu mannsins og andvaraleysi til að vinna mikinn skaða, sundra samfélaginu og deyða. Og ljómi goðanna, Baldur góði, féll. Goðheimur grét.
Akkillesarhæll þessara tveggja sagna er í sjálfu sér ekki vandamálið, heldur sú kennd, sem notar sér veikleikann, brestina, hið ófullkomna í fullkomleikanum. Þetta snýst um þá þætti í hugsun, skaphöfn og forræði mannverunnar, sem hefur með frumkvæði hans að gera, vit og skilning, vitsmunalega útfærslu, sem mætti kalla klækjabrögð, af því að hún hefur svo oft afdrifaríkar og slæmar afleiðingar. Enda segir m.a. í orðskviðum Salómons: “
Margur vegurinn virðist greiðfær en endar þó í helju. Þótt hlegið sé kennir hjartað til, gleði kann að enda í trega.” (Orðskv. 14:12-13).
Sál var konungur gyðinga. Óhamin skaphöfn var hans Akkillesarhæll. Hann kastaði spjóti að sínum besta manni, Davíð, og við lá, að það yrði hans dauði. Ef Sál hefði betur hugað að eða hlustað eftir góðum ráðum, hefði honum verið betur ljóst, hver var hans veiki blettur og þá brugðist við öðru vísi en hann gerði. Og af því að í Sál er bæði að finna veika blettinn og hina afvegaleiðandi kennd, þá ísmeygilegu löngun, sem vill slíta skipulagið í sundur, aðskilja, sundra, deyða, þá sjáum við hinn upprunalega vanda mannsins birtast í honum. Biblían kallar það synd. Það sem skilur okkur frá Guði er syndin. - Þegar syndin er nefnd á nafn, er mörgum brugðið eða þeir dæsa, því þá halda þeir að nú eigi að fara að skammast. Svo er ekki. Við skulum ekki vera hrædd við hugtökin, heldur mæta þeim óttalaus og hugleiða þau. - Það sem sundrar í lífi okkar er synd. Öfund, ágirnd, reiði, leti, svo við tökum bara hluta af höfuðsyndunum, hafa það sameiginlegt að aðskilja okkur frá því góða, sundra því sem heilt er, og afskræma það sem er réttlátt. Syndin er ekki komin til af því að móðir okkar gleymdi að þvo okkur á bak við eyrun, en við getum verið blaut á bak við eyrun, þótt fullorðin séum, og gert ýmsar vitleysur., jafnvel gegn vilja okkar. Sjáum nú til.
Syndin er hluti af frumveruleika manneskjunnar, hugsuninni, hjartanu, tilfinningunni. Þegar þetta skrýtna afl nær að “grassera” í brjósti okkar, erum við sem slegin blindu, óvarin og auðveld bráð. Ef okkur verður það ljóst er mikilvægt að láta ekki hugfallast, heldur skilgreina fyrirbærið og bregðast við. Hin djúpt liggjandi synd skírskotar ekki endilega til einhverra ósiðlegra atvika eða asnalegra afreka, sem við höfum unnið. Hún skírskotar til dýpri atriða en einstakra verka, vegna þess að hún vísar til þeirra kenndar og tilhneigingar, sem liggur að baki hverri hugsun og hverri framkvæmd í lífi okkar. Þess vegna erum við ekki syndarar af því að við syndgum annað slagið, heldur syndgum við annað slagið vegna þess að við erum syndarar. (Sjá: The gospel according to peanuts, Robert L. Short, bls. 38). Vandinn er nefnilega sá að við erum svona eins og við erum og í andvaraleysi og skorti á samkennd og tilfinningalegum þroska getur það bara versnað. Ó, Jesú minn!
Af þessum orðum vaknar spurningin: Er á mér veikur blettur? Akkillesarhæll. Og finnst einhvert fyrirbæri í náttúrunni, sem er undanskilið friðhelgun gagnvart mér? Þekkir einhver þennan vanbúnað og getur hann notað sér þá vitneskju? Er eitthvað sem krefst umskurnar, umskurnar hjartans?
Já, er á mér veikur blettur? Já. Það er í mínum huga alveg klárt mál. Mér finnst ég finna fyrir því, jafnvel sjá þetta fyrirbæri. Stundum er eins og ég geti gefið því nafn. Það gerir málið allt auðveldara. T.d. þegar ég get gefið því nafn erfðasyndarinnar. “Þú ert latur!” “Þú ert ágjarn”. “Þú ert eigingjarn”, o.s.frv. Og stundum geri ég það, sem ég vil ekki gera. Stundum er sagt: “Mér varð það á”, og nokkra þingmenn heyrði ég segja í umræðunni um “Icesafe”: “Ja, ég er neyddur til að samþykkja frumvarpið, af illri nauðsyn”. Páll postuli orðar þetta svo:
Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég
En ef ég geri það sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur sem framkvæmi það heldur syndin sem í mér býr.
Þannig reynist mér það sem regla að þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast. (Róm 7:19-21)
Ó, góði Jesú. Þetta er ekki auðvelt. Kannski getum við sameinast um eitt á nýju ári? Við getum hafið daginn á því að gera eins og María og Jósef : Þau treystu á það sem þau þekktu best. Þau fylgdu reglunum, sem samfélag þeirra hafði þróað og þroskað með sér um aldir. Þau báðu fyrir barninu sínu, báru það fram fyrir Guð, leituðu fyrirbænar góðs fólks og leituðu sannleikans í því að hlusta eftir orði Guðs. Kannski getum við hvatt hvert annað til þess að iðka enn betur þann trúar- og siðferðisarf, sem okkur var kynntur og gefinn í orði Guðs. Það gerum við með lestri og hlustun, en líka í helgihaldinu sjálfu, þar sem við erum þátttakendur. Enginn kennari hefur í þessu efni verið betri en Jesús sjálfur. Nafnið hans er besta tryggingin fyrir því að til sé leiðarljós og að úr málum okkar geti ræst. Að ég geti orðið svolítið betri en ég var í gær. Að mér takist að finna veika blettinn, ekki á öðrum endilega, heldur fyrst og fremst á mér sjálfum, síðan getum við hjálpast að. Til þess þarf ég leiðsögn. Leiðsögn einhvers, sem er heill og sannur og getur hvort tveggja sigrast á syndinni og hreinsað mig af henni. Gert mig heilan á ný, heilan í lífi mínu, framkomu og breytni, heilan frammi fyrir Guði. Jesú. Í nafni Jesú.
Ef ég á að hrósa mér vil ég hrósa mér af veikleika mínum. 2. Kor. 11:30.
Sá veikleiki sem er mér um megn er honum sigur. Þess vegna gerum við eins og María. Færum barnið strax í helgidóm Guðs og biðjum hann að blessa það. Það er skírn í nafni Jesú Krists. “Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.” 1. Pét. 3:21). Þannig vinnum við í Jesú nafni.
Tveggja ára ónefndur drengur er í óða önn að læra tungumálið, en af munni barna verða almenn orðatiltæki oft athyglisverð: “Láttu nú ekki svona”, sagði hann með áherslu, þegar honum líkaði ekki ástandið. Já, nú dreg ég í land, en eins og Efraím sýrlendingur segir : “Ef (Jesús) hann var ekki maður, hver var það þá sem lá í jötunni? Ef hann var ekki Guð, hvern sungu þá englarnir?
Áfram enn í Jesú nafni. “Orð Drottins er lampi fóta minna ljós á vegi mínum.” Amen.