Árið 1948 útvarpaði breska ríkisútvarpið rökræðum tveggja heimspekinga, Fredericks Copleston og Bernthads Russell, um tilvist Guðs. Copleston var kristinn og Russel aðhylltist guðleysi.
Ekkert upphaf, enginn skapari
Samtalið vakti athygli og í kjölfarið lögðu fræðimenn á það mat hvor hefði staðið sig betur. Almennt var það álit þeirra að í þeim hluta sem varðaði samspil trúar og siðferðis hefðu sjónarmið Copleston vegið þyngra. Russell á hinn bóginn þótti hafa yfirburði þegar kom að því sem hann kallaði mótsagnir á milli vísindalegrar hugsunar og hinnar trúarlegu. Og hverjar skyldu nú hafa verið helstu röksemdir hans í þeim efnum? Jú, hann þráspurði viðmælanda sinn hvernig það gæti farið saman að samþykkja hina viðurkenndu heimsmynd þess tíma að alheimurinn ætti sér ekkert upphaf og svo hitt að játa trú á skapara himins og jarðar. Copleston átti í erfiðleikum með að bregðast við þessari gagnrýni.
Skoðanakönnun Siðmenntar
Mikið vatn hefur síðan runnið til sjávar og í nýlegri skoðanakönnun á vegum Siðmenntar var fólk beðið um að taka afstöðu til þess hvort það liti svo á að alheimurinn ætti sér upptök í Miklahvelli eða hvort Guð hafi skapað heiminn. Þetta eru einkennilegir valkostir. Ekki kemur þó á óvart að flestir velji þann svarlið sem lýsir þeirri heimsmynd sem viðurkennd er á okkar tímum. Á Íslandi hafa kynslóðir alist upp í menningu sem mótuð var af frjálslyndri þjóðkirkju. Einkennandi fyrir hana er jákvætt viðhorf til vísinda, þar á meðal hugmyndarinnar um Miklahvell.
Ógildir afarkostir
Með því er kristnum sköpunarskilningi þó engan veginn hafnað. Sköpun samkvæmt þeim hugmyndum, er ekki vísindakenning um tilurð heimsins og þróun hans. Hugtakið vísar til þess að í veruleikanum megi finna tilgang og reglu og að Guð sé þess megnugur að koma reglu á óreiðuna og umbreyta til góðs. Þessi afstaða birtist í margvíslegum sköpunarfrásögnum Biblíunnar.
Þess má jafnframt geta að sá vísindamaður sem setti fram kenninguna um Miklahvell var rómversk-kaþólski presturinn Georges Lemaître. Á grundvelli kristinnar trúar sá hann enga mótsögn í vísindalegum hugmyndum sínum um tilurð heimsins og þeirrar afstöðu að heimurinn ætti sér skapara.
Rökin sem Russell beitti til stuðnings guðleysi sínu þættu vart brúkleg í slíkum rökræðum á okkar dögum. Nú teflir Siðmennt ranglega fram sem andstæðum, sköpun og Miklahvelli, og lætur fólk velja á milli. Sú viðleitni er að sama skapi dæmd til að mistakast. Þessari könnun ætti að taka með miklum fyrirvara.
(Grein þessi átti að birtast í blöðum en fyrir klaufaskap minn þá drógst það of lengi svo ég lét nægja að birta hana á þessum vettvangi. Ég þakka Bjarna Randver Sigurvinssyni fyrir góðar ábendingar.)