Sjáið og trúið!

Sjáið og trúið!

Fólk sem er kristið í sögulega réttri merkingu skilur ekki svona tal. Samkvæmt kristinni trú getur vonin aldrei komið á undan upprisutrúnni eða staðið óháð henni. Hvaða von er fólgin í kristinni trú ef Jesús reis ekki upp frá dauðum? Ef Jesús var aðeins venjulegur maður þá hefur hann ekkert meira um líf okkar að segja en hver annar.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Gleðidagarnir standa nú yfir, dagarnir milli páska og hvítasunnu. Gleðin er vitanlega yfir upprisu Jesú og sigri hans yfir dauðanum. Með honum hafa þau umskipti orðið að kærleikur Guðs hefur brotið sér leið inn í veröldina og mun að endingu umbreyta þessum heimi til þeirrar myndar sem honum var upphaflega ætlað frá hendi skaparans.

Að þessu sögðu skal minnt á að upprisan er enginn táknrænn atburður í hugum kristins fólks. Upprisan er raunverulegur atburður sem átti sér stað á sögulegum tíma og á sögulegum stað. Sé það ekki svo þá er grundvellinum kippt undan kristinni trú og hinni kristnu von. Ef Jesús er ekki raunverulega upprisinn þá er trú okkar innihaldslaus með öllu og merkingarlaus, í raun lítið annað en óskhyggja, og við þá sannarlega aumkunarverðust allra, svo gripið sé til orða postulans.

Staðreyndin er sú að margir skilja upprisuna eftir í sögulegu tómarúmi og eru jafnvel tilbúnir að afskrifa kristna trú sem tóma goðsögn, og upprisuna sem einhverja „eftir á skýringu“ sem enginn fótur er fyrir. Þannig mátti hlusta á Rás 1 á páskadagsmorgunn á prófessor í Nýja testamentisinsfræðum sem hélt því fram að upprisuatburðurinn væri aðeins „mýta“. Síðast í morgun mátti hlusta á guðfræðing og vígðan prest á sömu rás ræða um mikilvægi og gildi kristinnar guðfræði fyrir samfélagið, ekki síst með tilliti til þeirra aðstæðna sem nú eru uppi. Hann lauk erindi sínu með því að segja að það skipti sig ekki mestu máli hvort gröfin hafi verið tóm eða ekki. Mestu máli skipti að gefa ekki vonina upp á bátinn hvernig sem viðraði í lífinu; vonin væri ávallt til staðar og í því væri upprisuboðskapurinn fólginn.

Fólk sem er kristið í sögulega réttri merkingu skilur ekki svona tal. Samkvæmt kristinni trú getur vonin aldrei komið á undan upprisutrúnni eða staðið óháð henni. Hvaða von er fólgin í kristinni trú ef Jesús reis ekki upp frá dauðum? Ef Jesús var aðeins venjulegur maður þá hefur hann ekkert meira um líf okkar að segja en hver annar. Í ljósi slíkra orða er auðvitað stutt í spurninguna hvort Guð sé yfirleitt til – a.m.k. í kristinni merkingu. Sé Guð ekki til þá veit ég ekki hvaða von, tilgang, merkingu eða gildi má finna í lífinu yfirleitt þegar allt kemur til alls. Allt er þá einfaldlega eins og það er og hefur ekkert að gera með það sem okkur finnst að eigi að vera.

Við megum ekki líta framhjá því að þau rit sem greina frá þeim atburðum sem kristin trú grundvallast á eru söguleg rit; rit sem greina frá raunverulegum persónum og stöðum sem lesa má um í öðrum heimildum; rit sem voru skrifuð eigi síðar en tveimur kynslóðum eftir að þeir atburðir gerðust sem frá er greint. Þegar horft er til þess hversu stuttur tími leið á milli tilkomu ritanna sjálfra og þeirra atburða sem þau greina frá er ljóst að engin rit fornaldar jafnast á við rit Nýja testamentisins. Margt af því sem þau greina frá hefur líka verið staðfest á sagnfræðilegum forsendum og í krafti fornleifarannsókna. Þetta gerir allt tal um goðsögur ótrúverðugt.

Staðreyndin er sú að þegar rýnt er í guðspjöllin og önnur rit Nýja testamentsins með aðferðum sögulegra rannsókna þá koma í ljós atburðir sem jafnvel mikilsmetnustu fræðimenn viðurkenna sem hreinar og klárar staðreyndir.

Þannig er það nánast einróma álit fræðimanna, trúaðra jafnt sem vantrúaðra, hefðbundinna sem og frjálslyndra, að lærisveinar Jesú og fyrstu fylgjendur hans töldu sig hafa séð Jesú upprisinn eftir krossfestinguna, líkt og greint er frá í guðspjalli dagsins. Með öðrum orðum: Það er litið á það sem sögulega staðreynd að fylgjendur Jesú trúðu því að þeir hefðu í raun og veru litið Jesú augum lifandi eftir krossdauða hans. Það þykir mörgum merkilegt að heyra.

Vitnisburður Páls postula vegur hér þungt. Rit Páls eru þau elstu í Nýja testamentinu. Páll var mikill fjandmaður fagnaðarerindisins og ofsótti kristið fólk af miklum ákafa. Engum hefði dottið í hug að hans yrði minnst í sögunni sem eins mesta áhrifamanns og útbreiðanda fagnaðarerindisins eins og raun ber vitni. En af einhverjum ástæðum snérist hann til kristinnar trúar. Ástæðan var einföld. Páll sá hinn upprisna Krist í sýn. Sá vitnisburður er ennfremur vottaður í öðrum ritum Nýja testamentisins.

Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna, sem var ritað aðeins um 20 árum eftir dauða Jesú, segir Páll: „Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.“

Nánast enginn véfengir að hér er Páll að vitna í forna hefð eða arfsögn sem hann tók sjálfur við og greinir í stuttu máli frá hinni kristnu trú og prédikun frá upphafi. Að öllum líkindum hefur Páll þegið hana frá lærisveinunum Pétri og Jakobi bróður Jesú, en þá hitti Páll í Jerúsalem, eins og Páll greinir sjálfur frá, aðeins þremur árum eftir trúskipti sín, til að ganga úr skugga um sannindi hinnar kristnu trúar, þ.e. upprisunnar. Þetta hefur því verið örfáum árum eftir dauða Jesú, og því ljóst að innihald þeirrar hefðar sem Páll vitnar til er mjög gamalt og má jafnvel tímasetja einhverjum mánuðum eftir krossfestinguna. Staðreyndin er því sú að allt frá upphafi var það vissa fylgjenda Jesú að hann hefði birst þeim upprisinn eftir krossdauða sinn. Það var engin eftir á skýring.

Sú staðhæfing verður sennilegri í ljósi þess að gröf Jesú var tóm þegar komið var að henni á páskadagsmorgun. Tóma gröfin er staðfest í mörgum ólíkum heimildum, sem sumar hverjar má dagsetja innan við 10 árum eftir krossfestingu Jesú. Þá segja öll guðspjöllin frá því að konur hafi komið að gröfinni tómri. Það er merkileg staðreynd í ljósi þess að vitnisburður kvenna var á þessum tíma einskis metinn og m.a. talinn ómarktækur fyrir dómstólum. Ef frásgan af tómu gröfinni var síðari tíma viðbót þá hefði það algjörlega grafið undan trúverðugleika hennar að gera konur að fyrstu upprisuvottunum. Ásökun gyðinga um að lærisveinarnir hafi stolið líkinu bendir auðvitað líka til þess að gröfin hafi sannarlega verið tóm.

Þá ber einnig að minna á að sannfæring lærisveinanna um upprisu Jesú hafði slík áhrif á líf þeirra að þeir voru reiðubúnir að fórna því fyrir trú sína. Eftir að Jesús var handtekinn flúðu flestir lærisveinanna og sumir afneituðu Jesú. Eftir dauða hans voru þeir niðurbrotnir menn sem óttuðust um eigið líf. En stuttu síðar stigu þeir fram og boðuðu Jesú upprisinn og voru tilbúnir að deyja fyrir sannfæringu sína. Sú sannfæring byggðist ekki á tómri hugmyndafræði heldur því sem þeir töldu vera persónulegir endurfundir við Jesú sjálfan, lifandi og áþreifanlegan.

Auðvitað hafa þessar sögulegu staðreyndir verið útskýrðar á „náttúrulegum“ forsendum af þeim sem ekki vilja trúa. Hitt er annað mál að eina mögulega kenningin sem útskýrir þær er sú kenning sem lærisveinarnir sjálfir gáfu. Kenningar um að lærisveinarnir hafi stolið líkinu, séð ofsjónir eða að Jesús hafi ekki dáið í raun og veru eru allar ótrúverðugar af mörgum ástæðum – og vantrúaðir fræðimenn átta sig á því. Í ljósi þess höfum við enga ástæðu til annars en að taka reynslu lærisveina Jesú og fyrstu fylgjenda hans gilda eins og frá henni er greint; þ.e. að Jesús hafi í raun og veru birst fylgjendum sínum í sýn fyrir rúmum tvöþúsund árum síðan; að hann hafi í raun og veru risið upp frá dauðum. Það er alls ekki langt stökk þangað ef þú á annað borð trúir því að Guð sé til, þ.e. almáttugur skapari alls sem er, og að hann hafi opinberað sig og vilja sinn í persónu Jesú frá Nasaret.

Þegar þú hugsar um það að kristin kirkja á rót sína að rekja til fámenns hóps alþýðufólks frá Galíleu, til fátækra bænda og fiskimanna og nokkurra lítilsmetinna kvenna, sem öll stigu fram og boðuðu upprisu leiðtoga síns frá dauðum, þrátt fyrir að hafa allar ástæður til hins gagnstæða; fólks sem gekk þvert gegn viðhorfum og trú þjóðar sinnar, ögruðu valdastéttum og sjálfu rómverska heimsveldinu, þoldu ofsóknir án þess að hvika og fögnuðu að endingu eigin dauða, þá hljómar það ekki trúverðugt að það hafi allt verið fyrir tóma lygi, hvað þá heldur ef þau stóðu sjálf á bak við þá lygi. Miklu trúverðugri hljóma orð Jesú sjálfs er hann mælti til lærisveinanna við síðustu kvöldmáltíðina: Óttist ekki, ég hef sigrað heiminn.

Jesús Kristur er sannarlega upprisinn og nálægur öllum þeim sem vilja finna hann. Það er sannfæring kristins fólks og henni byggist von þeirra. Jesús hefur staðfest að hann var sá sem hann sagðist vera: Guð sjálfur í heiminn kominn til þess að leiða alla til lífs með sér. Hann gefur lífinu þá merkingu og þann tilgang sem við þráum öll; á honum getum við grundvallað þá von, sem innst býr með okkur öllum, að við séum kölluð til lífs en ekki til dauða. Og hans vegna getum við tekið undir með sálmaskáldinu og sagt: „Vertu aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gerir vel til þín. Þú bjargaðir lífi mínu frá dauða, auga mínu frá tárum, fæti mínum frá hrösun. Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.“

Honum einum sé dýrð um alla tíma. Amen.