Vísifingur sýnir tilgang lífsins

Vísifingur sýnir tilgang lífsins

Hver er tilgangur lífsins? Getur verið að aldraður kúreki í Hollywood bíómynd geti kennt okkur um tilgang lífsins? Vísifingur hans gaf svarið. En það er ekki það eina svar sem við þurfum. Ungur maður, sem fæddist löngu áður en elstu kúrekar, hefur sitt að segja okkur.
fullname - andlitsmynd Óskar Ingi Ingason
09. júlí 2008

Í vinsælli mynd frá Hollywood, City Slickers (1991), er eftirminnilegt atriði. Borgarbúarnir, sem höfðu komið í upplifunarferð á búgarðinn til að reka kúahjörð milli bæja yfir hættulegt svæði, báru mikla virðingu fyrir gamla kúrekanum Curly. Í raun óttuðust þeir manninn sem leit út af vera uppi 100 árum of seint. Hann var sem tákngerfingur villta vestursins og horfinna tíma. Söguhetjan, Mitch, spurði hann þegar honum óx ásmegin hver væri tilgangur lífsins. Eftirminnilega lyfti Curly upp vísifingri og svaraði þannig spurningunni.

Þetta eina er tilgangur lífsins og allt annað er aukaatriði. Hvað þetta eina er, það er ólíkt meðal manna, enda tilgangur manna ekki sá sami.

Hvað er þetta eina hjá þér?

Oft er það ekki það sem þú telur mikilvægast í lífinu sem stjórnar lífi þínu heldur annað. Þægindi, að halda friðinn, mat annarra, allt getur stjórnað lífi okkar. En ég held að við getum verið sammála um að það er ekki það sem við óskum að stjórni lífi okkar og sé það eina sem Curly talaði um.

Hjá sumum er þetta eina maður sjálfur eða jafnvel það sem göfugra er, Ísland, hópurinn, fjölskyldan, æran og annað sem nefna má. Er það makinn eða börnin sem er hið eina? Hjá enn öðrum er hefðin, hvort sem það er í siðum, litarhafti, trúarbrögðum eða allt annað sem er mikilvægast og þess virði í augum þeirra að lifa og deyja fyrir.

Hver og einn velur hið eina í sínu lífi og það sést í lífi þess.

En í augum hins trúaða er aðeins einn Guð. Einn tilgangur, ein von. Allt annað er að missa marks. Hið eina hjá Kristi er að elska Guð. Þegar hann var spurður hvert var æðst boðorða svara hann „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.” Og heldur svo áfram að jafn mikilvægt sé að sýna þetta í verki: „Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ (Markúsarguðspjall 12:29-31)

Hjá Kristi er aðeins eitt. Ekki kirkjan, ekki fjölskyldan, ekki landið, þjóðin, æran, liðið þitt eða börnin. „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ Því ef við elskum Guð á hans hátt fylgir allt hið að auki. „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það.“ (Matteusarguðspjall 16:24-26)

Á degi Drottins ert þú spurður þessarar spurningar: Hvað er þitt eina? Hver er tilgangur lífs þins? Hvert er svar þitt? Rímar það við líf þitt? Ertu tilbúinn að leyfa honum að breyta því?