Þrettándinn er dagur vitringanna

Þrettándinn er dagur vitringanna

Guð sendir hverju og einu okkar slíka stjörnu, leiðarstjörnu sem við eigum að fylgja. Það er svo margt í þessu lífi sem bendir okkur á hvað það er sem við eigum að gera. En til þess að sjá það þurfum við að hafa augu okkar opin, okkar andlegu augu sem skynja það sem er ósýnilegt í kringum okkur.

Þrettándinn er skrýtinn dagur í huga og menningu þjóðar okkar. Í barnæsku minni var dagur þessi tregafullur. Jólunum var lokið. Síðasti jólasveinninn var að fara til heiða og kæmi ekki aftur fyrr en þrettán dögum fyrir næstu jól. Á þessum degi var jólatréð tekið niður, skrautið sett í kassa og Húsavíkurfjallið sem pabbi bjó til fyrir hver jól var pakkað niður og allar þær kynjaverur sem renndu sér þar um.

Stundum var einhverjum leifum af flugeldum skotið upp þennan dag eða kveikt í brennum sem ekki hafði verið kveikt í á gamlárskvöld. Alla jafna tregafullur og hálfleiðinlegur dagur í barnsminni mínu.

En í Kirkjunni er þrettándinn ekki leiðinlegur dagur. Þá er lesið guðspjallið um vitringana þrjá, sem fylgja stjörnu og finna eftir hennar leiðsögn það sem þeir voru að leita að: Jesú barnið í Betlehem, frelsara okkar.

Þrettándinn er dagur vitringanna og nokkrum sinnum höfum við verið í suðurlöndum á þrettándanum og höfum upplifað mikla skrúðgöngur vitringanna þar sem þeir ganga að altari kirkjunnar, færa Jesúbarninu gjafir og koma svo aftur út úr kirkjunni og færa öllum börnum gjafir. Skemmtilegur siður.

En hvernig talar sagan um vitringana til okkar í dag?

Það sem mér finnst stórkostlegast við hana er hvernig vitringarnir fylgja stjörnunni í bjargfastri trú. Þeir vita innra með sér hvert stjarnan muni leiða þá, þó þeir viti ekki nákvæmlega hvað það er sem hún muni birta þeim.

Guð sendir hverju og einu okkar slíka stjörnu, leiðarstjörnu sem við eigum að fylgja. Það er svo margt í þessu lífi sem bendir okkur á hvað það er sem við eigum að gera. En til þess að sjá það þurfum við að hafa augu okkar opin, okkar andlegu augu sem skynja það sem er ósýnilegt í kringum okkur. Við vitum ekki alltaf alveg nákvæmlega hvernig það muni birtast okkur, en við sjáum það þegar þar að kemur eins og vitringarnir sáu hvað það var sem Guð var að benda þeim á þegar þeira voru komnir í fjárhúsið.

Nú eru nýliðin áramót. Við áramót verðum við stundum svolítið ráðvillt. Nýja árið er fullt af fyrirheitum, alveg nýtt og ónotað ár, sem við berum miklar væntingar til. Um leið getur sest að okkur svolítill kvíði fyrir því að áform okkar muni ekki ná fram að ganga. Því verðum við að treysta Guði, treysta Guði eins og vitringarnir treystu stjörnunni, treysta því að Guð ætli hverju og einu okkar mikið hlutverk á hinu nýja ári.

Ó, lát þá stjörnu lýsa mér um lífsins eyðisand. Og sýna mér, nær fjörið fer, hið fyrirheitna land

Ó, lát þá stjörnu lýsa mér um lífsins myrka dal. Og leiða mig nær lífið þver í ljóssins bjarta sal.