Fótbolti og flís í auga

Fótbolti og flís í auga

Augað er ekki aðeins líffæri. Augað er líka tákn um ógnun, yfirráð, ögrun. Fiðrildið í frumskóginum er með tvö risastór „augu“ á bakinu. Frábært gervi sem ekki felur lífveruna heldur þvert á móti vekur á henni athygli. Og svo þegar fuglinn sveimar yfir laufinu og leitar að skordýri í gogginn blasa skyndilega við honum þessi tvö ógnarstóru – augu sem horfa gráðug á hann. Rándýrið verður í einni svipan að bráð og það forðar sér eins og vængir toga.

Kvöldsins í kvöld er beðið með nokkurri eftirvæntingu á mínu heimili. Ég hlakka til þess að flautað verði til leiks í úrslitum á HM þar sem Þjóðverjar og Argentínumenn mætast í lokarimmunni. Eiginkonan mín hlakkar til þess að flautað verði til leiksloka og að heimilistogstreitu um tíma og skjá ljúki að sinni.

Fótboltinn og lífið

Ég er ekki sá eini sem læt heillast af þessari íþrótt. Enginn kappleikur vekur aðra eins athygli og þessi hér. Heimsbyggðin fylgist grannt með í spenningi. Það er líka margt líkt með fótbolta og lífinu. Þarna birtist okkur bæði friður og stríð. Litskrúðugir búningar fótboltasveina vísa í þjóðfánana rétt eins og búningar hersveita gerðu hér forðum. Sléttan græna er eins og orrustuvöllur og hver hinna ellefu leikmanna hefur þar ákveðinn tilgang. Að leik loknum liggja spekingar yfir mörkunum, spörkunum og hlaupunum og tæklingunum og greina þetta eins og sagfræðingar rekja stóra bardaga í sögunni. Leikkerfin sem þjálfararnir setja upp minna á uppröðun herja sem standa hver andspænis öðrum.

En þessir 22 stuttbuxnaklæddu sveinar inni á vellinum eru þó ekki í aðalhlutverkinu þótt laun þeirra og athygli kunni að gefa það til kynna. Nei, þrír þátttakendur á vellinum eru áhrifamestir og voldugastir. Þegar þeir blása eða lyfta flaggi stöðvast leikur og átök falla niður. Það þýðir lítið að deila við þá eftir að þeir hafa fellt sinn dóm. Það eru þeir sem eiga að gæta þess að reglum sé framfylgt. Þeir dæma, já þetta eru auðvitað dómarnir þrír. Enginn spyr um laun og frægð andspænis þessum miðaldra mönnum. Þeir hafa völdin í sínum höndum og leikurinn er því í þessum sömu höndum. Án þeirra fengist vart nokkur til að taka þátt nema þeir sem teldu sig sterkari og skæðari en aðrir og gætu valdið meira tjóni en þeir sjálfir þyrftu að þola. Ekki væri nú gaman að slíkri íþrótt.

Ekki dæma?

Í guðspjalli dagsins ber þó ekki á öðru en að Kristur hafi horn í síðu dómara. Hann varar við því að fella dóma: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd.“ Á þessum orðum hefst þessi texti og við hljótum að spyrja okkur hvort iðja dómaranna eða þær ákvarðanir sem við fellum á hverjum degi um okkur sjálf og samferðafólk falli undir þann hatt. Hvernig er hægt að lifa án þess að dæma? Er það ekki háttur upplýstra borgara að dæma?

Textinn endar þó ekki í þessum orðum enda á fagnaðarerindið ekki að verða lögmál né öfugt. Framhaldið leiðir okkur inn á þekktar slóðir daglegrar umræðu þar sem vísað er til þeirrar meintu áráttu fólks að „sjá ekki bjálkann í eigin auga“ en enblína á „flísina í auga náungans“.

Er það bara ég – eða finnst engum óþægilegt að tala um flísar og bjálka í augum?

Samlíking þessi vísar líka ekki bara til þess líffæris sem við köllum auga heldur kallast hún á við þekkta reglu sem okkur er tamt að vísa til. Það er hið forna lögmál endurgjaldsins, Lex Talionis sem hljóðar svo í lögbókum Móse: „Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.“

Þessi regla kann að hljóma svolítið galin. Ef ég brýt bein eða missi tönn í áflogum – er mér einhver akkur í því að gerandinn hljóti sömu örlög? Það væri í það minnsta skammvinn sæla. Eftir sem áður þyrfti ég að búa við skert kjör og minni tekjur.

Enda er lögmál endurgjaldsins margslungnara.

Auga fyrir auga

Setjum sem svo að ég væri uppi á þeim tíma þegar þessi regla var algild. Í áflogum hef ég svo kostað mann annað augað. Daginn eftir kæmi fórnarlambið heim til mín ásamt flokki ættingja og vina og krefðist réttlætis. Þau myndu ekki krefjast annars augna minna enda væri sá eineygði jafn illa staddur fyrir vikið. Nei, þau myndu heimta af mér bætur. Gott og vel, ég lít á hópinn og sé að ég má mín lítils gegn slíku margmenni, skrepp inn og kem að vörmu spori með nokkra denara. Ég segi þeim að þetta sé alveg nóg og meira fái þau ekki frá mér. En þau eru ekki ánægð. Nokkrir denarar mæta ekki svo stórfelldu líkamstjóni sem þessu.

Og þá kemur til kasta hins forna lögmáls. Ef ég greiði ekki ærlegar bætur þá missir ég annað augað mitt. Þar með fær málið nýja vídd. Ég met ekki lengur hvers virði auga fórnarlambsins er fyrir mér heldur hversu mikils ég met það að hafa mín augu bæði á höfðinu og þar með fer ég í séreignarsparnaðinn og dreg fram nokkrar talentur.

Augað er ekki aðeins líffæri. Augað er líka tákn um ógnun, yfirráð, ögrun. Fiðrildið í frumskóginum er með tvö risastór „augu“ á bakinu. Frábært gervi sem ekki felur lífveruna heldur þvert á móti vekur á henni athygli. Og svo þegar fuglinn sveimar yfir laufinu og leitar að skordýri í gogginn blasa skyndilega við honum þessi tvö ógnarstóru – augu sem horfa gráðug á hann. Rándýrið verður í einni svipan að bráð og það forðar sér eins og vængir toga.

Auga fyrir auga – flís í auga eða bjálki í auga. Er þetta ekki vísan til þess hvernig við ásökum og fellum dóma?

Tvenns konar boðskapur

Boðskapur þessara orða Krists er af tvennum toga. Annars vegar lítur hann inn í hjarta okkar og sér þar hvernig okkur hættir til þess að leggja aðra mælistiku á náungann en við leggjum á okkur sjálf. Augu okkar líta á annan hátt á spegilmynd sína en þau gera gagnvart þeim sem í kringum okkur standa. Flísin og bjálkinn eru ólík að stærð og vexti eins og dómarnir sem augu okkar fella. Því kallast orð Krists á við þá reglu sem er ekki svo frábrugðin lögmáli endurgjaldsins nema að hún vísar til þess góða sem við getum gert fyrir náungann – ekki hvernig við getum goldið líku líkt.

Það er Gullna reglan – um að koma eins fram við aðra og við viljum að aðrir komi fram við okkur.

Dómarar í lífinu

Svo aftur sé vísað til líkingamáls knattspyrnunnar þá erum við bæði í hlutverki dómara og leikmanna. Við eigum sjálf að fella réttláta dóma um samferðafólk okkar og minna sjálf okkur á að allir eru jafnir í augum Guðs. Því á eitt að gjalda fyrir alla. Flís og flís eða bjálki og bjálki.

Hin merkingin er auðvitað á þá leið að við eigum enga dóma að fella um hið eilífa hlutskipti samferðafólks okkar. Það sem er fyrir ofan okkur – er ofvaxið þekkingu okkar og skilningi. Þetta sagði Lúther og hann vísaði til fagnaðarerindis Krists sem lýtur öðrum lögmálum en okkar reglur gera.

Já, þegar hinir alráðu dómarar á knattspyrnuvellinum hafa flautað til leiksloka og frúin mín gleðst yfir að hafa endurheimt sófakæran bónda sinn, þá hafa þeir lokið störfum sínum að sinni. Bendingar þeirra og flaut hafa engin áhrif lengur. Um leið og leiknum lýkur taka aðrar reglur við. Svo er því einnig háttað í Guðs ríki. Þegar flautað er til leiksloka í lífinu okkar þá leggur dómarinn frá sér flautuna og hið sama gera hinir mannlegu dómstólar sem að endingu játa takmörk sín andspænis hinu eilífa valdi Guðs.