Þrælar neyslunnar

Þrælar neyslunnar

Nýafstaðin verslunarmannahelgin kemur á margan hátt illa út sé miðað við sömu helgi í fyrra. Það dró t. d. úr sölu í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Í versluninni í Vestmannaeyjum var samdrátturinn milli áranna heil 4,5%.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
08. ágúst 2011

Nýafstaðin verslunarmannahelgin kemur á margan hátt illa út sé miðað við sömu helgi í fyrra. Það dró t. d. úr sölu í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Í versluninni í Vestmannaeyjum var samdrátturinn milli áranna heil 4,5%. Byrðarnar sem landsmenn báru út úr verslunum ÁTVR fyrir þessa verslunarmannahelgi voru heilum sjö þúsund lítrum léttari en fyrir helgina árið 2010. Bílaumferð minnkaði líka og nam sú minnkun heilum tólf prósentum.

Þessar samdráttartölur eru í sjálfum sér engin ótíðindi. Ef minni vínkaup benda til vaxandi hófs í meðferð áfengra drykkja þessa sukksömu helgi má gleðjast yfir því.

Minni umferð þýðir minni mengun, minna slit á vegum og ætti að hafa færri slys í för með sér. Ekki eru þær fréttir heldur slæmar.

Engu að síður var neikvæður tónn í ofangreindum tíðindum og það á sér skýringar: Minni áfengissala ríkisins hefur í för með sér færri krónur í ríkiskassann. Minni umferð sýnir minnkandi ferðamennsku og hvort tveggja, minnkandi víndrykkja og minnkandi bílaumferð þýðir minnkandi neyslu og sé neyslan að minnka eru það ekki góðar fréttir því þá er kreppan að dýpka.

Hagkerfi okkar byggist á neyslu. Aukin neysla er hagstæð fyrir hagkerfið. Þýsk-ameríski heimspekingurinn og rithöfundurinn Erich Fromm lýsir þróun vestrænna hagkerfa þannig, að smám saman hafi hin leiðandi spurning hætt að vera „hvað er gott fyrir manninn?" en í stað hennar hafi komið spurningin „hvað er gott fyrir vöxt og viðgang kerfisins" (Haben oder Sein, bls. 26). Samkvæmt því er maðurinn til fyrir kerfið og lifir í þágu þess.

Neysla þarf neytendur og kerfi sem þrífst á sívaxandi neyslu þarf sífellt duglegri og þurftarfrekari neytendur. Þess vegna er maðurinn fyrst og fremst neytandi í þessu kerfi. Til þess að gera manninn duglegan neytanda þarf að örva neysluþarfir hans. Í slíku kerfi verður græðgin dyggð. Græðgin verður hluti af ríkjandi persónuleikamynstri og sú hugmyndafræði sem vill umgangast græðgina af varúð og temja hana er talin frumstæð, hallærisleg eða einfeldningsleg.

Hungur er ein forsenda þess samfélags sem við höfum búið okkur til. Allar auglýsingarnar, ljósar sem leyndar, höfða til einhvers konar hungurs, skorts, ófullnægðra þarfa og langana sem ekki hefur verið svalað. Sé ekkert slíkt til staðar á kerfið ekki um annað að ræða en að búa til nýjar þarfir í því skyni að skapa forsendur fyrir hinni stöðugu neysluaukningu sem allt byggist á.

Hungrið í okkar heimshluta er geigvænlegt. Suður í Afríku eru börn að deyja úr hungri en í okkar heimshluta eru síður dagblaða, dagskrár ljósvakamiðla, hliðar strætisvagna og keppnistreyjur íþróttafólks undirlagðar af áreitum til að æsa upp hungrið og sýna okkur hvernig hægt sé að seðja alla okkar sáru svengd.

Drjúgur hluti af hverjum einasta degi lífs okkar fer í að minna okkur á öll þau ósköp sem við þurfum, allt það ótalmarga sem okkur skortir, hvað okkur vanti í raun rosalega mikið til að líf okkar geti talist mannsæmandi. Það er alið á óánægju og ófullnægju því óánægðir og ófullnægðir neytendur, þjakaðar þarfaverur, er það sem heldur hagkerfinu gangandi.

Þess vegna megum við helst ekki drekka minna í ár en í fyrra og þess vegna er ekki gott að við keyrum færri kílómetra en árinu áður.

Einnig birt á bloggi höfundar.