Öll erum við hlægileg

Öll erum við hlægileg

Það er nefnilega hægt að takast á við flest í þessu lífi ef maður hefur húmor fyrir sjálfum sér og mannlegum breyskleika, það er máttugra vopn en margan grunar, eitt það mikilvægasta í störfum sem miða að þjónustu við náungann er húmor.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
24. maí 2011

Hildur Eir BolladóttirÞegar ég var barn lagði ég að jöfnu heilagleika og leiðindi, orðið heilagt vakti með mér kvíða yfir að nú yrði allt svo þungt og langt, að tíminn yrði óralengi að líða svona svipað og þegar foreldrar mínir sátu og hlustuðu á Passíusálmana í útvarpinu á föstunni og hvert orð varð að viðkomustað eilífðarinnar, það voru svo sannarlega ekki stundirnar þar sem ég ákvað að verða prestur. Héraðsfundir eru að vísu ekki heilagir en þeir urðu heldur ekki hvatinn að því að ég skráði mig í guðfræði á sínum tíma, ég var nefnilega býsna dugleg að fylgja föður mínum á slíka fundi í æsku.

Í dag lít ég hins vegar á Passíusálmana sem þrekvirki mannsandans, ljóðaundur, og hérðasfundir vekja með mér notalega fortíðarþrá að ég tali nú ekki um matarást því þar er alltaf eitthvað gott að borða, en það sem hefur þó komið mér skemmtilegast á óvart er það hve mikill húmor er í hinu heilaga. Heilagt merkir að einhver eða eitthvað sé frátekið til ákveðins hlutverks, manneskjur eru heilagar (Guð ætlar okkur hlutverk og við erum sköpuð í Guðs mynd), sakramentið er heilagt (þar er Guð), hjónabandið er heilagt (frátekið ást, virðingu og tryggð) tilfinningar eru heilagar (af því að þær eru mennskar) og svona mætti lengi telja.

Þess vegna er svo skemmtilegt að hugsa til þess að það sem er fyndnast í þessari brjáluðu veröld er einmitt það sem er heilagt. Þegar ég var búin að fara í nokkrar kaldar sturtur á manndómsárunum og átta mig á að preststarfið væri engin upphefð og ég þyrfti ekki ganga inn í hátíðlegt hlutverk sem væri mér raunar þvert um geð, reyndist starfið ekki eins flókið, það er nefnilega hægt að takast á við flest í þessu lífi ef maður hefur húmor fyrir sjálfum sér og mannlegum breyskleika, það er máttugra vopn en margan grunar, eitt það mikilvægasta í störfum sem miða að þjónustu við náungann er húmor.

Nú er ég ekki að tala um að hoppa upp á borðum í samverum eldriborgara, eða segja tvíræða brandara við hjónavígslu, af því að vanvirðing á ekkert skylt við húmor, ódýr húmor er líka sjaldnast góður. Nei, ég er að reyna að koma orðum að einhverju sem er dýpra og magnaðara, ég er að tala um hinn heilaga húmor sem er frátekinn mennskunni, húmorinn sem afhjúpar aðgreiningu mannanna, afhjúpar heimsku fordómanna og sameinar okkur sem limi á líkama Krists, í grunninn erum við nefnilega öll svo dæmalaust hlægileg, á jákvæðan hátt og þökk sé Guði fyrir það.