Þjónustumiðstöð nærsamfélagsins

Þjónustumiðstöð nærsamfélagsins

Kirkjan er þar sem fólkið kemur saman til að syngja og tala, prjóna og biðja, föndra, drekka kaffi, til alls þess sem sem söfnuðurinn skapar í sameiningu. Sóknarkirkjan er hluti af nærsamfélaginu og sóknarkirkjan nærir samfélagið. Með því að vera í þjóðkirkjunni styrkir þú þjónustumiðstöðina þína. Það skilar sér inn í nærsamfélagið þitt.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
09. september 2010

Krakkar í barnastarfi

Í öllum hverfum borgarinnar, í hverjum bæ og hverri sveit er þjónustumiðstöð á formi sóknarkirkju. Þar er veitt margþætt þjónusta fyrir einstaklinga og hópa í ólíkum aðstæðum sem koma upp í lífinu.

Rekstur þessara þjónustumiðstöðva nærsamfélagsins hvílir á sóknargjöldum. Þau innheimtir hið opinbera fyrir öll trúfélög á Íslandi. Hver fullráða einstaklingur greiðir í ár 767 krónur á mánuði til sinnar þjónustumiðstöðvar. Sóknargjöldin renna þannig beint til nærsamfélagsins á hverjum stað.

Sóknarnefndir móta starf þessara þjónustumiðstöðva því sóknir þjóðkirkjunnar eru sjálfstæðar stjórnsýslueiningar. Þeim er stjórnað af sjálfboðaliðum sem þiggja umboð sitt á almennum safnaðarfundum sem haldnir eru árlega. Þau sem eru skráð í þjóðkirkjuna geta þannig haft bein áhrif á starf sóknarkirkjunnar sinnar og ákveðið í samstarfi við prestana sína hvernig sóknarkirkjan nærir samfélagið.

Sóknarkirkjan er öllum opin. Þjónusta presta og safnaða stendur öllum til boða, óháð trúfélagsaðild. Möguleikar safnaðarstarfsins mótast hins vegar af tekjum kirkjunnar, sóknargjöldunum. Ef þú segir þig úr þjóðkirkjunni verður sóknarkirkjan þín af tekjum án þess að nærsamfélaginu sé bætt það upp með beinum hætti. Einhliða skerðing stjórnvalda á sóknargjöldum bitnar líka á nærsamfélaginu.

Öflugt nærsamfélag nærir einstaklinga og fjölskyldur, skapar öryggi og skilyrði til þroska. Það hlúir að sjálfbærum lífsstíl. Nærsamfélagið er mikilvægur varnarþáttur í þjóðfélaginu og um það þurfum við að standa vörð.

Kirkjan er þar sem fólkið kemur saman til að syngja og tala, prjóna og biðja, föndra, drekka kaffi, til alls þess sem sem söfnuðurinn skapar í sameiningu. Sóknarkirkjan er hluti af nærsamfélaginu og sóknarkirkjan nærir samfélagið. Með því að vera í þjóðkirkjunni styrkir þú þjónustumiðstöðina þína. Það skilar sér inn í nærsamfélagið þitt.

Umræður um pistilinn fara fram á bloggi Árna og Kristínar.