Á skjá-hvílu Drottins ert þú

Á skjá-hvílu Drottins ert þú

Tilvera ykkar í dag er sú að þið ætlið að játast Jesú Kristi sem leiðtoga lífs ykkar. Staðreyndin er sú að í dag á þessu augnabliki eru veraldlegir leiðtogar hrópandi sig hása í bæ og borgum og á torgum lofa sjálfa sig bak og fyrir næstu daga í þeirri von að þeim verði veitt athygli.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
19. apríl 2009
Flokkar

I

Ég tel mig vita án þess að hafa fullvissu fyrir því þegar við lögðum af stað í haust í fermingarfræðslunni og þið þá þegar horfðuð til þessa dags að ykkur hafi þá fundist vera mannsaldur í fermingu ykkar. Það hefur ekki liðið mannsaldur en ég get líka sagt að þið hafið á þessum stutta tíma þroskast heilmikið. Þið eruð á þeim aldri að vilja stytta ykkur leið að sem flestu svo fremur að þið komist upp með það. Með öðrum orðum – ég veit ekki hvort þið skiljið orðið - óþreyjufull. Sá eða sú sem vill ekki eyða of miklum tíma í það sem viðkomandi finnst ekki skipta máli. Þá hlýt ég að spyrja. Hvað er það sem skiptir máli á fjórtánda ári? Ef ég spyrði ykkur að því hér og nú munu flest ykkar svara – vinirnir/vinkonurnar, fjölskyldan. Ég veit það vegna þess að ég spurði þessarar spurningar í vetur í einum fræðslutímanum. Það er ýmislegt annað sem skiptir máli sem ég veit að þið vitið en eruð ekkert endilega að ræða um svona hversdags.

II

Í dag er engin hversdagur. Í dag er fermingardagur ykkar 19. dagur aprílmánaðar. Flest okkar sem eru fermd geta sagt hvaða mánaðadag við fermdumst en erum ekkert endilega að opinbera hvaða ár fermingin átti sér stað. Þegar ég fermdist var ég með hár næstum því niður á herðar og stoltur af - ef móðir mín hefði ekki haft hönd í hári mér neytt mig til hárskerans vikuna fyrir ferminguna og í framhaldinu til ljósmyndara og afrakstur þess var innrrömmuð í gylltan ramma mynd upp á vegg heima í stofu í mörg ár sem í dag drengirnir mínir hlægja sig máttlausa yfir og segja – “pabbi leist þú virkilega svona út þegar þú fermdist?” Eins og ég hafi haft eitthvað val um annað! Ég muldra eitthvað og vil ekki kannast við drenginn með þvingaða brosið og hárið rétt fyrir neðan eyru og sálmabók í hönd og hvítum fermingarkyrtli innrammaðan í gylltan ramma uppi á vegg. Á þeim tíma var ekkert til sem hét photoshop eða scanner, copy og paste eða delete, SMS ef útkoman var ekki nógu góð.

III

Í dag er þetta allt til og meira til en það gerir ekkert til í raunveruleikanum. Tilvera ykkar í dag er sú að þið ætlið að játast Jesú Kristi sem leiðtoga lífs ykkar. Staðreyndin er sú að í dag á þessu augnabliki eru veraldlegir leiðtogar hrópandi sig hása í bæ og borgum og á torgum lofa sjálfa sig bak og fyrir næstu daga í þeirri von að þeim verði veitt athygli og þið sem eruð fjórtán ára getið ekki verið meira sama um hvað þá að kannast við, sláið á delete takkann án þess að blikna.

Þeim sem þið játist í dag Jesú Kristi bliknar ekki eða fyrirverður sig ekki fyrir það að kannast við ykkur eins og þið eruð. Það er ekki eins og hann hafi val sem hann vissulega hefur. Það er ekki afþví að hann kann ekki á tölvu til að photoshoppa ykkur eða scanna eða deleta, hann er heldur ekki á SMS vinalistanum ekki það að hann hafi minnstu löngun til þess. Því hann vill kannast við ykkur eins og þið eruð. Á Skjá- hvílu Drottins eruð þið hvert og eitt.

IV

Verið allveg viss um að það eru margir sem vilja kannast við ykkur og vilja vera memm vilja vera vinur/vinkona ykkar. Í dag fæst vinskapurinn allt að því á útsölu á Facebook. Mörg þeirra sem úti kirkjunni minnast þess í æsku að hafa safnað, leikara, körfu og fótboltamyndum, servíettum, frímerkjum, dúkkulísum og til að fullkomna safnið var bíttað og prúttað. Í dag safnar ungir sem eldri vinum á fésbókinni til að geta sagt eiga þetta og þetta marga “vini.” Ég yrði ekki hissa á að næsta æðið væri að bítta á fésbókarvinum. Ég sé fyrir mér – “Ég á nefnilega tvo úr þessari fjölskyldu ertu ekki til að skipta og ég fái einn úr þinni fjölskyldu ég á nefnilega engan.”

Jesús er væntanlega ekki Facebókar-vinur ykkar kæru fermingarbörn þótt löngu burt kallaðir andans menn eins og sálmaskáldið og presturinn Hallgrímur Pétursson sem við fræddumst um í Vatnaskógi síðastliðið haust bauð mér um daginn að gerast fésbókar vinur sinn. Ég viðurkenni fúslega að upp kom í huga minn eitt augnablik að máttur internetsins ætti sér engin landamæri. Án umhugsunar – “addaði” ég prestinum og sálmaskáldinu - afhverju ekki? Hugsaði málið aðeins betur og delítaði/eyddi honum. Ekki málið! En það er akkúrat málið! Það er ekkert mál að koma fram sem vinur í nafni einhvers og vera einhver annar í ábyrgðarleysi ef ábyrgðarleysið leysist úr böndum þá er því bara eytt. “Púff” farið!

V

Kæru fermingarbörn því er ekki þannig farið! Þótt ykkur finnst sem mannsaldur hafi liðið frá því að við hófum göngu okkar síðastlið haust til þessa dags þá endar sú ganga ekki hér. Þið haldið göngunni áfram til framtíðar til þess sem við vitum ekki hvað ber í skauti sér. Ég tel mig vita að þið hafið ekki svo miklar áhyggjur af því og er það vel. Áhyggjur ykkar þessa stundina mælast frekar í því hvort presturinn fari ekki að ljúka máli sínu og snúi sér að alvörunni-sjálfri fermingunni.

Í ykkar huga er ég búin að tala í heilan mannsaldur þótt ég fátt hafi sagt. Ég vil bæta við og þið takið með ykkur þegar þið farið héðan í faðmi fjölskyldna ykkar. Munið það eitt að sporin sem þið skiljið eftir hér eru spor sem eru varðveitt og ykkar hvenær sem er að koma og máta ykkur í. Verið viss um að það verði kannast við ykkur og sporin máta við huga ykkar hjá þeim sem þið játist hér á eftir til eilífðar. Guð gefi ykkur og fjölskyldum ykkar gleðiríkan dag saman. Amen.