Spyrjið um gömlu göturnar...

Spyrjið um gömlu göturnar...

Rætur okkar Íslendinga eru margþættar og uppruninn margvíslegur. Hvorugu verða gerð nein skil í stuttu máli. Hins vegar skal áréttað að kristin trú er órjúfanlegur þáttur í rótum og uppruna þjóðarinnar.

„Hvað er það sem allir vilja verða en enginn vera?“        

Þannig er spurt í gátu sem gekk fyrir nokkrum áratugum og svarið er „gamall“. Flest óskum við þess að fá að lifa langa ævi en helst án þess að verða nokkurn tíma gömul. Orðið „gamall“ hefur fengið svo neikvæða merkingu. Sum börn halda hreinlega að það þýði ónýtur, úr sér genginn, eitthvað sem á að losa sig við. Getur það þá ekki alveg eins átt við gamalt fólk? Stundum er öldruðum ýtt til hliðar, skákað út úr hringiðunni og þau látin finna að þau séu fyrir, í stað þess að læra af reynslu þeirra og tileinka sér visku áranna.

Áður en kynslóðabilið var fundið upp endaði elsta kynslóðin gjarnan ævina „í horninu“ hjá afkomendunum. Um aldaraðir var þjóðlegum hefðum, menningararfi, viðhorfum, tungu og trú miðlað í daglegum samskiptum kynslóðanna. Stórfjölskyldan bjó öll undir sama þaki eða í seilingarfjarlægð, þrír ættliðir og jafnvel fjórir ef einhver lifði svo lengi.

 Öll deildu þau kjörum, tókust saman á við harðindi og pestir, búsifjar, sult og sorgir. Það snerti þau öll þegar barn fæddist á heimilinu og það tók á þau öll ef barnið lifði stutt. Fæðingar og andlát voru hluti af lífinu í baðstofunni en þar var einnig unnið, kveðið og lesnir húslestrar.

Elsta kynslóð núlifandi Íslendinga kynntist þessari veröld sem var. Langt frameftir 20. öld bjó meirihluti landsmanna í sveitum en þéttbýlisstaðir efldust með tímanum. Alla öldina urðu stöðugar breytingar á íslensku samfélagi.

Segja má að elsta kynslóðin hafi fæðst í fornöld og lifað framyfir atómöld. Á þeim tíma breyttust samgöngur, atvinnuhættir og verkmenning mun meira en á þúsund árum þar á undan.

Þau, sem fæddust snemma á 20. öld, urðu vitni að meiri og víðtækari umskiptum í þjóðlífinu en nokkurn gat órað fyrir – og enn sér ekki fyrir endann á þróuninni. Þau hafa einnig mörg hver brotist úr örbirgð til bjargálna, úr basli og vinnuþrælkun til velmegunar og þæginda. 

Þau hafa tvímælalaust byggt upp velferðarþjóðfélagið góða sem enginn vill lengur vera án en of mörgum hinna yngri finnst sjálfsögð réttindi sem við eigum skilið að njóta.

Nýleg samanburðarrannsókn leiðir í ljós að Ísland er besta land í heimi fyrir börn og það næstbesta fyrir mæður. Áður fyrr hefði það ekki þótt líklegt og sannarlega ekki sjálfgefið. Á 18. öld var ungbarnadauði í Evrópu hvergi meiri en hér.

Þessi viðsnúningur á tvöhundruð árum er hvorki tilviljun né heppni heldur til marks um almennt aðgengi að öflugri heilsugæslu og öruggu velferðarkerfi.

Það er heldur ekki sjálfsagt að halda þessari góðu stöðu næstu tvöhundruð árin. Það ræðst af forgangsröðum þjóðarinnar, ekki síst rækt við upprunann og hirðusemi við ræturnar.

Í þessu efni gildir það sama og um flestan gróður. Ræturnar sjálfar eru ekki til sýnis en án þeirra lifir jurtin ekki lengi.

Rætur okkar Íslendinga eru margþættar og uppruninn margvíslegur. Hvorugu verða gerð nein skil í stuttu máli. Hins vegar skal áréttað að kristin trú er órjúfanlegur þáttur í rótum og uppruna þjóðarinnar.

Hér á landi hefur Kristur verið tignaður og tilbeðinn frá því fyrstu landnemarnir hröktust hingað norðureftir. Í þúsund ár hefur kristnin skipað sess í samfélagi okkar. Þjóðfélagið er svo gegnsýrt af kristnum áhrifum að við getum varla gert okkur fulla grein fyrir hlut þeirra í siðgæðishugmyndum og samskiptareglum, bæði í löggjöf og almennum hugsunarhætti.

Kristnin er hluti af arfi aldanna sem miðlað var frá kynslóð til kynslóðar. Með móðurmjólkinni fengu börnin öryggiskenndina sem felst í því að vita af góðum Guði nálægt sér. Yfir þau var signt og beðið fyrir þeim og með þeim. Þau heyrðu húslestrana og mörg þeirra lærðu svo sjálf að lesa á guðsorðabókum.

Trúin var sjálfsögð í tilverunni. Af henni spratt æðruleysi, von og samhjálp sem mótaði hugarfar og helgaði samskipti. Þegar ytri aðstæður bötnuðu að mun tók þjóðlífið að blómstra og hefur gert það síðan. Við erum við á réttri leið þrátt fyrir tímabundna erfiðleika undanfarin misseri. Fátækum hefur fækkað gríðarlega á síðustu áratugum og allur þorri þjóðarinnar býr við miklu betri kjör en áður að því er varðar húsakynni, atvinnuhætti, heilsufar,  margvísleg réttindi og allan aðbúnað.

Mannlega talað er þetta fyrst og fremst þeim eldri að þakka. Þau ruddu brautina, færðu fórnirnar, sýndu þrautseigjuna.

Það var vel til fundið fyrir þrjátíu árum að gera einn dag kirkjuársins að degi aldraðra. Valinn var uppstigningardagur.

Sá dagur er með sérstökum hætti tileinkaður dýrð Krists. Kristur er dáinn fyrir syndir okkar, risinn upp frá dauðum og farinn heim í himnesku dýrðina. Hann „steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða“, eins og segir í trúarjátningu kirkjunnar.

Þannig er því komið til skila að Jesús Kristur sé sannur Guð. Í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa (Kól. 1:19). Hann á alla dýrð Guðs. Hann hefur allt vald Guðs.

Uppstigningardagurinn leggur áherslu á heilagleika og tign Drottins. Samt boðar kristin trú ekki fjarlægan Guð, afskiptalausan um hagi manna. Öðru nær! Guð er okkur nálægur. Kristur svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur (Fil. 2:7). Hann afklæddist dýrð himnanna og tók á sig mannlegt eðli. Með öðrum orðum: Guð hefur fæðst inn í heim okkar mannanna í Jesú Kristi til þess að taka á sig kjör okkar, lifa lífi okkar og deyja dauða okkar.

Koma Krists í heiminn staðfestir kærleika Guðs til okkar sem gefur okkur kost á að vera börn hans og eiga hlutdeild í ríki hans. Það fólst allt í dauða og upprisu Jesú.

Og eftir upprisuna, þegar Jesús kvaddi lærisveinana, sendi hann þá af stað með erindi sitt til alls mannkynsins. Hann fól vinum sínum að halda áfram starfi í anda sínum og nafni sínu. Hann sagði að þau öll, sem tryðu á hann, ættu að vinna kærleiksverk hans, alltaf og alls staðar.

Í því felst að taka að sér þau hröktu og hrjáðu, gefa öryggi og frið, segja hinu illa stríð á hendur og miðla voninni eilífu sem upprisan gefur. Til þess er kirkjan kölluð. Til þess erum við öll kölluð sem tilheyrum henni. Það er ekkert einkamál svokallaðs kirkjufólks eða kirkjunnar þjóna. Við erum kirkjan. Við eigum að bera öðrum blessun Guðs, flytja þeim kærleika hans.

Í þessu efni er ekkert hlutleysi til. Öll tökum við afstöðu, veljum okkur lífsgrundvöll, viðmið og lífsspeki, trú eða trúleysi.  Okkar er valið en höfum hugfast að engin bygging stenst án þess að hvíla á traustum grunni. Sé undirstaðan numin brott, hlýtur yfirbyggingin að hrynja.

Kristnin er hluti af grunni þjóðfélags okkar í margvíslegum skilningi. Lögin, bæði skrifuð og óskráð, mótast að verulegu leyti af kristnum kærleika og því gildi sem maðurinn hefur í augum Guðs. Það hefur reynst vel. Samfélög, sem byggja ekki á kristnum gildum, eru hvergi betur sett.

Þess vegna hljótum við áfram að vilja byggja á þeim kristna grundvelli sem leiðir af sér mannúð, samhjálp og náungakærleika. Annað væri of mikil áhætta.

En það þarf að gæta að grundvellinum, hlúa að rótunum. Ef við vanrækjum trúna gleymist fljótlega um hvað hún snýst. Í framhaldinu dofnar líka hin kristna siðferðisvitund. Loks hverfur hugarfar mildi og kærleika úr lögum og samskiptareglum. Þá á margt eftir að breytast, mun fleira en við kærum okkur um að vita.       

Hvort sem okkur líkar það betur eða ver er menning okkar og heimsmynd og skilningur á réttlæti og kærleika nátengt kristinni hugsun, svo nátengt að þetta mun allt riðlast ef kristninni verður ýtt til hliðar. Reynsla aldanna staðfestir líka að gleðifrétt upprisunnar ber í sér líf og kraft, hefur hvetjandi og göfgandi áhrif í samfélaginu. Þess þörfnumst við enn, ekki síst í umróti og óvissu.

Í dag, á degi aldraðra, skulum við hin yngri sýna þeim eldri virðingu og þakklæti fyrir allt sem þau hafa búið í haginn fyrir okkur og miðlað til okkar. Hugleiðum líka með hvaða hætti við getum nýtt reynslu þeirra og notið nærveru þeirra, til gleði fyrir eldra fólkið en heilla fyrir okkur sjálf og æskuna.

Samt sýnum við núlifandi og gengnum eldri kynslóðum allra mesta og sannasta virðingu með því að halda í heiðri lífsgildin sem hafa einkennt íslenskt þjóðfélag í þúsund ár og sjá til þess að þau móti uppvaxandi kynslóð. Þar skiptir grundvöllur kristinnar trúar meginmáli.

Eftir hrun hefur umræðan aðallega snúist um efnisleg gæði, fjármagnsskort og skuldavanda. Það brennur vissulega á mörgum og skyldi engan undra. Verst er nagandi óvissan sem einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki hafa búið við hátt á fjórða ár.

Jesús þekkti áhyggjur fólks af ytri efnum og afkomu. Hann sagði samt: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki“ (Matt. 6:33). Þar með gerir hann ekki lítið úr áhyggjum af skuldastöðu og tekjumissi en minnir á að aðrir þættir lífsins skipta enn meira máli, eru forgangsmál.

Öllu skiptir að lifa í samfélagi við Guð og láta vilja hans móta sig. Þá er Kristur með okkur, dáinn fyrir syndir okkar, risinn upp frá dauðum og stiginn upp til himna. Hann er í dýrð Guðs föður og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Í þeim dómi verða öll heimsins gæði einskis virði og allt veraldarvafstur hefur þar ekkert gildi. Eða eins og Jesús sagði sjálfur: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni?“ (Mark. 8:36).

Það er einhver mesta hætta samtímans að týna sjálfum sér í eftirsókn eftir vindi, glata sálu sinni í dýrkun dauðra hluta, elta fánýtið en missa sjónar á því sem er raunverulegt, gilt og varanlegt.

Uppstigningardagur minnir okkur á að horfa upp á við en einnig fram á við. Það gildir á mörgum sviðum.           

Góður spjótkastari finnur réttan útkastsvinkil til að spjótið svífi sem lengst. Það þarf að kasta því bæði upp á við og fram á við. Á sama hátt eigum við að beina sjónum bæði áfram og upp. Þannig stefnum við í rétta átt og náum lengra, hærra.

Þenslan um árið var hins vegar ofris og ofmetnaður. Hana einkenndu nýjungagirni og æskudýrkun á kostnað reynslu og varfærni. Núna er aftur viðurkennt að margt gamalt reynist vel og er sígilt.

Það á sannarlega við um eldgamlan boðskap Jeremía spámanns sem sagði:

„Nemið staðar við vegina og litist um,  spyrjið um gömlu göturnar,  hver sé hamingjuleiðin og farið hana svo að þér finnið sálum yðar hvíld“ (Jer. 6:16). 

Gamla gatan er síungt og sígilt fagnaðarerindi kristinnar trúar. Mannkynið finnur aldrei betri leið en þá gæfunnar braut.

Við erum lánsöm þjóð í góðu landi og höfum allt til að geta átt farsæla framtíð í sátt og allsnægtum. Þökk sé þeim sem með ómældu striti við erfiðar aðstæður lögðu grunninn að lífskjörum okkar og gerðu Ísland eftirsóknarvert til búsetu. Nú reynir á okkur að glutra ekki niður því sem eldri kynslóðir skiluðu af sér.

Það gildir um landið sjálft  og allar auðlindirnar, bæði í sjó og á landi. Það gildir líka um möguleikana og tækifærin en ekki síst sjálfstæðið og samstöðuna, menninguna, tunguna og trúna.

Já, trúna, því kristin trú er hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Styrkjum þá sjálfsmynd með því að snúa okkur heilshugar til Jesú svo hann sé óumdeilanlegur leiðtogi lífs okkar. Þá verður hinn upprisni alltaf nálægur, verndar okkur og varðveitir, leiðir og blessar. Þá er gott bæði að verða og vera gamall. Þá þurfum við ekki einu sinni að óttast það sem tekur við þegar ellinni lýkur.

Kristur er vissulega stiginn upp til himna - en samt alltaf  jafn raunverulega hjá okkur, í meðbyr og mótlæti, í gleði og raun. Drottinn leiðir allt til góðs og heldur veröldinni uppi.

Þess vegna höldum við áfram að trúa á hann, treysta honum, fela honum alla hluti og láta vilja hans móta okkur. Þannig erum við líka samverkafólk Guðs í að svara bæn þjóðsöngsins: „Verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár sem þroskast á Guðsríkisbraut“.

Dýrð sé Guði föður og syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.