Þjóðkirkjan við þjóðveginn

Þjóðkirkjan við þjóðveginn

Kirkja þessi er stödd á óvenjulegum slóðum þar sem fáum gæti í fyrstu dottið í hug að væri heppilegt að reisa Guðshús. Hún stendur við hraðbrautina sem liggur norðvestur af Frankfurt í átt til Dusseldorf og mun vera ein sú fjölfarnasta í Evrópu og þótt víðar væri leitað.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
17. desember 2007

Aðventuhugvekja á fundi Rótarýmanna 12. des. 2007

Velkomnir hingað í Kirkjulund kæru Rótarýfélagar og gestir. Ég læt það eiga sig að hafa nákvæmar lýsingar á þessum húsakynnum hér. Þið getið dæmt sjálf hvað ykkur finnst um þau koma en sjálfur nýt ég þess að koma hingað til starfa þegar framkvæmdir hér eru allar að baki og þessi ágæta aðstaða er tilbúin. Það er svo auðvitað eitt að velta því fyrir sér hvernig fari um fólk í húsakynnum, hvaða mat menn vilja leggja á aðstöðuna og vinnurýmið. Og svo er það annað mál hvaða hugsun býr þar að baki. Hverju vilja menn miðla þegar húsnæði er hannað? Hvernig tengist það umhverfi sínu og þeirri starfsemi sem þar á að vera? Þegar svör fást við slíkum spurningum er eins og nýr skilningur opnist gestinum og augu hans greina og nema umhverfið með nýjum hætti.

Kirkjuskoðunarferð

Mig langar að nota tækifærið og sameina aðventuhugleiðingu og erindi eins og það gæti litið út á hefðbundnum Rótarýfundi. Hér koma félagar í heimsókn í kirkjuna en sjálfur naut ég þeirrar upplifunar nú í síðasta mánuði að vera gestur í öðrum kirkjum. Ég fór í kirkjuskoðunarferð á vegum Kjalarnessprófastsdæmis til Þýskalands ásamt prestum og leikmönnum úr prófastsdæminu. Þar heimsóttum við alls tólf kirkjur og helgidóma í fylgd fróðra manna um þessi málefni. Með í för voru m.a. tveir rótarýmenn hér úr klúbbnum og ein Inner Wheel kona.

Tilefnið er jú það að hér í kirkjunni stendur mikið til. Þótt framkvæmdum sé lokið við safnaðarheimilið býður okkar það krefjandi verkefni að endurnýja kirkjuskipið en það er vitaskuld hjartað í þessum húsakynnum. Þar fara fram helstu merkistundir mannsævinnar í þessu nágrenni og athafnir af ýmsum toga í gleði og sorg. Ég leyfi mér að segja að kirkjuskip Keflavíkurkirkju verðskuldi það að kallast hjartað í þessu sveitarfélagi og ótvírætt yrðu þau húsakynni, vel heppnuð og endurbætt, mikil bæjarprýði. Ferð þessa teljum við góðan upphafreit þess ferlis sem framundan er. Við snerum heim aftur ríkulega nestuð af innblæstri og hugmyndum sem munu ótvírætt nýtast okkur við það erfiða verkefni sem býður.

Alls heimsóttum við tólf kirkjur og í hverri þeirra tók á móti okkur einhver sem þekkti vel til mála. Gjarnan var það arkitektinn sem hannað hafði kirkjuna eða stýrt á henni endurbótum ásamt leikmanni eða presti. Fengum við því fregnir frá fyrstu hendi um það hver tilgangurinn hefði verið með framkvæmdinni og hvaða sjónarmið voru höfð þar að leiðarljósi. Þá komu þau vel fram skilin sem verða á milli fyrstu hughrifa og hins sem opnast þegar hugsunin sem að baki býr er útskýrð og tengd við það sem fyrir augun ber.

Boðandi kirkjubyggingar

Kirkjur eru af mörgum ástæðum vel til þess fallnar að senda hljóðlát skilaboð til þeirra gesta sem þær sækja. Ein þeirra sem við heimsóttum í ferðinni var þó sérstaklega hönnuð í þeim tilgangi að miðla boðskap til gesta án þess að þar þyrfti að koma til ritningarlestur, sálmasöngur eða predikun. Sjálf byggingin og innanstokksmunir þar voru hönnuð og smíðuð með það að marki að gestir sem þangað sækja geti setið þar í hljóðri bæn eða íhugun og gengið svo aftur út í hversdaginn með að einhverju leyti ríkari í sál og sinni.

Mig langar að deila reynslunni með ykkur, ágætu gestir, af þessari kirkju en mér þykja hughrif þau sem hún vakti hæfa vel til umfjöllunar nú á þessum gatnamótum erils og kyrrðar sem aðventan óneitanlega er. Þetta er jú sá tími ársins þar sem verslun og umferð er í algjöru hámarki – en um leið er þetta tími stemmningar og innlifunar. Á aðventunni viljum við fá næði og frið og leggjum okkur fram um að eyða tíma með okkar nánustu – ekki satt?

Kirkjan við hraðbrautina Kirkja þessi er stödd á óvenjulegum slóðum þar sem fáum gæti í fyrstu dottið í hug að væri heppilegt að reisa Guðshús. Hún stendur við hraðbrautina sem liggur norðvestur af Frankfurt í átt til Dusseldorf og mun vera ein sú fjölfarnasta í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Þegar ekið er út af átóbananum blasir hún við einkennileg í laginu – hár lóðréttur veggur vísar mót austri en niður af honum kemur skáhallandi þakið alsett glerlistaverki eftir Schreider nokkurn sem mun vera eins konar Leifur Breiðfjörð þeirra Þjóðverja. Þar fyrir utan er lágreistur garður girtur af með múrsteinsvegg og súlnagöngum. Kirkjan dregur heiti sitt af hraðbrautinni, heitir upp á þýsku Autobahnkirche og er í hópi yfir þrjátíu slíkra helgidóma sem standa við hraðbrautirnar margrómuðu í Þýskalandi.

Allar hafa þær sama tilganginn: að skapa andrými og kyrra hug vegfaranda sem æða um á ógnarhraða. Og hvernig fara menn að slíku?

Þegar gengið er úr bifreiðinni er haldið inn í garðinn umhverfis kirkjuna. Þar mæta gesti litlir gosbrunnar sem senda vatnið fáeina sentimetra upp af yfirborðinu sem er að öðru leyti lagt steinmöl. Gengið er eftir venjulegum gangstéttarhellum inn kirkjuna og þegar þar er inn komið blasir við stór veggurinn og svo steindu gluggarnir sem þekja hallandi loftflötinn. Altarisverkið er óvenjulegt. Á mjóum sillum á veggnum standa ferhyrndar steyptar plötur – líklega 80 talsins. Undir eins fer gesturinn að spá og reyna að finna einhvern flöt á þessu tákni. Menn taka nokkur skref aftur á bak – telja, leita forma, hugsa og reyna að ráða í hvað listamaðurinn vill segja með verki þessu.

Fyrir framan er altarið – mikill granítsteinn fleiri tonn að þyngd vafalítið og eftir honum endilöngum hefur verið sagaður eins konar gangur sem einnig stendur á þverveginn. Meðfram veggjum eru lítil innskot fyrir kerti og bera múrsteinarnir þess merki þess að þau eru mikið notuð.

Á vesturveggnum gegnt altarinu stendur gestabók þar sem fólk getur skráð nafn sitt og vísar hún á glugga þar á veggnum þar sem horft er út í garðinn. Þar skynjar gesturinn hvernig gosbrunnarnir litlu í garðinum ganga mishratt og hátt. Þeir sem fjærstir eru kirkjunni eru ögn fjörugri en þeir sem næstir henni standa. Handan þeirra er veggur með ferhyrndu opi eða glerlausum glugga. Að baki sést í kross sem gerður úr mjóum járnteinum. Og hvað er þar fyrir handan? Jú sjálf hraðbrautin.

Hraðinn og kyrrðin

Þetta blasir því við gestinum sem horfir út um gluggann á kirkjunni: Ramminn utan um hraðbrautina sýnir bílana æða framhjá – hver þeirra varla nema fáein sekúndbrot að skjótast framhjá glugganum. Þetta er eins og æðislegt nútímalistaverk. Þar fyrir innan er krossinn sem markar ákveðin skil. Hann er jú táknið sem bendir bæði til hliðar og upp til himins þar sem menn hafa löngum greint eilífðina og það sem stendur handan þess sem mölur og ryð fá grandað. Og innan við hann er þessi sérkennilegi leikur með vatnið – þar sem smám saman hægir á því uns komið er inn í kirkjuna.

Líti maður við blasir altarið við – ógnarþungt og massívt. Þar fyrir ofan – hellurnar sem standa á veggnum. Þetta eru samskonar hellur og gengið er á inn í kirkjuna, gangstéttarhellurnar sem venjulega eru undir fótum okkar mynda altaristöfluna. Við tökum hversdaginn með okkur inn í kirkjuna og helgum hann. Þegar vel er að gáð má sjá að formið á þeim myndar kross í miðjunni. Það gerir einnig gangurinn í gegnum altarissteininn. Krossinn er falinn í rýminu og tekur nokkurn tíma að greina hann. Þannig birtist hann okkur líka í lífinu. Stundum þurfum við að kyrra huga og sinni til þess að geta greint vilja Guðs.

Yfir öllu er svo hið sérstaka glerlistaverk þar sem abstraksjónin virðist gefa áhorfandanum mikið rými til þess að túlka og tengja við veruleikann. Eins og mót hraða og kyrrstöðu – kaldur blár liturinn hægir á sólarbirtunni sem brýst í gegn.

Að sögn prestsins sem þjónar m.a. þessari kirkju fara vikulega fram helgistundir í kirkjunni en að öðru leyti byggir notkun hennar á því að fólk komi og fari eftir eigin hentugleik. Þarna geta menn nálgast upplýsingar um prestsþjónustuna í nágrenninu og sett sig í samband við prest. Árlega rita 60 þúsund manns nafn sitt í gestabókina.

Þjóðkirkjan við þjóðveginn

Átóbankirkjan er merkileg yfirlýsing. Hún talar máli trúar og helgi í samtímanum. Hún sýnir vel þá sýn sem kirkjan hefur í þessu sama umhverfi. Hún vill minna á veruleika og verðmæti sem eru annars konar sem þau sem kannske koma fyrst í huga fólks þegar það leiðir hugann að því sem eftirsóknarvert er. Hún treður sér ekki inn í veruleika fólks heldur er hún til staðar þegar á þarf að halda og réttir hjálparhönd þar sem hennar er krafist. Kirkjan kallar okkur til sín – en hún gerir líka til okkar kröfur. Boðskapurinn rennur ekki til okkar eins og af sjónvarpsskjá heldur þurfum við að stilla okkur inn á hann. Í þeim anda er hún líka frumleg og nýskapandi. Og fólk leitar til hennar.

Þetta eru þau gleðilegu og innihaldsríku hughrif sem kirkjan vekur. Veruleikinn sem blasir við kirkjunni í Þýskalandi er hins vegar ekki svo bjartur. Aðeins tveir þriðju hlutar íbúanna tilheyra kirkjudeildum – mótmælendum eða kaþólskum. Skýringin á því er öðru fremur sú að íbúar í austurhlutanum standa flestir utan trúfélaga og enn fremur hitt hversu mjög fólki af erlendum uppruna fjölgar í landinu en það aðhyllist í flestum tilvikum islam. Eitt algengasta skírnarnafn í borgum Þýskalands eins og víðast í vestur Evrópu er Múhameð og svo hefur verið um langt skeið.

Á sama tíma og tekjurnar dragast saman minnkar ekki þörfin á viðhaldi eldri kirkna en einn heimildarmaður okkar í ferðinni benti á að allt ráðstöfunarfé kirknanna þar syðra hrekkur aðeins til helmings þess kostnaðar sem gert er ráð fyrir að fari í viðhald og endurbætur á eldra húsnæði. Því þaf að loka gamalli kirkju í hvert skiptið sem ný kirkja er byggð eða gagngerar endurbætur eru gerðar á eldra húsnæði.

Átóbankirkjan getur því líka staðið sem frekar napur vitnisburður um stöðu kirkjunnar í samtímanum. Hún stendur hljóð við hraðbrautina þar sem flestir eru á fleygiferð á milli staða á ógnarferð og gefa sér sjaldan tóm til þess að staldra við. Á þeirri leið stendur hún og bíður. Stundum sendir hún skilaboð til vegfarenda – ekki ósvipað og krossarnir sem gjarnan eru settir upp hérlendis á þeim slóðum þar sem umferðin hefur kostað fólk lífið.

Og á aðventunni...

Og á aðventunni kemur kirkjan inn í allan erilinn, gjarnan í hlutverki prests sem flytur hugvekju á mannamótum og hvetur fólk til þess að taka því rólega svona inn á milli og láta ekki öll verðmæti sín á sömu vogarskálarnar.

Með þeim orðum þakka ég ykkur fyrir áheyrnina kæru félagar og óska ykkur gleðilegrar hátíðar!