Ákall um frið í heimi

Ákall um frið í heimi

Þegar átök brjótast út á meðal þjóða verðum við, almennir borgarar, varnarlaus og vanmáttug. Réttlát reiði brýst fram í huga okkar gagnvart þeim sem vogar sér að ráðast gegn saklausu fólki.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
11. mars 2022

Þegar átök brjótast út á meðal þjóða verðum við, almennir borgarar, varnarlaus og vanmáttug. Réttlát reiði brýst fram í huga okkar gagnvart þeim sem vogar sér ráðast gegn saklausu fólki.                      Við megum ekki falla í þá gryfju að álíta sem svo að valdhafar í Mosvku séu rússneska þjóðin. Einvaldurinn Pútín getur ekki talað fyrir rússnesku réttrúnaðarkirkjuna eða Guðs kristni í heimi þó hann vilji taka sér það vald. Ef til vill líkja þeim ólánsama manni við þann sem fær boð um að allur heimur muni lúta honum, ef hann aðeins falli fram og tilbiðji freistarann. Þjóðhöfðingi hefur fallið í freistni með stríðsrekstri og valdbeitingu. Hann virðist ekki koma fram í umboði þeirrar þjóðar sem hann situr á valdastóli yfir og erfitt er að sjá í breytni hans eftirfylgni við þann frelsara sem hann þykist játa með munni sínum.

Á örlagastundum beinast sjónir að einstaklingum og þá einnig að því hvað við sem veikburða manneskjur getum lagt til svo að til friðar horfi. Í trú, von og kærleika koma söfnuðir saman, fólk á ferð - fólk á flótta - fólk á friðarsvæðum og fólk í miðju átaka, til ákalla, biðja og eiga samfélag um þá von hinu illa og skaðlega megi snúa af glötunarvegi. Í því er ekki aðeins fólgin sáluhjálp einstaklinga heldur birtist þannig afstaða til lífsins og náungans. Öll þau sem eru hlutaðeigandi í hinum kristna arfi, svo ríkum af menningarsögulegum og siðferðslegum dýrmætum, eiga geta átt samfélag um trú sína.

Á þessum krefjandi tímum er vegið að þessari einingu. En Kristur gerir ekki upp á milli þeirra sem á hann vona. Því er það mikilvægt að þau sem upplifa kúgun, ógn og aðkast viti af og geti iðkað bæn sína í samfélagi, þvert á kirkjudeildir, uppruna og menningarmismun. Að því vill Þjóðkirkja Íslands stuðla og sendir ákall og bæn inní þá sundrungu og upplausn sem ógnar öryggi fólks, vissulega á átakasvæðum en einnig jafnvel hér á okkar friðsama landi.

Skemmdarverk á kirkju kallar til samstöðu

Það særir ekki bara trúartilfinningar okkar í biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju að skemmdarverk hafa verið unnin á bænhúsi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í höfuðborg landsins í síðustu viku. Safnaðarmeðlimir eru frá fleiri löndum en Rússlandi, m.a. Úkraníu og Serbíu. Það kallar okkur til samstöðu, einingar um friðarboðskap Jesú Krists og samhug með öllum þeim sem líða. Það er óásættanlegt ráðist sé á og vanvirt það sem öðrum er heilagt.  Við skulum mæta slíku í kærleika og falla ekki í þá gryfju að dæma, útskúfa og einangra þau sem hafa í engu unnið til saka í pólítískum illdeilum.

Þögn Kýrils patríarka er þung

Ólga ríkir innan rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar vegna þeirrar þagnar sem umlykur Rauðatorgið, þann vettvang sem tengir ráðstjórnarbyggingarnar í Kreml og Dómkirkju heilags Basils. Aðalritari Alkirkjuráðsins sem þjóðkirkjan tilheyrir sendi Kýril patríarka áskorun í síðustu viku þar sem kallað var eftir því að hann stuðli að því sem til friðar megi leiða. Það ákall er í samhljómi við yfirlýsingar lúterska heimssambandsins sem okkar evangelísk lúterska þjóðkirkja er einnig hluti af. Andsvar Patríarkans barst Alkirkjuráðinu í vikunni og veldur áhyggjum yfir því að hin pólítísku átök muni valda enn dýpri sundrung innan samfélags systurkirkna okkar í Austur-Evrópu. Á Íslandi iðka almennir rússneskir og úkraínskir borgarar trú sína í söfnuði rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunnar, og flóttafólk frá átakasvæðum er þegar byrjað að koma til landsins. Þjóðkirkjan vill standa með þeim til þess að þau megi varðveita einingu safnaðar síns og rækta áfram þann systra- og bræðrahug sem þrífst í heilnæmu samfélagi um hinn kristna trúararf og von sína.

Eining kristinnar í bæn 

Þjóðkirkjan kallaði saman fólk úr öllum kirkjudeildum síðastliðinn sunnudag til að biðja fyrir friði í Úkraínu og sýna samstöðu með þeim sem líða á þeim átakasvæðum þar sem ógnir stríðsins vaxa. Sá Drottinn eilífðarinnar þekkir og kennir okkur að viðhalda einingarbandi kærleikans þegar hið illa vill sundra. Ágreiningur um kenningar, menningarmun og viðbragðaáætlanir verður hjóm eitt þegar við erum kölluð til bænar fyrir friði, þegar samviskan krefur okkur um að sýna mennsku okkar í verki. Mennsku sem getur borið fram og endurspeglað vonarglætu hins eilífa ljóss sem hefur birt upp hugskot tugmilljóna, í sögu og samtíð, á tímum örvæntingar. Við skulum stíga inn í það ljós. Og eins verður það þessa helgi þar sem söfnuðir landsins koma saman í kirkjum landsins.

Með bæn um frið í heimi og hvatningu til þín lesandi góður, að trúa, vona og biðja. Þess erum við þó, þrátt fyrir allt, megnug í veikleika okkar.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands