Í tákni barnsins

Í tákni barnsins

Þessi árin lifi ég þann aldur fjölskyldunnar sem barnabönin fæðast og vaxa úr grasi. Sérhvert þeirra sjö sem komin eru hafa fært mér nýja gleði og ný umhugsunarefni. Þó hafa þau öll flutt mér einn og sama boðskapinn. Það sem ekki var kallaði Guð með nafni og það varð. Já, þau hafa öll borið skapara sínum vitni.
fullname - andlitsmynd Jakob Ágúst Hjálmarsson
26. desember 2005
Flokkar

Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.

Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel, það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS. Mt. 1.18-25

Þessi árin lifi ég þann aldur fjölskyldunnar sem barnabönin fæðast og vaxa úr grasi. Sérhvert þeirra sjö sem komin eru hafa fært mér nýja gleði og ný umhugsunarefni. Þó hafa þau öll flutt mér einn og sama boðskapinn. Það sem ekki var kallaði Guð með nafni og það varð. Já, þau hafa öll borið skapara sínum vitni.

Fyrir hálfum öðrum áratug var ekkert þeirra. Nú er eí kringum mig hópur barna, hvert um sig einstakar mannverur og hefur í engu tilfelli annað eins barn fæðst á jörðunni. Hvað réði því að þau urðu einmitt þau sem þau eru? Engan grip sjáum við að ekki bærist með okkur vissa um að einhver hafi búið hann til. Á sama hátt má sjá óendanlega hugkvæmni skaparans í ólíkum myndum mannanna.

Þegar nú skapari okkar lét undan þrá sinni að gefa mönnunum að þekkja sig betur en af verkum sínum og opinbera fyrir þeim hug sinn kaus hann að verða barn á meðal þeirra. Með því vildi hann í fyrstunni segja að hann kysi að minna manninn á tvennt: Að enginn maður er meira virði en barn og enginn þarf aðra eiginleika en þá sem börnin hafa til þess að geta nálgast hann. Etv. var hann einnig að segja að trúin á hann er eins og barn sem þarf að ala upp.

Rétt eins og barnið Jesús var lagður í hendur óbrotins fólks en ekki konungakyns og fékk hvílustað í gripahúsi verður trúin á Guð ekki til fyrir mikilúðlega umgjörð hennar. Mikilfengleg musteri færa þér ekki Guð. Þau eru aðeins ábending um hátign hans og hlutverk boðunar orðsins og meðhöndlun sakramentanna, kunna jafnvel að segja manni að Guð sé ekki fyrir lítilmótlegar manneskjur.

Það minnir mig á orð manns sem var vanur að sækja þær helgistundir sem hafa mánaðarlega verið í Kolaportinu og spurði: Hvenær verður næsta verkamannamessa? Honum hefur sjálfsagt ekki þótt þessi fallega kirkja vera fyrir fólk eins og sig þó hún stæði í aðeins tvö hundruð metra fjarlægð frá Kolaportinu. Vitringarnir sem leituðu Jesúbarnsins fundu hann ekki heldur í höll Heródesar, heldur í fjárhúsi.

Og hann tók barn og leiddi mitt á meðal þeirra og sagði nema þér verðið eins og barn þetta munuð þér alls ekki komast inn í himnaríkið. Hvað hefur barn sem við þurfum að eiga til þess að geta orðið hæft til samfélags við Guð? Hver er það af eiginleikum þeim sem við áttum sem börn sem við eigum á hættu að glata með árunum en er svona mikilvægur?

Slyldi það vera einlægnin? Við teljum það ráðlegra að setja upp grímu og láta ekki uppi það sem að baki býr vegna þess að við óttumst að aðrir muni notfæra sér það gegn okkur. Við óttumst að hleypa fólki of nærri að það fari kannski að notfæra sér nándina á þann hátt sem við ráðum ekki við.

Eða er það kannski auðmýkt barnsins sem ekki er fært um margt sjálft og kallar jafnvel af klósettinu: Mamma ég er búin! Í byrjun er það sjálft ófært um að uppfylla þarfir sínar og á allt undir öðrum. Getur Guð kannski ekkert fyrir þann mann gert sem telur sig geta allt sjálfur? Mér sýnist alltént Jesús hafa lagt talsverða áherslu á þetta tvennt sem eiginleika sem manneskjan verður að grípa til til þess að geta átt samfélag við Guð, já, sem og sína nánustu, auðmýkt og einlægni.

Kannski eigum við líka að annast trúna eins og við eigum að annast börnin. Við þurfum að næra trúna eins og barnið. Við þurfum að veita henni hlýju og skjól samfélagsins við þau sem geta annast það og eins er með trúna. Hún þarf samfélag annara trúaðra til að geta þroskast. Hún og barnið þurfa viðfangsefni til þess að þroskast. Trúin er líf, líf í anda og sannleika; þarf samfélag og uppfæðslu.

* * *

Ég tók eftir því þegar ég var að tala við hana Margéti sem ætlar að fermast hér í dag að hún er betur að sér en flest þeirra barna sem hér annars koma til spurninga. Henni hafa verið kennd kristin fræði og hún hefur haft tækifæri til þess að ræða hugsanir sínar um þau efni og þau eru hluti af vitsmunalífi hennar. Þetta gefur henni greinilega innri persónustyrk.

Við þurfum að vaka yfir því að íslensk börn fái fræðslu um kristna trú og ekki aðeins það heldur einnig markvissa uppbyggingu sem kristnar manneskjur. Við höfum ekki tekið ákvörðun um það að leggja annan grundvöll að mannskilningi og mannhelgi en hinn kristna og ef slíkt skortir þá er hætt við að siðgæðið verði án grundvallar og markmiðsetningin því einvörðungu efnisleg. Hamingjan verður þá eignir og völd.

Fermingarbarn játar eftirfylgd við Jesú Krist. Það lýsir yfir þeim ásetningi að taka mið af því sem hann hefur kennt í samskiptum sínum við Guð og menn. Það er með öðrum orðum að ætla sér að hafa kærleikann að leiðarljósi í samskiptum við menn. Í því er fólgið að það reyni að koma fram við alla menn af virðingu, í leit að þörfum náunga síns með það í huga að bæta úr vanda eftir þörf og megni.

Það felur einnig í sér að ungmennið telur sig ekki þurfa að jafna þá reikninga þar sem aðrir eru í skuld við það í þessu lífi, né að Guð hafi aðeins tímann til þess að láta það njóta réttlætis og gjafmildi sinnar. Hann á einnig eilífðina að starfa í. Það er því ekki ástæða til þess að óttast um sjálfan sig ef maður veit sig eiga Guð að.

Þetta allt og miklu meira segja jólin þér. Hátíðin sem þú ert hafin til þegar vetrarmyrkrið er sem svartast, að þú munir ef syrtir að í lífi þínu að þá gengur þú samt í áttina til ljóssins sem aldrei bliknar. Jólabarnið er Guð þinn hjá þér sem barn á eigin barmi.