Fjárhirsla fríkirkjunnar

Fjárhirsla fríkirkjunnar

Sálnahirðir Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík, sr. Hjörtur Magni Jóhannsson, hefur á undangegnum misserum tjáð sig reglulega í fjölmiðlum, t.d. í Fréttablaðspistli 10. desember.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
18. desember 2010
Meðhöfundar:

Fimmþúsundkall

Síðasta sunnudag var kveikt á hirðakertinu á heimilum og í kirkjum þjóðarinnar til að minna okkur á fjárhirðana í jólaguðspjallinu. Þeir hirtu ekki fé, heldur voru dyggir gæslumenn þess.

Sálnahirðir Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík, sr. Hjörtur Magni Jóhannsson, hefur á undangegnum misserum tjáð sig reglulega í fjölmiðlum, t.d. í Fréttablaðspistli 10. desember. Efni greinarinnar og reyndar margra útvarpsprédikana fríkirkjuprestsins varðar aðeins fé og eignir. Fyrir hönd Fríkirkjunnar í Reykjavík krefst hann hluta þess fjár sem ríkið geldur þjóðkirkjunni nú sem afgjald af jörðum sem áður voru eign kirkjunnar. Þó var eignarhald á jörðunum óumdeilt þegar þær voru afhentar ríkinu (1907 og 1997-8). Í grein sinni setur sr. Hjörtur Magni samasemmerki milli þessara eigna og „hins sameiginlega trúar- og menningararfs sem hefur mótað sjálfsmynd, samkennd og þjóðarvitund okkar.“ Tengingin er óraunhæf. Annars vegar er um að ræða hagfræðilegar stærðir og hins vegar hugrænar.

Hver á kirkjujarðirnar?

Í túlkun á „eignasögu“ kirkjunnar stiklar sr. Hjörtur Magni léttilega yfir staðreyndir. Hann telur að kirkjueignir hafi verið illa fengnar á miðöldum og loks afhentar þjóðkirkjunni með „siðlausum samningi“ fyrir aðeins 13 árum.

Á fyrstu öldum kristni í landinu voru allar kirkjubyggingar (að dómkirkjum frátöldum) í einkaeigu. Tryggja varð rekstur þeirra þannig að umhirða kirkjueiganda réði ekki úrslitum um ástand þeirra. Markmiðið var að jarðeignir stæðu undir rekstri og viðhaldi kirkjubygginga. Þannig varð höfuðstóllinn til. Síðar fóru fleiri að gefa. Ekki er útilokað að einhvern tíma hafi ágirnd ráðið för. Það er þó alhæfing að græðgi sé helsta skýringin á eignasafni kaþólsku kirkjunnar á miðöldum.

Á siðaskiptatíma var smám saman tekið að flytja nýja guðfræði í kirkjum landsins sem áður þjónuðu kaþólskum sið. Þær voru áfram miðpunktar sömu sókna og áttu allar eignirnar. Siðaskiptatíminn var breytingarskeið í hinu innra en ekki ytra. Eignarhald eða breyting þess var ekki mál þess tíma.

Eignaframsal á 20. öld

Á öndverðri 20. öld var við margháttaðan vanda að etja í íslensku samfélagi. Skipulag og rekstur þjóðkirkjunnar var óhagkvæmt. Eignir kirknanna nýttust ekki vel með því að halda úti undirmönnuðum sóknum og prestaköllum sem ekki gátu staðið undir helgihaldi. Þeim var því fækkað og eignir færðar milli kirkna og sókna. Menn tóku nú að líta svo á að jarðirnar væru sameign sóknanna í landinu. Hátt hlutfall leiguábúðar stóð á sama tíma í vegi fyrir framförum í landbúnaði. Efnahagslíf þjóðarinnar þróaðist smám saman yfir í peningahagkerfi í stað hagkerfis vöruskipta.

Reynt var að efla landbúnað með því að losa um jarðir í opinberri eigu þar á meðal kirkjujarðir. Þjóðkirkjan fól ríkinu forræði yfir uppistöðunni í eignasafni sínu (1907) gegn því að það tryggði rekstur hennar fjárhagslega eftir hagræðinguna. Alla 20. öldina ríkti síðan sá skilningur að ríkinu bæri að ráðstafa jörðunum á þann hátt sem nýttist sem flestum, þ.e. þjóðinni. Hið forna eignasafn rýrnaði vegna þess að ríkið varð að huga að hagsmunum fleiri en kirkjunnar. Það gat því ekki alltaf krafist hæsta verðs eða jafnvel raunvirðis fyrir jarðir sem seldar voru. Á 20. öld naut því þjóðin kirkjujarðanna því með ýmsu móti og gerir enn.

Jarðasamningur ríkis og kirkju

Við lok 20. aldar var samningur gerður milli ríkis og kirkju um hinar fornu kirkjujarðir. Tilgangurinn var að höggva á næsta óleysanlegan hnút: Hvernig var mögulegt að ráðstafa jörðunum áfram á sem hagfelldastan hátt fyrir sem stærsta hluta þjóðarinnar? Einfaldasta lausnin var að ríkið eignaðist jarðirnar. Það var önnur hliðin á samningnum. Hin hliðin laut eðlilega að því hvað væri eðlilegt gjald til kirkjunnar. Samningurinn var gerður á grundvelli sem var lagður 1907, sem sé að ríkið tryggði rekstur kirkjunnar innan skilgreindra marka.

Samkomulagið er á engan hátt ósiðlegt enda voru samningamenn ríkis og þjóðkirkju meðvitaðir um lög, reglur, sögu, sið, fé og framtíð. Í anda nútímalegs eignarréttarskilnings er hægt að hagnýta afrakstur eignanna þar sem þess er helst þörf. Þjóðin nýtur afgjalds eignanna að nokkru sameiginlega þar sem þjónusta þjóðkirkjunnar stendur öllum til boða án kirkjuaðildar eða trúarjátningar.

Um aldmótin 1900 var ákaft rætt um tengsl og/eða aðskilnað ríkis og kirkju. Flestum þótti allt stefna í aðskilnaðarátt. Mörgum þótti þó ekki ganga nægilega hratt að losa kirkjuna undan yfirráðum ríkisins. Þeir sögðu sig því úr þjóðkirkjunni og nýttu rétt sinn til að stofna ný trúfélög, það á meðal Fríkirkjuna í Reykjavík. Þeir völdu með öðrum orðum milli þjóðkirkjunnar og eignanna á aðra hlið og hugsjónar um frjálsa kirkju á hina. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og fríkirkjureyfingin orðið að fríkirkjustofnun, með eignir og skuldir, tekjur og gjöld. Getur hún nú samt sem áður gert tilkall til afraksturs af hinum kirkjueignunum? Það er ekki menningarleg, guðfræðileg eða siðfræðileg spurning heldur ræðst svarið fyrst og fremst af eignaréttarlegum sjónarmiðum — því miður.