Sigurhátíð lífsins

Sigurhátíð lífsins

"Kristur er upprisinn! Hann hefur sigrað dauðann!" Það er eins og þessi frétt standi alein gegn öllum öðrum fréttum og einmitt þess vegna er svo brýnt að hún nái til okkar, við heyrum hana og trúum henni: Það er til afl sem er sterkara en dauðinn og illskan og ekki dauðinn heldur lífið á síðasta orðið í þessari tilveru.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
08. apríl 2007

Á forsíðum blaðanna er það ekki lífið sem við sjáum hrósa sigri. Við heyrum um stríð í fréttunum, grimmileg ódæði, við sjáum myndir af deyjandi börnum í föðmum grátandi mæðra, blóðvellir veraldarinnar ná inn á stofugólfin og þá er sú ályktun nærtæk að Kristur sé alls ekki upprisinn og dauðinn enn ósigraður. Páskar Þess vegna er tilvera okkar ekki böðuð sigurbjarma heilagra páska heldur lifum við hvern dag í skugga dauðans. Hver einasti dagur gæti verið sá síðasti og þess vegna erum við í sífelldu kapphlaupi á eftir lífsins lystisemdum, áður en allt verður of seint, moldin eignast okkur og hlátrarnir kafna að eilífu í skuggum grafanna.

Neyslusamfélagið á rætur sínar í þessu. Búið er að telja okkur trú um að þetta sé eina tækifærið sem við höfum. Við megum ekki slá neinum kaupum á frest. Á morgun er ekki góð speki. Hér og nú er það sem gildir. Græðgin bólgnar út í mannheimum. Ég verð að eignast sem mest, láta alla mína drauma rætast, því ég hef ekkert nema þennan dag vísan, þessa líðandi stund. Kirkjugarðar heimsins segja mér að lífinu sé ekki treystandi. Dauðinn virðist eini lífsgrundvöllurinn.

"Kristur er upprisinn! Hann hefur sigrað dauðann!" Það er eins og þessi frétt standi alein gegn öllum öðrum fréttum og einmitt þess vegna er svo brýnt að hún nái til okkar, við heyrum hana og trúum henni: Það er til afl sem er sterkara en dauðinn og illskan og ekki dauðinn heldur lífið á síðasta orðið í þessari tilveru. Hver sem skipar sér í fylkingu með lífinu er að ganga til liðs við sigurliðið.

Gleðilega páska!