Að mótmæla jólunum?

Að mótmæla jólunum?

Það eru til tvenns konar jól; jól sem kafna í umbúðarpappír og jól sem búa í djúpi eigin tilveru. Jól sem eru marglit, bragðmikil, áþreifanleg – og endaslepp þegar eftirbragðinu lýkur. Og svo önnur jól sem tengjast dýrum minningum, hrifnæmi, hátíðleik, þögulli gleði í upplýstu myrkri.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
19. desember 2006

Ungur maður setti upp vefsíðu til að mótmæla jólunum. Og þó ekki beint jólunum heldur jólaverslun sem byrjaði strax í október. Og vefsíðan sú vakti viðbrögð margra af yngri kynslóðinni. Þeim fannst þjófstartið vera að ræna sig jólunum.

Einhvern veginn vöktu þessi viðbrögð með mér bjartsýni. Bjartsýni á þetta unga fólk sem greinilega hafði varðveitt eitthvað sérstakt, eitthvað sem orð ná varla yfir en tengist jólunum. Eitthvað óáþreifanlegt, ó-innpakkanlegt sem þó tilheyrir ákveðnum stað og stund, hátíðinni sem ber svo skyndilega að garði klukkan sex á aðfangadag, og ekki mínútu fyrr.

Það eru til tvenns konar jól; jól sem kafna í umbúðarpappír og jól sem búa í djúpi eigin tilveru. Jól sem eru marglit, bragðmikil, áþreifanleg – og endaslepp þegar eftirbragðinu lýkur. Og svo önnur jól sem tengjast dýrum minningum, hrifnæmi, hátíðleik, þögulli gleði í upplýstu myrkri. Jól sem setja nánustu tengslin við aðrar manneskjur í brennidepil. Slík jól geta meira að segja verið býsna sársaukafull þegar við höfum misst og söknum. Á þau sár dugar enginn umbúðapappír.

Og þó þarf hvorugt að útiloka hitt. Hluti af minningunni er bragð og lykt. Partur af reynslunni eru innpakkaðar gjafir, útdeiling, eftirvænting. En jólin snúa fyrst og fremst að einhverju sem gefur lífinu gildi, einhverjum sem við elskum eða þykir vænt um. Jólin eru óáþreifanleg í þeim skilningi að þau snúast um huglæg verðmæti, um elsku, um frið um djúpa gleði. Jafnvel þegar við trúum ekki einu sinni á þann sem fæddist á jólum setur hátíðin í brennidepil tengsl okkar og afstöðu til fólks fremur en hluta. Skýrir hvað eru sannir gleðigjafar og hvað lognir.

Nýlega var sagt frá því fjölmiðlum könnun á þess konar efnishyggju sem telur að hamingjan og lífsgleðin sé fólgin í að eignast hluti. Og niðurstaðan var sú að þeir sem telja að hamingjan felist í að eignast hluti voru sýnu óhamingjusamari en hinir sem töldu að farsældin fælist í einhvers konar gildismati eða tengslum við fólk.

Jólasagan fjallar um fólk og tengsl. Ég og þú. Guð og maður. Hún leyfir sér í barnslegu yfirlæti sínu að boða að leyndardóm heimsins sé að finna í þessu barni. Það er ekki lítið. Og þó finni engir þann leyndardóm nema þeir sem eiga barnslegt hjarta, kunni að treysta, þori að elska, sýni þann mann sem þeir hafa að geyma en hvorki fals né kaldhæðni.

Jólasagan segir einnig frá efnislegum hlutum. Gull, reykelsi og myrra var það. Eflaust keypt á Laugavegi síns tíma austur í Mesópótamíu. En gjafirnar þær voru tákn um þann hug sem að baki bjó. Sem slíkar voru þær góðar, Sem slíkar vöktu þær gleði. Engar skyldugjafir, hámark 5000 kr. keyptar á Þorláksmessukvöld.

Unga fólkið var að mótmæla umbúðarjólum stóru verslunarkeðjanna. Það skynjaði að jólin geyma manneskjuleg verðmæti sem ekki má týna. Gjafirnar komi í framhaldinu. Ræktum þetta manneskjulega sem jólin boða – og njótum svo þess sem keypt verður með peningum.

Gleðileg jól.