Hvernig falla risarnir?

Hvernig falla risarnir?

Hversu oft hafa prestar ekki predikað hófsemi, auðmýkt og þjónustu í gegnum tíðina? Er ekki veruleikinn sá að hátterni sem fellur að boðun Krists er í fullu samræmi við það sem er eðlilegt og um leið árangursríkt innan sköpunarverksins?
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
10. apríl 2010

Enron Center

Maður er nefndur Jim  Collins. Árið 2001 sendi hann frá sér bókina From Good to Great sem birtir ítarlega rannsókn á því hvers vegna sum fyrirtæki ná undraverðum vexti og njóta mikillar og langvarandi velgengni, en önnur ekki.

Leiðtogarnir skipta sköpum Í bókinni eru dregin fram einkenni slíkra fyrirtækja og er athyglinni þar einkum beint að leiðtogunum. Þeir búa yfir eiginleikum til þess að leiða hópinn áfram og beita þeir til þess áþekkum aðferðum. Hann kallar þá 5. stigs leiðtoga – en orðið Þjónandi leiðtogi kom einnig sterklega til greina í ljósi þess hvernig þeir hugsa og starfa. Það vekur einmitt athygli að leiðtogar þessir eru í eðli sínu hlédrægir og hógværir en þeir hafa brennandi áhuga á því að efla það samfélag sem þeim er treyst fyrir. Þessi sama afstaða einkennir hug allra þeirra sem starfa í þágu fyrirtækisins. Hófsemi er lykilhugtakið, hvort sem horft er til fjölda þeirra verkefna sem ráðist er í, ytri umbúnaðar eða þeirrar sýnar sem menn hafa á sjálfa sig og umhverfið. Þar horfa menn út um gluggann í velgengni, en í spegil þegar á móti blæs, með öðrum orðum, skýringuna á góðum árangri finna þeim í hinu ytra umhverfi en sökina á mistökum finna þeir hjá sjálfum sér.

Hófsemin er hið innra, en metnaðurinn fyrir samfélaginu er ósvikinn og hugmyndirnar stórar: „Good is the enemy of great“ segir í upphafi bókarinnar og er þar sleginn sá tónn að þar sem ekki er unnið að því að ná framúrskarandi árangri verður niðurstaðan aldrei viðunandi. Lykillinn felst í því að horfa til réttrar áttar, dreifa ekki kröftunum í ónauðsynleg verkefni og að sama skapi eiga þeir starfsmenn sem ekki róa í sömu áttina ekki heima um borð í bátnum.

Horfa má til þessara árangursríku eiginleika leiðtoga á fleiri sviðum lífsins en í fyrirtækjarekstri. Foreldrar sem hafa hag fjölskyldunnar að leiðarljósi skapa farsælan jarðveg fyrir börn sín til uppeldis og þroska. Leiðtogar í félagssamtökum sem hafa brennandi áhuga á velgengi félagsins eru líklegir til þess að ná árangri. Prestar og forystufólk í söfnuðum sem stunda gagnrýna sjálfsrýni geta með sama hætti komið miklu til leiðar í störfum sínum. Já, „mjúku gildin“ eru ekki svo mjúk þegar á allt er litið!

Fimm örlagarík skref Á síðasta ári gaf Collins út bókina How the Mighty Fall. Tímasetningin er engin tilviljun og þarf vart að fara nánar út í þá sálma. Þar sem hann greinir ástæður fyrir hruni stórra fyrirtækja sem höfðu vakið athygli og aðdáun í fjölmiðlum, háskólum og víðar, horfir hann einnig til hugarfarsins. Leiðin að hruninu liggur í gegnum lendur hroka, hömluleysi og blekkingar, segir hann. Dregur hann fram fimm einkenni í menningu stórra fyrirtækja sem hrundu til grunna á ótrúlega skömmum tíma:

  1. Hroki kemur í kjölfar árangurs. Menningin í fyrirtækjunum breyttist smám saman í þá vegu að fólk leit ekki lengur svo á, að árangur komi aðeins í kjölfar mikillar vinnu og einbeitni. Hugmyndin að fyrirtækið eigi „rétt á“ sjálfkrafa árangri í ljósi yfirburða sinna tekur smám saman yfir. Þarna kveðja menn hógværðina sem einkennir 5. stigs leiðtogana.
  2. Agalaus sókn í meiri vöxt. Þarna missir fólk sjónar á þeim markmiðum sem fyrirtækið hefur og leitar stefnulaust í allar áttir að nýjum verkefnum til þess að skapa meiri gróða og hlutdeild á markaði. Vöxturinn verður markmið í sjálfu sér, jafnvel þótt hann sé á sviðum sem falla ekki undir þá þjónustu sem fyrirtækið á að veita. Þarna hætta menn að helga sig því sem þeir gera best.
  3. Augunum lokað fyrir áhættu og mögulegu tjóni. Það hömuleysi sem fylgir því að horfa aðeins til frekari vaxtar, leiðir til þess að samfélagið skellir skollaeyrum við þeim varnaðarmerkjum sem blasa við í umhverfi fyrirtækisins. Hreinskilin sýn á veruleikann víkur fyrir sjálfsblekkingu.
  4. Fálmað eftir haldreipinu. Þegar komið er á fjórða stigið leita menn í ofboði eftir einhverri einni stórkostlegri lausn sem leitt getur þá út úr vandanum. Hún birtist gjarnan í áberandi og aðsópsmiklum leiðtoga, sem hrífur fólk með sér en beinir sjónum þess hins vegar lengra frá kjarna málsins. Þarna dalar aginn enn frekar sem og hinn náttúrulegi, innri vöxtur sem sprettur frá samfélaginu sjálfu .
  5. Uppgjöf. Fyrirtækið játar sig sigrað, leggur árar í bát, fórnar áhrifum sínum og verkefnum eða einfaldlega deyr. Nú verður ekki aftur snúið
Má finna fleiri hliðstæður? Greining þessi hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim og þykir mörgum sem þarna séu dregin fram sjúkdómseinkenni þeirra fyrirtækja sem sigldu svo rækilega í strand á síðustu árum.

Spyrja má hvort einnig þessi lýsing geti átt við á fleiri sviðum en í rekstri fyrirtækja. Þarna er því haldið fram, að hófsemin, auðmýktin og þjónustan séu ekki lengur leiðarljósið, heldur hrokinn, græðgin og skeytingarleysið um tilgang og eðli samfélagsins. Það er eftirtektarvert að fyrirtækin geta litið mjög vel út hið ytra jafnvel þótt þau séu komin á fyrstu þrjú stigin. Ef menningin leyfir ekki hreinskilna umræðu og gagnrýnið mat – ef gott heitir ekki gott og vont er vont þá er mikil hætta á ferðum. Eðlilegri sjálfsrýni er þá ekki beitt sem skyldi. Þarna líta ársskýrslur vel út enda á hreinskilin opin umræða ekki lengur upp á pallborðið.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að allt þar til komið er á fimmta stigið er tími til þess að snúa til betri vegar. Þjóðkirkjan? Sé litið til íslensku þjóðkirkjunnar má fullyrða að greiningarkerfi eins og þetta eigi þar fullt erindi. Af hverju? Jú, vegna þess að kirkjan færist hratt inn í tíma sem eiga meira sameiginlegt með aðstæðum á frjálsum markaði en því stöðuga umhverfi sem kirkjan hefur lengst af starfað í. Kröfur fólks fara vaxandi og ef þeim er ekki mætt, geta umskiptin orðið snögg til verri vegar. Með því að gæjast inn fyrir gátt viðskiptalífsins og skoða þann mikla sjóð þekkingar sem þar er að finna getur kirkjan undirbúið sig fyrir þær breytingar sem að margra mati eru óhjákvæmilegar.

Hvaða hugsanir vakna hjá okkur við lestur þessara fimm atriða? Á eitthvað af þessu sameiginlegt með þjóðkirkjunni? Horfir hún um of til stærðar sinnar og sögu, þegar hún metur möguleikana á að ná árangri? Fylgir hún skýrri stefnumótun eða er erfitt að greina hvert hún stefnir? Er kirkjulegt starf metið með hreinskilnum hætti þar sem hlutirnir eru nefndir sínum réttu nöfnum? Ber hollustan við misgóða leiðtoga innan kirkjunnar hinn náttúrulega vöxt ofurliði? Hversu vel er kirkjan búin undir afgerandi breytingar, t.d. á löggjöf sem kann að bylta þeim forsendum sem hún starfar eftir? Mikil tækifæri Menn kunna að svara þessum spurningum með ólíkum hætti eftir því hvernig þeir meta starfsemi kirkjunnar. Eitt er þó eftirtektarvert, og raunar mikið tækifæri fyrir kristna kirkju, að boðskapur sá sem hér er settur fram á margt sameiginlegt með boðun kirkjunnar. Hversu oft hafa prestar ekki predikað hófsemi, auðmýkt og þjónustu í gegnum tíðina? Er ekki veruleikinn sá að hátterni sem fellur að boðun Krists er í fullu samræmi við það sem er eðlilegt og um leið árangursríkt innan sköpunarverksins?

Þetta sagði leiðtogi kristinna manna á hinum fyrsta skírdegi:

Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.(Jh 14. 12-14)
Er þetta ekki árangursrík forysta sem byggir á auðmýkt og ríkulegri sýn fyrir hagsmunum heildarinnar?

Næsta haust verður hér á Íslandi sýnt frá stórri, alþjóðlegri og þverkirkjulegri leiðtogaráðstefnu á vegum Willow Creek Association fyrir leiðtoga í kristnum söfnuðum. Þar verður Jim Collins meðal meginfyrirlesara og fjallar hann um ofangreindar rannsóknir sínar. Allir þeir sem hafa brennandi áhuga á framtíð kristinna safnaða á Íslandi ættu að láta sjá sig.