Brosað með illvirkjum

Brosað með illvirkjum

Vorum við meðsek? Tókum við þátt í glæpaverkum? Sátum við brosandi, flissandi þegar illmennið trúði okkur fyrir svikaráðum sínum? Vorum við þegjandi sessunautar valdasjúks manns, sem átti engar hugsjónir, engar hugmyndir um réttlæti, frið, sanngirni, velferð, jafnrétti heldur aðeins óseðjandi hungur í að hafa stjórn, ráða yfir öllu og öllum og tróna efstur á valdastólnum?

Vorum við meðsek? Tókum við þátt í glæpaverkum? Sátum við brosandi, flissandi þegar illmennið trúði okkur fyrir svikaráðum sínum? Vorum við þegjandi sessunautar valdasjúks manns, sem átti engar hugsjónir, engar hugmyndir um réttlæti, frið, sanngirni, velferð, jafnrétti heldur aðeins óseðjandi hungur í að hafa stjórn, ráða yfir öllu og öllum og tróna efstur á valdastólnum?

Ríkharður þriðji

Og þarna sátum við í bakgrunninum. Hann laumaði til okkar upplýsingum, blikkaði okkur og glotti við tönn. Við bara brostum á móti. Leiðarljós hans gat þó vart verið skýrara. „Samviska er aðeins orð sem gungur nota, hugsað upp til að hemja sterkan vilja. Sá sterkasti ræður.“

Við Óli, 19 ára sonur minn, fórum sem sagt á Ríkharð þriðja, í Borgarleikhúsinu. Og síðustu orðin eru fengin úr þýðingu Kristjáns Hrafnssonar á texta Shakespears. Ég var á hans aldri þegar ég sá Helga frænda okkar Skúlason fara með hlutverkið á fjölum Þjóðleikhússins. Þá dáðist ég að eljunni í þessum frábæra leikara þar sem hann krypplaðist um sviðið, skakkur og grettinn í framan, maður þrauta og þjáningar. Það mátti vel skilja beiskju hans og ónot. Lífið hafði farið um hann óblíðum höndum og nú gerði hann það sama við féndur sína og auðvitað ættmenn líka. Fórnarlömbin eru alltaf hættulegustu skepnurnar á gresjunni.

Hjörtur Jóhann Jónsson fær annan efnivið og hann birtir okkur aðra mynd af þessari persónu. Hann er í raun glæsilegur á velli og þar sem kauði vatt sér úr treyjunni, rifjaði maður ósjálfrátt upp áramótaheitið að fara að taka betur á því í ræktinni. Þessi Ríkharður þriðji, sem er einmitt sá þriðji sem birtist á íslensku leiksviði, talar inn í tíðaranda okkar daga. Brynhildur Guðjónsdóttir leikstjóri birtir okkur mynd hins siðblinda manns sem rígheldur um alla stjórnartauma sem hann getur gripið í. Hann nagar og bítur allt sem gott er og í anda #metoo umræðunnar eru það konurnar í kringum hann sem bera stærstu sárin. Þær endurspegla eyðingarmáttinn sem þessum manni fylgir.

Leiksviðið sjálft sem er sviðin jörð. Þarna ber allt að sama brunni. Náttúran er ekki uppspretta lífs og yndis heldur ránsfengur. Svörður jarðar er svartur og lífvana. Fjúkandi rusl þvælist fyrir áhorfendum, límist jafnvel á svitabaðað andlit aðalpersónunnar. Og konur standa í kringum hann, niðurbrotnar og bugaðar, eins og þær birtast okkur fyrri hluta sýningarinnar.

Öllu er fórnað og þar er sannleikurinn engin undantekning. „Öll veröldin er leiksvið“ segir skáldið á öðrum stað. Já, var þetta ekki óður til samtíma okkar? Þar fær ekki allt staðist og fátt er eins og það sýnist. Ærandi kliðurinn heldur okkur frá því að vinna það verk sem af okkur er krafist, þess í stað sitjum við eins og steinrunnin og mögulega falli hlægjum að þeim sem fara með völdin í okkar samtíma. Við jafnvel gerum okkur sek um að laðast að heillandi heimi þessa agnarsmáa hluta mannkyns sem hefur sölsað undir sig mestu verðmætin. Nú mun helmingur auðsins vera í höndum eins prósents jarðarbúa og við dáumst að íburðinum.

Þessi Ríkharður er held ég miklu varasamari en sá sem Helgi frændi dró upp á sínum tíma. Ekkert er hættulegra en flagð undir fögru skinni. Flinkustu listamenn fyrri tíma drógu einmitt um slíka mynd af þeim vonda sjálfum að hann líktist helst filmstjörnu okkar daga. Þessi með hornin og halann á miklu erfiðara með að blekkja fólk og leiða afvega. Í kristnum helgisögnum ber hann líka þetta fallega heiti: Ljósberinn, Lúsífer.

Konurnar í kringum Ríkharð, táldregnar, narraðar, svívirtar og sviptar völdum, draga upp eina birtingarmynd valdsins sem hefur jú verið í umræðunni. Frásagnir af kynbundnu ofbeldi hafa komið fram í slíkum mæli að við hljótum að endurmeta sögu okkar og samtíma. Það er magnað að fara að fylgja atburðarrás sem á að eiga sér stað á miðöldum og skynja það smám saman að þarna er kastljósinu beint að okkar tímum með öllum sínum ósköpum.

Samtímaádeila

Fátt hefur samt viðlíka aðdráttarafl fyrir mannsálina og þessar dimmu hliðar sálarinnar. Við áhorfendur hrifumst með. Allan tímann á aðalpersónan í einhvers konar trúnaðarsambandi við okkur, blikkar þegar svik eru í undirbúin og gefur sterklega til kynna að allt sem aðrar persónur gætu túlkað sem meðlíðan, skilning og hluttekningu er það ekki. Ríkharður þessi er einn langur óður til hins siðblinda leiðtoga sem á sér ekkert að leiðarljósi nema völdin ein.

Þar stenst ekkert sem sagt er, kosningaloforð eru innantóm og hugsjónirnar engar. Eitt áhrifamesta atriðið er einmitt það þegar hann gerir sér upp trúarhita og einlægni og það er auðvitað allt í plati. Trúhneigðin var sama marki brennd og annað það sem persónan birti okkur og við leiðum hugann að því hversu oft illvirkjar hafa brugðið sér í hlutverk hins fróma og réttláta trúmanns.

Það sjáum við í mannkynssögunni og heilög ritningar geymir mörg varnaðarorð í þessu sambandi. Falsspámenn eru þar tíðum ræddir og í
lexíu dagsins sjónum beint að sjálfum leiðtoganum. Hér er hann er ekki valdsins maður, heldur þjónn. „Sjá þjón minn sem ég styð“ segir spámaðurinn fyrir hönd Drottins. Í raun eru þetta tveir valkostir í lífi hvers okkar – ásóknin í völd og löngunin til að þjóna. Þeir birtast í raun í hverju því samfélagi sem við erum hlut af og á þeim er að vonum mikill munur.

Völd eru takmörkuð og valdapíramídinn, sá sem við feðgar horfðum á konungsefnið klífa, þrengist eftir því sem ofar dregur. Sá sem olnbogar sig þangað, ýtir öðrum til hliðar með góðu eða illu. Því er öfugt farið þegar fólk á sér göfugan tilgang sem það vill þjóna. Þá fagnar hinn þjónandi leiðtogi hverjum þeim sem leggst á sveif og vill vinna að æðra marki.

Og hvert er það mark sem leiðtoginn stefnir að? Það er ekki að knésetja fólk og blekkja. Nei, hér er talað um tímalaus verðmæti – réttlæti og rétt. Háttarlag hans er einnig orðað hér – „Hann kallar ekki og hrópar ekki“. Hér er unnið með hófsemd og auðmýkt að leiðarljósi og nálgast fólkið með sama hætti: „Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki í sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki.“

Hann er umfaðmar fólk í veikleika sínum, gefur tækifæri og tíma. Loks er því lýst hversu seigur og úthaldsgóður þessi biblíulegi forystumaður er. „Hann þreytist ekki og efst eki upp uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans.“

Fólk sem hefur áhrif

Á þessum sunnudegi beinum við sjónum okkar að því fólki sem hefur áhrif. Í guðspjallinu er fjallað um einn nafntogaðasta einstakling hjálpræðissögunnar, Jóhannes skírara. Hann gegnir sérstakri stöðu innan kristinnar trúar og er í raun merkileg fyrirmynd þegar við hugum að þessum málum. Þar sem fólk spurði Jóhannes hvort hann væri sá frelsari sem fólkið beið eftir, svaraði hann alla tíð neitandi. Hann benti á Jesú og dró um leið fram mennsku sína og takmörk. Hann átti með öðrum orðum eitthvað dýpra og meira til að lifa fyrir en þá upphefð sem honum stóð til boða.

Mér finnst það alltaf jafn merkilegt hvernig kristnir menn tengdu þessa afstöðu Jóhannesar við sjálfan gang sólarinnar. Það er einmitt á jónsmessu – messunni sem við hann er kennd – sem sólin er hæst á lofti hér á norðurhveli. Sá himinbjarti dagur markar þó tímamótin þar sem sólin tekur smám saman að lækka á lofti.

Við getum sagt að hann sé upphafsdagur skammdegisins. Einmitt það ferli kemur heim og saman við orð Jóhannesar: „Hann á að vaxa en ég á að minnka.“ Kristsmessan, Christ-mass, er því einmitt hinum megin á sólarárinu, þegar birtan fer aftur vaxandi og sól hækkar að nýju á himni.

Hér talar hinn þjónandi leiðtogi sem er þó ekki að fórna neinu sem skiptir máli í sínu lífi. Nei það er þvert á móti hluti af okkar frumþörf og dýpstu gæðum að hafa áhrif, að vera hluti af einhverju sem er stærra og meira en við sjálf. Valdaásóknin skilur eftir sig sár á fólki og sár á foldu. Þjónustan skilar árangri, býr til samfélag og leiðir af sér blómstrandi umhverfi. Þessi voru boð spámannsins Jesaja og eftir þessu lifði Jóhannes þar sem hann stóð í ánni Jórdan, predikaði yfir fólki og skírði það.

Við Óli höfðum margt að ræða, að lokinni sýningunni í Borgarleikhúsinu. Við höfðum tíðum brosað með illvirkjanum en smám saman urðu fólskuverkin verri og blóðugri. Hvert er hlutverk þeirra sem sitja hjá þegar ofbeldisverk eru unnin og brotið er gegn varnarlausum? Hverjir eru valkostirnir þegar kemur að því að breyta heimi, bæta kjör og græða jörð? Hafa þær spurningar nokkurn tímann skipt jafnmiklu máli og nú?

Það er eins og þessir fornu textar svari þeim spurningum. Umhverfi spámannsins Jesaja var ekki frábrugðið leiksviðinu undir Ríkharði og fórnarlömbum hans. Fólkið var í útlegð í landi sigurvegaranna í Babýlóníu. Þau voru svívirt og hrakin og fósturjörðin var sviðin og fótum troðin. Þetta var tími fyrir endurmat og upp úr því spratt þessi tímalausi texti sem stendur eins og varnaðarorð gegn valdafíkn og áminningu um það hvernig góðir leiðtogar eiga að vera. Það sýnir vel sannleik þessara orða og gildi að enn í dag talar þau inn í hug okkar og aðstæður.

Um höfundinn