Hver er hann eiginlega, þessi karl?

Hver er hann eiginlega, þessi karl?

Þetta verkefni er okkur fengið eins og eldra fólki á öllum tímum og það er sannarlega full þörf fyrir huga okkar og hendur í þágu hinna ungu afkomenda okkar. Við þurfum að miðla reynslu arfinum til þeirra, ekki síst þeim trúarlega.
17. maí 2012
Flokkar

Ég gæti trúað að mörg okkar eigi þá reynslu að hafa litið í spegilinn  einhvern morguninn  og spyrja; hver er hann eiginlega þessi karl eða kerling sem þarna sést. Þessi spegilmynd rímar nefnilega ekki við þá mynd sem við eigum af okkur innra með okkur. Svo er okkur sagt með ýmsum hætti, beint og óbeint að við séum komin á áttræðisaldur eða níræðisaldur og við séum gömul  og það sé svo óttalega mikið basl með þetta  blessað gamla fólk. En það verði náttúrlega að gera eitthvað fyrir það!   En við vitum sjálf  manna best að þessi tímatalning  í mánuði og ár er bara verkfæri  sem menn hafa komið sér upp til þjónustu en á alls ekki að vera harðstjóri. Við erum nákvæmlega jafngömul og við hugsum. Það getur vel verið að fólk á áttræðisaldri hafi verið gamalt og útslitið fyrir um 50 árum. En við höfum  lifað við allt aðrar lífsaðstæður Við njótum yfirleitt miklu betri heilsu  og heilsugæslu en foreldrar okkar á okkar aldri, eigum margþættari reynslu, betri fjárhagsstöðu og meira sjálfstraust.   Goðsögnin um aumingja gamalmennin, sem eiga svo bágt, á vissulega við nokkur okkar  en allur þorrinn nýtur lífsins  og býr við góðar aðstæður. Fólk á nú reyndar bágt á öllum aldri. Í umræðunni er of mikið litið á vangetu okkar eldra fólks. Vissulega höfum við slitnað eftir langan vinnudag en á móti kemur að við höfum aflað okkur mikilvægs farangurs, við eigum reynsluna, yfirsýnina sem skapar betri dómgreind, þolinmæðin  og skilningur á öðru fólki hefur vaxið , það sést best á því hversu innflytjendur sækjast eftir að vinna með eldra fólki. Og yfirleitt erum við ljúfari í lund, er það ekki, fólk mildast  með árunum og  þessvegna  erum við kannske betri samverkamenn en áður. Við þurfum sannarlega ekki að biðjast afsökunar á tilveru okkar. Við erum mikill fengur fyrir samfélagið, sérstaklega ef það bæri gæfu til að nýta betur krafta okkar, þekkingu  og hæfni. Það eru líka ófáar vinnustundirnar sem við leggjum fram á heimilum barna okkar þegar veikindi eða annar vandi steðja að. Án okkar gætu varla báðir  foreldrar  unnið svo langan dag.

Ég hef setið um árabil í Öldrunarráði Íslands og  átt aðild að könnunum um aðstæður eldra fólks. Nýverið kom könnun sem gerð var  meðal Reykvíkinga 67 ára og eldri  Þar kemur í ljós að 80% þeirra eru ánægð eða mjög ánægð með líf sitt, hafa ekki fjárhagsáhyggjur og njóta góðrar  eða bærilegrar heilsu. En 20% hefur  einhverjar áhyggjur af fjárhag og heilsu sinni þar af eru 5% sem býr við slæma heilsu og 4.8% sem hefur oft  fjárhagsáhyggju er í rauninni fátækt fólk. Félagsfræðingurinn sem kynnti niðurstöðurnar sagði reyndar að ef úrtakið hefði verið fertugt fólk hefðu  útkoman verið svipuð. Það er ákveðinn hópur fólks,  kringum 5% hvers árgangs sem á í erfiðleikum með líf sitt alla ævi vegna veikinda, óreglu eða annars, og því fólki þarf að veita fullan og góðan stuðning á hvaða aldri sem það er. En allur þorri fólks, eins og sjálfsagt flest okkar hér, nýtur þessa æviskeiðs, ellinnar, rétt eins og  við nutum fyrri hluta ævi okkar.     Mér virðist að einn meginvandi okkar eldri borgara  hérlendis, eins og reyndar flestra minnihluta hópa, sé fyrst og fremst forræðishyggjan í margvíslegri og oft dulinni mynd. Það hafa verið settir upp margskonar rammar og við höfum ekki það sama val í lífinu nú einsog við höfðum áður. Það er verið að leyfa okkur eitt og annað, t.d. lög nýsamþykkt á Alþingi sem leyfa okkur að vinna eftir sjötugs og fá fullt kaup. Svo er annað sem okkur er ekki leyft. En hver hefur gefið yngra fólki umboð til að ráðskast með okkur, heilbrigðar og viti bornar, já vel þroskaðar manneskjur!   Þessari goðsögn um eymingjaskap þeirra eldri er viðhaldið af fjölmiðlum. Ef málefni okkar  ber á góma í sjónvarpi, er oftast sýndur karlræfill á flókaskóm sem haltrar eftir spítalagangi í leit að snyrtingunni, höktandi og brjóstumkennanlegur. Velflest okkar eru ekki þannig. Þessi ímynd hefur áhrif að yngri kynslóðinnni  óar við því að verða gamall og þessi ímynd mótar líka framkomu þeirra við okkur. Og það sem verra er, þetta neikvæða viðmót samfélagsins skapar gjarnan hjá okkur sjálfum neikvæða sjálfsmynd. Við förum að halda að við séum byrði og líf okkar sé búið að vera. Meðan samfélagið lítur okkur þessum augum, getum við ekki notið okkar og lífsgæðin minnka Þetta þurfum við að ræða og fá þessu breytt   Fjölmiðlarnir eiga að spegla samfélagið, við eftirlaunafólkið erum  nær 15% samfélagsins en við erum næstum ósýnileg í umræðuþáttum sjónvarps. Hve margir álitsgjafar í Kastljósi eru gráhærðir. ( Guði sé þó lof fyrir forsætisráðherrann og Boga Ágústsson!)  Þetta er í rauninni enn hróplegra því að vegna reynslu okkar og yfirsýnar  höfum við betri aðstæður til að mynda okkur yfirvegaða og skynsamlega skoðun heldur en margt af þessu unga fólki sem hefur ekki enn frétt af þjóðarsáttinni um árið svo að tekið sé dæmi.   Kannske er meginmálið að aldraðir njóta ekki  lengur eðlilegrar virðingar í samfélaginu og við verðum að breyta því. Það er öllum fyrir bestu í þjóðfélaginu. Þetta getum við lært af Afríkubúum. Þar eru gráar hærur forsenda fyrir djúpstæðri virðingu. Við þurfum að vera sýnileg, láta  heyra í okkur og til okkar taka , miðla af reynsluarfi okkar , sem er lífsspursmál fyrir þau sem nú eru að vaxa upp. Við þau eldri getum best gefið þeim rótfestu  og yfirsýn yfir lífið.   Og nú er ég kominn að megin efninu. Miðlun reynsluarfsins.  Það eru þrír megin hópar samfélagsins. Unga fólkið: Þau sem eru að vaxa upp, undirbúa sig fyrir lífsbáráttuna, Foreldrakynslóðin: þeir sem  vinna fyrir börnunum, ala þau upp og byggja upp þjóðfélagið, Eldra fólkið; þau sem miðla reynslu arfinum til þeirra ungu, viðhorfum, siðum, menningu,  skapa með þeim traust og öryggi í viðsjálum heimi með því að  móta trú þeirra og kenna þeim um kærleika Guðs sem birtist í bróðurnum besta Jesú Kristi.   Þau eru mörg skáldin sem hafa skrifað um þátt afa og ömmu, kannske ekki síst ömmunnar í uppvextinum og í mótun lífsviðhorfanna og  heiðarleika persónuleikans. Ég ætla ekki að fjölyrða um það, þið þekkið það af eigin reynslu  En mig langar sérstaklega að vitna í gamlan sægarp, Sigurð í Görðunum sem var fæddur 1865 og dó 1956.  Hann skrifaði bók sem kom út árið 1952 , - þá var hann 87 ára.  Þar er fögur minning hans um móðurömmu sína  en honum sem gömlum manni hlýnaði enn um hjartarætur er hann hugsaði til hennar. Hún skapaði honum öryggiskennd með nærveru sinni. Bænir ömmu og versin sem hún kenndi honum fylgdu honum alla ævi. Hann fann aldrei til ótta eða kvíða sem barn vegna þess að hann trúði á vernd Guðs og síðan segir hann orðrétt:

Nú finnst mér  að ég verði var við svo mikinn ótta hjá börnum og unglingum, jafnvel litlum börnum og ég er hræddur um að það slíti taugakerfi þeirra. Er ekki ástæðan sú að þau fá ekki að njóta öryggis Guðstrúarinnar. Og stafar það ekki einmitt af því að foreldrarnir hafa látið undie höfuð leggjast að kenna þeim að lesa morgunbænir? Börnin eru drifin á fætur í skyndi og rekin út, stundum jafnvel í ergelsi og í flýti, þeim er varpað út í hvern nýjan dag öryggislausum með ótta í sálinni.  
Afarnir höfðu líka mikið hlutverk. Það get ég sannarlega borið um. Sjö ára gamall var ég  hjá afa mínum bónda í afskekktum vestfirskum dal í sumardvöl Það sumar dó einkasonur hans 25 ára gamall og til að vinna með sorgina fékk  hann að hafa mig hjá sér næsta árið.Ég fylgdi afa mínum  þennan vetur, hann kenndi mér  fjármörkin, að róa, að  slá í þýfi , hann kenndi mér þau gildi sem hann lifði eftir, æðruleysið, nægjusemin, að standa við orð sín, sýna öllum virðingu, vera heiðarlegur og sögurnar sem hann sagði mér í fjárhúsunum settu líf mitt inn í eðlilegt samhengi Íslandssögunnar. En eftirminnilegast var þó þegar við hófum daginn á dyrahellunni. Þá tók hann ofan og mér varð alltaf jafn starsýnt á hvíta ennið hans yfir veðruðu  andlitinu – Það var djúp þögn í morgunkyrrðinni, við signdum okkur  afi tók hönd mína í sína hlýju hönd og við báðum: Nú er ég klæddur og kominn á ról. Kristur Jesús veri mitt skjól. Í Guðsóttanum gef þú mér að ganga í dag svo líki þér.... og gengum síðan mót önnum dagsins, öruggum skrefum.   En nú eru komnir nýir tímar, nýr lífsstíll hefur rutt sér til rúms. Ömmurnar og afarnir  eru kannske langdvölum á Kanaríeyjum og ekki alltaf tiltæk, börnin hafa stíft program  í skólanum og í íþróttum og annarrri tómstundaiðju. Kannske er meginmálið að aldraðir njóta ekki  lengur eðlilegrar virðingar í samfélaginu og við verðum að breyta því. Það er öllum fyrir bestu í þjóðfélaginu. Þetta getum við lært af Afríkubúum. Þar eru gráar hærur forsenda fyrir djúpstæðri virðingu. Textar þessa dags, uppstigningardagsins, benda okkur  rækilega á þetta  lífshlutverk . Þeir eru allir í lokaköflum guðspjallanna og það er í samræmi við okkur sem erum á lokaköflum lífs okkar! Textarnir segja frá því að hinn upprisni Kristur hafði birst lærisveinunum ítrekað eftir upprisu sína. Hann kenndi þeim  og lauk upp huga þeirra svo að þeir skildu ritningarnar. Og svo, þegar tíminn var kominn, fór hann  með þá afsíðis, blessaði þá, kvaddi þá  og síðan hvarf hann , varð uppnuminn til himna. Uppstiginn. Ætlunarverki hans  á jörðu hér var lokið, það var undirstrikað með þessum dramatíska hætti.  Að halda áfram verkefni hans var þar með fengið í hendur lærisveinanna á öllum öldum, okkar. Og þeir fóru , kenndu og kristnuðu. Hann hafði veitt þeim svo stórkostlegt verkfæri, bænina. Ef þér biðjið einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það, sagði Drottinn. Og  þeir voru ekki einir, hann gaf loforðið um kraftinn frá hæðum , huggarann, hinn heilaga anda sem myndi vera með þeim í öllum verkum þeirra. Á hvítasunnunni var þeim gefinn heilagur andi, sem starfar í kirkjunni. Og fyrirheiti Drottins varir: Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.   Já, þetta verkefni er okkur fengið eins og eldra fólki á öllum tímum og það er sannarlega full þörf  fyrir huga okkar og hendur  í þágu hinna ungu afkomenda okkar. Við þurfum að miðla reynslu arfinum til þeirra, ekki síst þeim trúarlega. Kenna þeim að fela sig góðum Guði,  biðja  hann og þakka honum og læra að lifa með hann fyrir augum. Kenna þeim að þiggja leiðsögn heilags anda, skapa með þeim traustið og trúna sem grundvöll fyrir líf þeirra. Segja þeim sögur úr okkar æsku svo að þau geti skynjað stærð og margbreytileika lífsins, hvernig þau geta lært af okkar reynslu með því að draga eigin ályktanir. Kenna þeim litlu versin sem hafa lýst upp myrkrið og skapað öryggi,  kynslóð eftir kynslóð: Láttu nú ljósið þitt... Vertu nú yfir og allt um kring. Svo ég tali ekki um Faðirvorið og þá þarf að benda þeim á að við biðjum  þá bæn með Kristi, hann kenndi okkur þá bæn til að biðja með sér.   En það er líka annar vettvangur til að miðla reynsluarfinum og það er eldra fólks i millum.   Nú er það svo að það er eitt sem er öruggt  er við fæðumst, það að við munum deyja. Svo einfalt er það. Dauðinn gerir oftast ekki boð á undan sér, við eigum í rauninni aðeins augnablikið sem við lifum  hverju sinni. En það er auðvitað augljóst að við sem erum komin fram á lokaskeið lífsins erum líklegri en þeir yngri  til að kveðja, deyja. Þessi staðreynd hefur  samt verið allt að því feimnismál og fólk hefur forðast  þá umræðu, hvernig sem á því stendur. Hér getum við verið hvert öðru til stuðnings með því að ræða saman um dauðann, um viðhorf okkar til hans, kvíða okkar eða tilhlökkun, ræða hinn kristna boðskap gagnvart dauðanum, setja orð á tilfinningar okkar.   Við þurfum líka að ganga frá okkar persónulegu málum, sættast við þá sem við eigum í erfiðleikum með, gera upp óljósa og erfiða hluti, segja ástvinum okkar frá því ítrekað hvað þau séu okkur dýrmæt.   Og við þurfum líka að nálgast Guð betur, ljá honum eyra, efla bænalíf okkar , þiggja náð hans og blessun svo að við getum séð dauðann í sínu rétta samhengi, fengið hvíldina  hjá  Guði þar sem dauðinn mun ekki framar til vera  hvorki harmur né kvein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.

Ég er með yður alla daga allt til enda veraldarinnar, sagði Drottinn. Hann sér þig ævinlega, þú ert hans, Ég þekki þig með nafni segir Drottinn, þú ert minn. Með það í huga skulum við halda út í bjartan vordaginn, reyndar alla daga sem okkur eru gefnir, Því að hver dagur er gjöf, gjöf frá Guði sem  við þurfum að fara afar vel með. Amen.

Textar: Mk.16.14-20 Lk. 24, 44-53 Jóh. 14, 12-14