Nú eru nýliðnir í dásemd og dýrðarveðri Hinsegin dagar í Reykjavík. Hátíðin var að venju fjölbreytt og fjölþætt og áhersla lögð á að lyfta upp veruleika og reynsluheimi samkynhneigðra. Eftir því sem árin líða hafa dagarnir orðið að fjölskylduhátíð. Hápunktur þeirra, gleðigangan, einkennst af mikilli þátttöku fólks á öllum aldri sem fagnar fjölbreytileikanum og gleðinni sem samkynhneigðir færa samfélaginu.
Söngdívan og mannréttindafrömuðurinn Páll Óskar gerði þessa breiðu skírskotun Hinsegin daga að umtalsefni í viðtali við fréttastofu RUV um helgina. Þar sagði hann að Hinsegin dagar væru löngu vaxnir upp úr því að snúast bara um mannréttindabaráttu samkynhneigðra:
„Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarks mannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu - inni á internetinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa.“
Ummæli Páls Óskars hittu í mark og vöktu mikla athygli vegna þess að hann setur fingurinn á mein í samfélaginu okkar sem setur of mikið mark sitt á opinbera umræðu. Grímuklædd og grímulaus óvild og níð um einstaklinga og hópa fer ekki fram hjá neinum sem fylgist með umræðunni og þau sem blanda sér í samtalið um samfélagið eiga oft á hættu að verða fyrir því sem Páll Óskar lýsir.
Í kjölfar voðaverka Anders Breiviks í Noregi í síðasta mánuði verður brýning Páls Óskars um að láta ekki blint hatur og óvild taka yfir í samskiptum enn mikilvægari. Þetta á við um netsamskipti sem allar aðrar tegundir af opinberri umræðu. Daður við fordóma á ekki heima í opnu og lýðræðislegu samfélagi.
Þess vegna klikkti Páll Óskar út með þessari góðu niðurstöðu: "Við megum ekki sofna á verðinum."
Út með fordómana!
Ps. Einnig vakti það sem Páll Óskar sagði um hvíta, hægri sinnaða, straight karlmenn í jakkafötum sem eru stundum með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni mikla athygli. Margir stöldruðu við það hvort þessi ummæli afhjúpuðu fordóma gagnvart þeim hópi sem þarna er lýst.
Dæmið sem Páll Óskar tekur þjónar þeim tilgangi að skilgreina hóp sem er "normal" þ.e.a.s. ekki einhver tiltekinn minnihlutahópur. En það inniheldur líka skarpa krítík á það þegar ákveðin gerð kristindóms er notuð til að berja á þeim sem eru öðruvísi í samfélaginu.
Gerir Páll Óskar sig sekan um fordóma með ummælum sínum um hvíta, hægri sinnaða, gagnkynhneigða karlmenn? Hvað segir hann nákvæmlega? Annars vegar bendir hann á að þessir karlar séu í góðri stöðu í samfélaginu. Eru það fordómar? Hins vegar gagnrýnir hann herskáa bókstafstrúarmenn sem nota Biblíuna til að berja á minnihlutahópum.