Presta- og djáknastefna haldin í Stykkishólmi

Presta- og djáknastefna haldin í Stykkishólmi

Setningarræða
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
16. apríl 2024

Presta- og djáknastefna haldin í Stykkishólmi 16.-18. apríl 2024.

Setningarræða

Vígslubiskupar, prestar, djáknar, organisti og aðrir viðstaddir.  Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin á síðustu presta- og djáknastefnuna sem ég boða til og er haldin hér í Stykkishólmi.  Ég flyt kveðju Guðrúnar Hafsteinsdóttir ráðherra sem ætlaði að vera með okkur hér í dag en skyldan kallaði annars staðar.

ÞAKKIR

Ég þakka ykkur sem undirbúið hafið þessa stefnu með mér og tókuð þátt í messunni hér í upphafi með einum eða öðrum hætti.  Ég þakka einnig sóknarpresti og organista fyrir þeirra þátt.  Sérstaklega vil ég þakka starfsfólki biskupsstofu fyrir þeirra vinnu alla og þá vinsemd sem þau sýna mér með því að vera með okkur hér í dag.  Starfsfólk þjónustumiðstöðvar kirkjunnar eins og biskupsstofa og rekstrarstofa heita einu nafni er frábært fólk, duglegt og faglegt en starfsfólki hefur fækkað mjög en verkefnunum ekki.  Þó nokkur dæmi eru um að starfsfólk hefji störf upp úr klukkan sex á morgnana og ljúki þeim ekki fyrr en á miðnætti.  Á þjónustumiðstöðinni eru tímarnir ekki taldir ef verkefnin bíða.  Einnig vil ég þakka sérstaklega handbókarnefndinni sem hefur unnið hörðum höndum síðast liðin ár við gerð nýrrar handbókar og ykkur sem hafið lagt henni lið á síðast liðnum presta- og djáknastefnum með því að koma með gagnlegar ábendinar sem nefndin hefur tekið tillit til á milli synoda.  Áfram höldum við þeirri góðu vinnu áfram á morgun.  Það sem handbókarnefnd leggur fram hér á stefnunni er allt að finna inn á vef stefnunnar á naustinu.  Upphafsmessan, morgunbænir og kvöldbæn sem og formið við slit synodunnar er frá handbókarnefndinni.  Nefnin kynnir því vinnu sína hér bæði í fræðum og framkvæmd.  Á heimasíðu kirkjunnar, innri vef, Naustinu er efni frá handbókarnefndinni sem sett var þar inn um daginn og prestar og djáknar upplýst um í bréfi. 

Ég þakka ykkur sem starfið í söfnuðum landsins fyrir frábæra þjónustu sem og ykkur sem sinnið sérþjónustunni hvort sem þið eruð í vinnuréttarsambandi við þjóðkirkjuna eða ekki.  Það er oft hringt á Biskupsstofu eða sendur próstur til að þakka fyrir störf ykkar og þjónustu og er það gleðiefni.  Það sýndi sig þegar Grindvíkingar þurftu að yfirgefa heimili sín í nóvember að það var kirkjan sem opnaði fyrst hús sín fyrir þeim.  Kirkjan hefur alla innviði til að kalla fólk saman með engum fyrirvara og það gera margir sér grein fyrir.  Þáverandi forsætisráðherra hafði sérstakt orð á því að svo væri og var gott að heyra það frá einum fremsta forystumanni þjóðarinnar.  Sérstaklega vil ég þakka sr. Elínborgu Gísladóttur sóknarpresti í Grindavík og samstarfsprestum hennar á Suðurnesjum sem og héraðspresti og prófasti í Kjalarnessprófastsdæmi fyrir þeirra framlag til þjónustunnar við Grindvíkinga.  Samvera fermingarbarna úr Grindavík rataði í fréttirnar eins og við munum en ekki hef ég séð minnst á samveru 9. og 10. bekkjar í Grindavík sem boðið var upp á. Svo má líka nefna að síðasta orlofsvikan á Löngumýri í sumar er frátekin fyrir fólk úr Grindavík.  

ÞJÓÐKIRKJAN

Er þörf á þjóðkirkju á Íslandi?  Ég svara því játandi.  Þjóðkirkjan hefur mikið hlutverk í þjónustu við þjóðina.  Kirkjan og þjóðin eiga samleið hér eftir sem hingað til.  Þjóðkirkjan hefur enn þéttriðið net um landið þó prestum hafi fækkað frá fyrri tíð.  Það er búið að brúa ár, bora í gegnum fjöll og bæta vegi til fjalla.  En auðvitað breytist landið ekki og það er enn illfært á milli staða í verstu veðrum og mestri ófærð og því verður ekki breytt. 

Biskupafundur lagði fram tillögur um sameiningu prestakalla árið 2018.  Þá var lagt upp með að engin breyting yrði á fjölda presta í söfnuðum landsins.  Síðan þá hefur Þjóðkirkjan og Ríkið skrifað undir viðbótarsamkomulag við samkomulagið sem gert var árið 1997 og í framhaldi komu ný þjóðkirkjulög árið 2021.  Þá varð breyting á skipulagi kirkjunnar eins og kunnugt er og krafa æðstu valdastofnunar kirkjunnar, kirkjuþingið fór fram á fækkun embætta sem nú heita störf.  Ég árétta að sameiningarnar voru í upphafi aldrei hugsaðar til þess að fækka prestum heldur til að bæta líðan presta og þjónustu þjóðkirkjunnar um landið allt.  Enda er þjóðkirkjan eina trúfélagið sem hefur sér lög og þar fer ríkisvaldið fram á skv. 3. grein laganna:  „Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.“  Stundum þarf að bregðast hratt við til að efna þessa lagagrein, en í annan tíma er ráðrúm til að auglýsa stöður. 

HÍB

Allt frá árið 1815 þegar Geir Vídalín var biskup Íslands hefur það fylgt embætti biskups að vera forseti hins íslenska Biblíufélags.  Undanfarin ár hefur verið unnið að því að lesa texta Biblíunnar inn svo hægt sé að hlusta á Orð hinnar helgu bókar en ekki bara lesa þau.  Ég vil þakka samstarfsfólki mínu í stjórninni fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins sem hefur það að markmiði að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar.  Nýjar útgáfur hafa litið dagsins ljós á síðasta starfsári, þar á meðal Altarisbiblía með stóru letri sem ég hvet kirkjur landsins til að eignast.  Félagar og stuðningsaðilar Biblíufélagsins eru á tólfta undraðið.

HJÁLPARSTARFIÐ

Hjálparstarf kirkjunnar var stofnað árið 1970 og hét þá Hjálparstofnun þjóðkirkjunnar.  Það var kirkjuráð sem ákvað að stofna Hjáoparstofnun kirkjunnar.  „Tildrögin voru þau að þjóðkirkjan hafði árið áður tekið þátt í landssöfnuninni „Herferð gegn hungri“ sem var hrundið af stað til styrktar sveltandi fólki í Biafrahéraði í Nígeríu.  Í kjölfarið hvöttu presta landsins kirkjuna til að koma á legg hjálparstofnun er sinnti hjálparstarfi og líknarmálum á vegum hennar.  Þeir ákváðu jafnfram að leggja 1% af launum sínum til hjálparstarfsins.“  Um þetta má lesa á vef Hjálparstarfsins á alnetinu.  Þegar þetta var voru mörg ykkar ekki einu sinni fædd og þess vegna minni ég á þessu fyrstu spor hjálparstarfsins um leið og ég hvet presta og djákna til að leggja Hjálparstarfinu lið eftir því sem efni og ástæður leyfa.

EFNI SYNODUS

Á þessari presta- og djáknastefnu er efnið Kirkjan og handbókin.  Áfram skal haldið með vinnu við handbókina.  Stefnt er að því að ný handbók komi út eftir 2 ár.  Þetta er mikil vinna og mörg álitamálin.  Eins þarf að ákveða hvað fer í bók og hvað ekki.  Hvort efnið sem ekki fer í bók verður á Vefnum og fleira mætti telja. 

Eins og dagskráin ber með sér eru mörg mál sem þjóðkirkjan sinnir og verða kynnt.  Við fáum fyrirlestur frá Danmörku frá Pétri Lodberg sem er danskur guðfræðingur, rithöfundur og fyrirlesari.  Erindi hans fjallar um Lúterska kirkju sem er á mörkum einstaklingshyggjunnar, þjóðfélagsins, ríkisvaldsins og markaðarins.  Hann álítur nútíma samfélag skipulagt út frá mismunandi víddum sem eru einstaklingshyggja, borgaralegt samfélag, ríkið og almenna markaðurinn.  Hver vídd starfar eftir sínum reglum og hann spyr hvað það merki fyrir Lúterska kirkju í fjölvíddar samfélagi nútímans?

ÁRTÍÐ HALLGRÍMS

Í ár eru liðin 350 ár frá andláti sr. Hallgríms Péturssonar.  Nokkrir staðir á landinu eru tengdari sögu hans og lífi en aðrir.  Þar verður hans sérstaklega minnst en ég hvet ykkur til að minnast hans í kringum dánardaginn 27. október  næstkomandi.  Síðar á þessu ári kemur út ævisaga hans, skrifuð af doktor séra Torfa Stefánssyni Hjaltalín.  Þar mun kom fram ýmis fróðleikur sem ekki hefur verið sérstaklega haldið á lofti hingað til.  Í Saurbæ þar sem sr. Hallgrímur þjónaði og lést verður hans sérstaklega minnst og þar verða verkin látin tala. 

VÍSITASÍUR

Samkvæmt starfsreglum kirkjuþings skulu prófastar, vígslubiskupar og biskup Íslands vísitera söfnuði landsins reglulega.  Prófastar á þriggja ára fresti, vígslubiskupar á fimm ára fresti og biskup Íslands á tíu ára fresti.   Fyrir um áratug var ákveðið á biskupafundi að skipta verkum í samræmi við þjóðkirkjulögin, starfsreglur kirkjuþings og erindisbréf biskups frá 1746 sem þá var enn í gildi.  Ef til vill er kominn tími til að endurskoða þetta fyrirkomulag með vísitasíurnar því margt hefur breyst á undanförnum árum.  Tíminn leiðir það í ljós hvort af því verður.

 

Á næstu vikum lýk ég vísitasíum en ég á eftir tvö og hálft prestakall á Vestfjörðum.  Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur sem hafið tekið á móti mér fyrir góðar móttökur og trúa þjónustu.  Það er mér afar mikilvægt að klára landsvísitasíuna enda eru vísitasíur eitt af  megin hlutverkum biskups Ísands.  Á vísitasíum hitt ég hina eiginlegu kirkju eins og ég orða það, hina lifandi steina sem kirkjuna byggja, elska hana, þjóna henni og leiða hana.      

 

GUÐFRÆÐI- OG TRÚARBRAGÐAFRÆÐIDEILD

 

Samkomulag var gert við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskólans fyrir nokkrum árum um menntun presta.  Deildin sér um kennslu þeirra námsgreina sem kirkjan krefst að nemar hafi farið í gegnum þegar þeir vígjast.  Kirkjan sér aftur á móti um ákveðna þætti sem nefnast einu nafni starfsþjálfun.  Þegar prófum hefur verið náð í deildinni og starfsþjálfun kirkjunnar lýkur hefur fólk öðlast embættisgengi.  Nú stendur yfir endurskoðun á starfsþjálfun prestsefna og djáknaefna og vinnur nefnd á vegum biskups að þeirri endurskoðun. 

 

Sú var tíð að guðfræðingar og prestar fóru til annarra landa að þjóna, flestir til Noregs því engar stöður voru lausar hér á landi.  Nú bregður svo við að stefnir í skort á prestum hér á landi.  Fáir eða engir sækja um stöður utan höfuðborgarsvæðisins og er það umhugsunarefni hvernig bregðast má við til að uppfylla þær skyldur sem þjóðkirkjan hefur varðandi þjónustu um land allt. 

 

 

UNGA FÓLKIР

Í stefnumótunarvinnu sem fram fór á vegum kirkjuþings fyrir tveimur árum komu fram skýr sýn á það að efla þyrfti æskulýðsstarf í þjóðkirkjunni.  Málið var tekið upp á kirkjuþingi og eftir umræður og frekari vinnu var samþykkt að ráða æskulýðsfulltrúa í hvern landshluta.  Nú þegar hafa verið ráðnir tveir fulltrúar, Berglind Hönnudóttir fyrir Austurland og Suðurland og Anna Elísabet Gestsdóttir fyrir Reykjavík og Kjalarnes.  Áfram starfar Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar með starfsmann í hálfu starfi.  Æskulýðssambandið var stofnað fyrir mörgum árum og hefur verið sjálfstætt starfandi ef svo má að orði komast.  Var það meðal annars gert til að hægt væri að sækja styrki til starfsins bæði innanlands og utan. 

Nú hefur sú breyting orðið á skipulagi þjóðkirkjunnar að tengsl kirkju og ríkis hafa verið rofin enn frekar en áður og eru engir embættismenn lengur starfandi á hennar vegum heldur starfsfólk með ráðningarsamning eins og gerist á almennum markaði.  Þetta þýðir meðal annars það að þjóðkirkjan er orðin eins og hver önnur félagasamtök sem getur sótt um styrki og þegið gjafir.   Mín skoðun er sú að það eigi að ræða þann möguleika hvort nauðsynlegt er að halda úti æskulýðssambandi þjóðkirkjunnar þegar kirkjuþing hefur ákveðið þá skipan sem nú er að komast á í æskulýðsmálum þjóðkirkjunnar. 

 

RÁÐNINGAR OG BREYTINGAR

Í messunni áðan voru lesin upp nöfn þeirra sem vígðust, fengu lausn frá embætti, eða létust á synodusárinu, bæði prestar og makar. 

Töluverðar breytingar urðu þegar prestar færðu sig til eða komu nýir inn.  Mér telst til að um 20 prestar hafi verið í þeim sporum og einn djákni.  Einnig voru ráðnir svæðisstjórar æskulýðsmála sem sinna annars vegar Austurlandi og Suðurlandi og hins vegar þremur prófastsdæmum á suðvesturhorninu.  Einnig var ráðin nýr söngmálastjóri, Guðný Einarsdóttir þegar Margrét Bóasdóttir lét af því starfi.  Nú er söngmálastjóri einnig skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar eins og var fyrr um áratugi.   

Ég vil einnig nota tækifærið og þakka ykkur sem réttuð upp hönd eins og Gunnar Smári á Samstöðinni orðaði það þegar ljóst var að efnt yrði til biskupskosninga á árinu.  Það getur verið erfið ákvörðun að taka enda geri ég ráð fyrir því að þið hafið fundið til köllunar sem þið hafið viljað svara.   

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með kynningarfundum biskupsefna um landið og heyra spurningar þeirra sem mætt eru.  Á biskupsstofu hefur töluverð vinna farið fram vegna þessa kjörs og í mörg horn að líta.  Hermann okkar hefur haldið vel og faglega utan um verkefnið sem að honum snýr en Adavanía séð um tæknilega hlið tilnefninga og kosningar eins og kunnugt er. 

 

TÍMAMÓT

Þjóðkirkjan er á tímamótum.  Á kirkjuþingi í síðasta mánuði var samþykkt nýtt skipurit fyrir þjóðkirkjuna og kosin stjórn þjóðkirkjunnar.  Ég bið þess að þessar ákvarðanir sem kirkjuþingið tók verði Guðs kristni í landinu til blessunar. 

Sjálf er ég á tímamótum.  Þetta er síðasta presta- og djáknastefnan sem ég boða til og ljóst að sá eða sú sem tekur við keflinu af mér mun leiða kirkju sem hefur tekið breytingum hvað skipulag varðar og biskupsþjónustuna varðar.  Nú er tími umbóta að renna sitt skeið og aðrar áherslur taka við með nýjum biskupi.

Eins og kunnugt er var ég fyrstan konan til að gegna embætti biskups Íslands. Það markaði nýjan kafla í jafnréttismálum kirkjunnar, kafla sem ég er stolt af.

Á þessum árum hefur orðið frekari aðskilnaður ríkis og kirkju sem eru einar mestu breytingar á umhverfi þjóðkirkjunnar í seinni tíma. Á sögulegum grunni, með einstakt erindi er vegur sjálfstæðrar þjóðkirkju bjartur.

Árið 2012 sat þjóðkirkjan uppi með svarta pétur þegar ofbeldismál voru rædd. Þjóðkirkjan hafði ekki trúnað þjóðarinnar til að taka á þessum málum innan kirkjunnar. Þetta er staðreynd. Með samhentu átaki höfum gert átak til þess að tryggja að kirkjan sé öruggur vettvangur til að starfa á, á þolendur sé hlustað og meðferð þessara mála er bæði fagleg og ákveðin.

Þjóðkirkjan hefur öðlast rödd þegar kemur að mannréttindum og baráttu fyrir þeim – samanber umræðuna um hælis og flóttafólk – eða sameiginlega yfirlýsingu mannnréttindavettvangsins um hörmulegt ástand mála í Úkraínu eða í Palestínu. Það er mikilvægt að þjóðkirkjan taki sér stöðu með mannréttindum, í samfylgd með Rauða krossinum og öðrum hjálpar og mannréttindasamtökum.

Öflug Græn kirkja hefur vaxið þennan tíma og þáttaka þjóðkirkjunnar á vettvangi Arctic Circle, er vísir að þjóðkirkju sem ætlar að takast á við áhersluverkefni framtíðarinnar.

Stoltust er ég af stofnun Skjólsins og starfsemi þess í dag.  Þar vinna frábærar konur undir hatti Hjálparstarfs kirkjunnar en stofnun Skjóls var að mínu frumkvæði.  Þar sýnir kirkjan okkar í verki hvernig við eigum að hlúa að þeim sem höllum fæti standa í lífinu og þjóna náunga okkar.

Að klára landsvísitasíu biskups Íslands núna í vor er mér afar mikilvægt þar sem eitt af megin hlutverkum biskups Ísands er að sækja þjóðina heima þar hún lifir og starfar – landið í kringum. Það hefur ekki alltaf náðst að vísitera landið allt – en í þessari biskupstíð verður allt landið heimsótt, sem er mér gleðilegt og þjóðkirkjunni mikilvægt.      

Eitt er víst.  Jesús Kristur er hinn sami í gær og í dag og um framtíð alla.  Hann er kletturinn sem bifast ei, sá trausti grunnur sem kirkjan stendur á og sá trausti grunnur sem líf okkar byggist á.  Hann er leiðtogi kirkjunnar og verður alltaf.  Við mennirnir erum hendur hans hér í heimi sem flytjum fagnaðarerindi hans samferðafólki okkar.  Megi það vera honum til dýrðar og okkur og landsmönnum öllum til blessunar.

Bræður og systur.  Megi vinátta okkar styrkjast og samheldni okkar aukast.  Prestastefna Íslands árið 2024 er sett.