Frá hundrað og niður í núll

Frá hundrað og niður í núll

Með sama hætti getum við spurt okkur hvernig við viljum lifa lífinu og hvort við höfum tækifæri á því að hægja á okkur frá hundrað og niður í núll þegar aðstæður krefjast þess. Hvernig er hemlakerfi okkar útbúið? Hvernig röðum við verðmætum í lífi okkar í forgang þegar við metum það hvað er þess virði að nema staðar?
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
18. desember 2006
Flokkar

Ég velti því oft fyrir mér hve dýrmætt tækifæri það er fyrir prest að fá að eiga samveru með hópum á aðventunni. Aðventan er annasamur tími. Við eigum fullt í fangi með að sinna öllum þeim verkefnum sem af okkur er krafist. Tossalistinn er langur og sjálfsagt á eftir að merkja við marga liði á honum. Hugur okkar starfar ört þessa dagana og hugsanir okkar eru oftar en ekki bundnar framtíðinni. Það er ef til vill ekki svo fjarri þeirri hugsun sem býr að baki aðventunni: Biðin og eftirvæntingin felast í orðinu sjálfu. Eitthvað merkilegt er á leiðinni og erillinn á okkur og annríkið ber þess merki.

Öfgar á aðventu

Stundum keyrir þó um þverbak. Á ég þá ekki við upphæðirnar sem við verjum í gjafir hvert handa öðrum. Ekki heldur um skreytingarnar sem lýsa upp skammdegið. Nei fjarri væri því að fárast yfir slíkum verkum sem miða að því að gleðja og kæta. Það sem sækir á hugann eru miklu fremur skuggahliðar hraðans og þær gríðarlegu fórnir sem við færum á altari hans. Fórnirnar í umferðinni eru einn þáttur og talan látinna hækkar sífellt.

Svívirðingar við slysstað

Nú á dögunum mátti lögregla og sjúkrastarfsmenn sitja undir svívirðingum vegfarenda þar sem þeir sinntu störfum sínum á slysstað þar sem tveir bílar höfðu rekist á með skelfilegum afleiðingum. Sú framkoma segir okkur sitthvað um tíðarandann og minnir óneitanlega á frásögnina af miskunnsama Samverjanum eða öllu heildur þeim tveimur sem gengu fram hjá slasaða manninum áður en samverjann bar að garði.

Í frásögn þeirri dró Kristur upp líkingu af ferðalagi og því sem á leið manna verður. Sérstaða Samverjans í þeirri frásögn var einmitt sú að hann kunni að nema staðar á leiðinni. Hugurinn var ekki svo bundinn áfangastaðnum að hann gæti ekki stöðvað og sinn brýnni skyldu við náunga sinn sem þurfti á aðstoð hans að halda. Jákvæð og neikvæð hröðun

Saga þessi talar til okkar á aðventunni þegar við æðum áfram sem aldrei fyrr að settu marki og frístundir okkar eru þéttskipaðar verkefnum. Vegferðin okkar er oft spennandi og oft þykjumst við greina eitthvað handan við hornið sem er ómótstæðilegt og við viljum hraða för okkar þangað. En mitt í því annríki öllu skiptir miklu máli að við gefum okkur tóm til þess að staldra við og leiða hugann að því til hvers vegferðin er farin og hvað það er sem verður á vegi okkar á þeirri leið. Stundum er það dauðans alvara að við náum að sinna því hlutverki.

Einu sinni sá ég auglýsingu frá bílaframleiðanda. Hún var einhvern veginn svona: „Flestir bílaframleiðendur segja þér hversu margar sekúndur það tekur bílinn að komast frá núll og upp í hundrað. Við höfum meiri áhyggjur af því hversu margar sekúndur það tekur bílinn að komast frá hundrað og niður í núll.“

Metingnum snúið við

Það var snjallt að snúa við þessum metingi um það hverjir bjóða upp á kraftmestu og hraðskreiðustu kerrurnar yfir í hið gagnstæða. Hverjum tekst að hægja á ferðinni áður en í óefni er komið? Önnur spurningin snýst um meting og kappsemi, hraða og eftirsókn eftir einhverju sem er meira og öflugra. Sú síðari getur snúist um það að lifa af og geta átt annan dag hér í þessu lífi.

Hemlakerfið okkar

Með sama hætti getum við spurt okkur hvernig við viljum lifa lífinu og hvort við höfum tækifæri á því að hægja á okkur frá hundrað og niður í núll þegar aðstæður krefjast þess. Hvernig er hemlakerfi okkar útbúið? Hvernig röðum við verðmætum í lífi okkar í forgang þegar við metum það hvað er þess virði að nema staðar? Nokkrir ökumenn sem þurftu að lækka hraðann framhjá slysstaðnum á Vesturlandsveginum voru engan veginn undir það búnir. Vafalítið var þetta allt prýðisfólk, myndi vafalítið falla vel inn í hvaða hóp sem er. Sumir hafa meira að segja snúið sér til aðstandenda þeirra sem létust og slösuðust í árekstrinum og beðist velvirðingar á framkomu sinni.

Á annarri stund og öðrum stað

En hvers vegna þá þessi viðbrögð? Er ekki sennileg skýring að hugur þess hafi verið kominn á einhvern allt annan stað á allt öðrum tíma? Það lifði ekki á þessu andartaki og á þessum tíma þar sem það sat í bílnum á þjóðveginum. Nei það var vafalítið á einhverjum allt öðrum stað í framtíðinni. Því var ónæðið slíkt. Þessi hugsun trúi ég að sæki að okkur öllum við margvísleg tilefni. Oftast hefur hún ekki svona afleiðingar í för með sér en í rauninni rænir hún okkur miklu. Hún rænir okkur andartökunum og sjálfum vettvangi tilverunnar – þeirri stundu sem fæðist og deyr hverja andrá.

Eilífðarkorn aðventunnar

Viðburðir aðventunnar, allar hefðirnar og hátíðirnar sem hafa yfir sér þessa taktföstu hrynjandi ættu í raun að gefa okkur þá tilfinningu að við höfum innbyggðan eitthvert bremsukerfi sem virkar og gefur okkur þá fullvissu að framtíðaráformin og eltingaleikur við tímann er ekki hlutskipti okkar alla ævina. Nei, hið fyrirsjáanlega og taktfasta, það sem getum gengið að sem vísu getur verið okkur eins og áminning um það að nema staðar og láta hið tímalausa taka völdin af framvindunni stöðugu. Við eignumst svolítið eilífðarkorn í amstri hversdagsins.

Aðventan byggist á því að bíða og undirbúa og við höfum sannarlega tilefni til þess þar sem við leggjum okkur fram um að fagna komu frelsarans. En að baki þessum tíma erum við minnt á það að allt líf okkar eru nokkurs konar undirbúningur. Ekki í þeirri merkingu að leggja stöðugt drögin að nýjum og nýjum áformum heldur þvert á móti – undirbúningur fyrir það að geta gert upp líf okkar í sátt við okkur sjálf, samferðafólk okkar og skapara. Sú sátt hvílir öðru fremur á því að við höfum lagt alúð og rækt við andartökin á lífsleiðinni, verið þátttakendur í því sem er að gerast hér og nú fremur en að týna okkur í hulinni framtíð þar sem við eigum ekki enn heima.

Hugleiðing Rótarýmenn 14. 12. 2006