Hverjum trúirðu?

Hverjum trúirðu?

Boðskapur upprisunnar hvetur okkur til umhugsunar um trú okkar. Hverju trúum við? Eða kannski er betra að spyrja: Hverjum trúirðu?
fullname - andlitsmynd Íris Kristjánsdóttir
09. apríl 2010

Kveikt á kerti

Boðskapur upprisunnar hvetur okkur til umhugsunar um trú okkar. Hverju trúum við? Eða kannski er betra að spyrja: Hverjum trúirðu? Segja má að upprisan sé leyndardómur trúar okkar, raunveruleiki sem ekki er auðvelt að útskýra að fullu. Ef við nálgumst upprisu Jesú í dag frá vísindalegu sjónarhorni þá lendum við í vanda, því upprisan byggir ekki á fjölmörgum vísindalegum tilraunum og niðurstöðum áralangra rannsókna.

Upprisa Krists er í raun alger andstaða þess. Hún er ekki venjulegur atburður, öllu heldur yfirnáttúrulegur, fullkomlega óvenjulegur, og einmitt þess vegna getum við ekki byggt trú okkar, nú eða jafnvel vantrú okkar á upprisuna, á hefðbundum vísindalegum upplýsingum, rannsóknum og niðurstöðum. Thomas Alfa Edison hafði rétt fyrir sér, það sem við trúum á þarf ekki að skiljast fullkomlega til þess að koma okkur að notum. Eða með öðrum orðum; þar sem vísindin enda, þar hefst trúin.

Grunnskilningur kristins manns er sá að Kristur er upprisinn og dauðinn leiðir til nýs lífs, frá myrkri krossins til birtu upprisunnar. Þetta er sá leyndardómur sem mörgum er hulinn. En fyrir þeim sem skynja hann, leiðir hann til lífsins og fyllir líf þeirra von og birtu.