Ég er vön að baka fyrir jólin

Ég er vön að baka fyrir jólin

Nú fékk söfnuðurinn að vita ástæðuna fyrir atferli sínu gagnvart veggnum. Táknið var þarna en tilvist þess og meining hafði gleymst. Fram að þessu vissi enginn um söguna á bak við þetta tákn og enginn hafði getað sagt sögu þess.
fullname - andlitsmynd Bryndís Malla Elídóttir
13. desember 2007

Söfnuður í norðurhluta Hollands hafði það fyrir sið er hann gekk til helgra tíða í kirkju sinni að hver og einn safnaðarmeðlimur laut höfði í átt að hvítkölkuðum vegg í kirkjunni áður en hann settist á kirkjubekkina. Enginn vissi hvers vegna. Söfnuðurinn hafði gert þetta frá einni kynslóð til annarrar og enginn spurði hvers vegna.

Dag einn ákvað sóknarnefndin að láta þrífa vegginn. Þegar þeir byrjuðu að þrífa vegginn þá komu í ljós merki um málningu undir kalklaginu. Þá hófu þeir að fjarlægja kalklagið varlega og kom þá í ljós margra alda gamalt málverk af fæðingu Jesú Krists. Enginn safnaðarmeðlimur vissi um tilurð málverksins. Engin lýsing var til af því. En virðingarvotturinn gagnvart því hafði samt sem áður lifað með söfnuðinum frá einni kynslóð til annarrar eins og raun bar vitni. Nú fékk söfnuðurinn að vita ástæðuna fyrir atferli sínu gagnvart veggnum. Táknið var þarna en tilvist þess og meining hafði gleymst. Fram að þessu vissi enginn um söguna á bak við þetta tákn og enginn hafði getað sagt sögu þess.

Við leiðum stundum ekki hugann að því hvað býr að baki vanans en í hugum margra er desember mánuður þar sem hefðir og venjur fá byr undir báða vængi. Flest eigum við okkar siði tengda aðventunni og jólum sem okkur finnast ómissandi hluti hátíðarinnar. Sumir baka sömu smákökurnar ár eftir ár, aðrir hafa alltaf sama jólamatinn, nú svo eru aðrir sem eiga sínar venjur tengdar jólatrénu og keppast við að halda í gömlu stjörnuna á toppnum þó hún sé farin að láta á sjá eftir áratugi. Margir hafa það líka fyrir sið að sækja hátíðarmessu á aðfangadag eða jóladag og komast fyrst í hátíðarskap þegar kirkjuklukkunum er hringt.

Allir eiga jólasiðirnir okkar þó ólíkir kunni að vera, það sameiginlegt að þeir ýta undir þá stemmningu sem við leitum eftir á þessum árstíma. Og þessir siðir verða okkur jafnvel svo kærir að okkur kann að finnast óhugsandi að breyta út af vananum. En stundum gerist það óhjákvæmilega að eitthvað breytist í fjölskyldu okkar eða ytri aðstæðum sem gerir það að verkum að við kunnum að eiga erfitt með að fylgja því sem við erum vön. Og oft þarf töluvert átak til þess að við getum breytt út af vananum og verið fyllilega sátt við það.

Ekkert er hins vegar óbreytanlegt, og þó við kunnum að sakna þess sem eitt sinn var þá getum við tekið í staðinn upp nýja siði og fært þannig nýja venju inn í hátíðarundirbúninginn. Því ekki megum við gleyma hvað liggur að baki vanans. Það getur t.d. hafa skapast sá vani að borða jólamatinn kl. 6 meðan börnin voru lítil og ekki var auðvelt að fara með þau í kirkju á þessum tíma. En ef börin eru öll orðin stór og jafnvel flutt að heima kann að skapast rými til þess að bæta þeim sið inn í hefðir aðfangadagskvölds.

Flestir sem upplifa þá helgi kirkjunnar einu sinni sækjast eftir henni á ný því þeir finna hve eftirsóknarverð hún er einmitt á jólum. Hátíðin sjálf er rík af jólasiðum sem kirkjan styður við og viðheldur í helgihaldi sínu án þess þó að úr þeim skapist óbreytanlegt lögmál. Því hefðirnar eru jólanna vegna en ekki öfugt. Og alltaf koma jólin með sinn stórkostlega boðskap hvort sem við höfum gert það sem við erum vön þessa aðventuna eða ekki.