Þjóðsögur um kirkjuna

Þjóðsögur um kirkjuna

Sú þjóðsaga virðist ótrúlega lífseig, að kirkjurnar standi almennt meira og minna tómar og ónotaðar alla daga. Þangað komi helst engin nema þessar “örfáu hræður” sem mæta í messu einu sinni í viku. Vissulega er það rétt, að oft vildum við sjá miklu fleiri koma í kirkjurnar en stundum er.
fullname - andlitsmynd Gísli Jónasson
07. apríl 2006

Sú þjóðsaga virðist ótrúlega lífseig, að kirkjurnar standi almennt meira og minna tómar og ónotaðar alla daga. Þangað komi helst engin nema þessar “örfáu hræður” sem mæta í messu einu sinni í viku. Vissulega er það rétt, að oft vildum við sjá miklu fleiri koma í kirkjurnar en stundum er. En það er samt mikill misskilningur að halda að þær standi alltaf tómar. Öðru nær!

Safnaðarstarfið verður sífellt fjölbreytilegra og þátttaka í starfinu er almennt að aukast. Enda er það svo, að nú er eitthvað um að vera í flestum kirkjum hvern dag vikunnar. Þannig eru, svo dæmi sé tekið, rúmlega 20 fastar samverur á viku í þeirri kirkju sem ég þjóna auk þess starfs og athafna sem eru meira tilfallandi.

Undanfarin þrjú ár hefur farið fram samræmd talning á þátttöku í safnaðarstarfinu í öllum söfnuðum Reykjavíkurprófastsdæmanna fyrstu vikuna í október. Samkvæmt þessari talningu komu samtals 25.000 manns í kirkjurnar þessa viku á s.l. hausti, eða að meðaltali 1250 í hverja kirkju. Samsvarar það u.þ.b. 5000 manns á mánuði eða allt að 45-50.000 manns á ári ef gert er ráð fyrir umtalsvert minni aðsókn yfir hásumarið, þegar ýmsir fastir liðir í safnaðarstarfinu liggja niðri. Ég veit að þessar tölur koma mörgum á óvart og því fullt tilefni til að á þessu sé vakin athygli endrum og eins. Önnur þjóðsaga, sem virðist vera býsna lífseig okkar á meðal, er sú fullyrðing að alltaf sé að fækka í þjóðkirkjunni og þá aðallega vegna þess að fólk sé stöðugt að segja sig úr henni. Mátti þannig nýlega sjá í fyrirsögn í einu blaðanna eftirfarandi fullyrðingu: Enn fækkar í Þjóðkirkjunni. Átti þessi fullyrðing að vera byggð á nýjustu tölum um mannfjölda frá Hagstofunni. Staðreyndin er hins vegar sú, að meðlimir Þjóðkirkjunnar hafa aldrei verið fleiri en einmitt nú og fjölgaði raunar um 1061 á síðasta ári!

Það er hinsvegar allt annað mál, að hlutfall þjóðkirkjufólks af heildaríbúafjölda landsins hefur af ýmsum ástæðum farið lækkandi á undanförnum árum. Ein ástæða þess er vafalaust sú, að einhverjir hafa sagt sig úr kirkjunni. En aðal ástæðan er þó samt sú staðreynd, sem margir virðast ekki hafa áttað sig á, að innflytjendum hefur fjölgað gríðarlega hratt á síðustu árum og þeir tilheyra almennt ekki þjóðkirkjunni.

Sem dæmi um þessa þróun má geta þess, að árið 1993 voru 43 íbúar í Breiðholtssókn af erlendu bergi brottnir, eða 1% af heildaríbúafjöldanum. Nú eru þeir hins vegar 318, eða 8,4% af heildaríbúafjöldanum. Það gefur auga leið, að þessi breyting hlýtur að hafa veruleg áhrif á hlutfall þjóðkirkjufólks af heildinni.

Látum því ekki þjóðsögur og fullyrðingar þeirra, sem ekki þekkja til, villa okkur sýn, er við horfum til kirkjunnar og starfs hennar. En við skulum samt heldur aldrei gleyma því, að það eru hvorki aðsóknartölurnar eða samverufjöldinn í safnaðarstarfinu eða það, hvort það fjölgar eða fækkar í kirkjunni, sem mestu máli skiptir, heldur hitt, að það starf sem unnið er sé þess virði að því sé gaumur gefinn. Að við höfum eitthvað til kirkjunnar að sækja, sem geti auðgað líf okkar og gefið aukna lífsfyllingu. Að þar sé miðlað þeim gildum sem raunverulega skipta máli fyrir líf okkar og tilveru.

Það sem öllu máli skiptir er með öðrum orðum þetta, hvort Guð fái að komast að og vinna sitt verk í hjörtum okkar. Hvort hann fái að móta starfið og leiða, þannig að það verði mönnum til raunverulegrar blessunar og kirkjurnar okkar verði í raun og sannleika hans hús. Gísli Jónasson