Lúkkið, Silvía Nótt og Jósef

Lúkkið, Silvía Nótt og Jósef

“Stikkem öp. Peningana eða lífið” var hrópað í bófahasar bernskunnar. Nú berast öllum lík en mun hættulegri skilaboð: Lúkkið eða lífið! Í prédikun í Neskirkju á öðrum jóladegi var rætt um viðbrögð.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
26. desember 2005
Flokkar

Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra. Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel, það þýðir: Guð með oss. Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS. Mt. 1.18-25

Lúkkið, lífið, Silvía Nótt og Jósef

Hvort er mikilvægara bréfið utan á jólapökkunum eða það sem í þeim er? Umbúðir eða inntak, hið ytra eða innra? Sjónvarpskonan Silvía Nótt lætur okkur ekki í friði með þá aðalspurningu hvað sé eftirsóknarvert í lífinu. Hún hefur sína stefnu. Reynar er hún búin að pirra svo marga með þáttum sínum á Skjá einum, að fólki hefur yfirsést hvert erindi hennar er, tilgangur og meginmál. Margir sáu afhendingu Edduverðlaunanna í haust en gerðu sér ekki grein fyrir frábærum leikgjörningi hennar, þegar þáttaröðin var verðlaunuð sem skemmtiþáttur ársins 2005 og aðalleikarinn sjónvarpsmaður ársins.

En hvað er með þessa Silvíu Nótt? Að eigin sögn býr Silvía flott, í Arnarnesinu, og fólkið hennar lifir eins og þotuliði sæmir. Hún sleppir aldrei tækifæri að minna á að hún sé fræg – og auðvitað stefnir hún á toppinn. En hún vill helst ekki þekkja neina aðra en fræga fólkið og gera neitt annað en það sem henni sjálfri finnst skemmtilegt. Silvía Nótt hefur mikinn áhuga á fötum, stíllinn verður stöðugt glamúrlegri, strípurnar æ stórkostlegri og hringurinn sem hún skartaði fyrir jólin var sláandi, eiginlega jafnstór hendi hennar!

Ekkert annað en það mesta, stærsta og stórkostlegasta er nægilega gott fyrir Silvía Nótt. Hún á sér lífsafstöðu, eigin heimssýn og mannskilning. Hún segir, að útlitið skipti öllu máli, “útlitið er þú veist, 90%, skilurðu.” Já, skilaboðin eru fullkomlega skýr, að innræti, afstaða, mannkostir, dyggðir, ræktun innri manns séu ekki það sem máli skiptir, heldur lúkkið. Velferðin og hamingjan er fólgin í ásýnd, hitt er bara aukageta og ekki afgerandi.

Meltutími

Annar jóladagur í dag. Þetta er góður dagur til hvíldar. Við liggjum flest á jólameltunni og höfum tíma til að anda og grufla svolítið. Magnaðasti hluti jóla er búinn, mestu annir hjá og lætin yfirstaðin og áramótahasarinn ekki hafinn. Nakin hátíðin eftir og þá er komið að meltunni. Hvernig eru nú jólin, hvernig eru þau öll sem að þér standa? Hvernig líður þér með allt, sem á undan er gengið? Texti dagsins í Mattheusarguðspjalli er mats- eða meltu-texti. Í forgrunni er grandvar maður, Jósef í Nasaret, sem er að reyna finna lausn á skelfilegum aðstæðum sem hann hafði ratað í.

Jósef

Hver var þessi Jósef? Hann er aldeilis miðlægur í guðspjallstextum jólanna. En hvergi í Biblíunni er haft eftir honum eitt einasta orð. Hann hefur ábyggilega talað mikið við Jesú í gegnum tíðina, orðið honum tilefni speki og íhugunar. Við getum verið næsta viss um að hann hefur verið klár karl, því Jesús var háður ytri kjörum eins og við hin. Hann hefur rabbað við Jesú og frætt hann við hefilbekkinn. En Jósef er orðlaus í Biblíunni.

Í mest leikna leikriti veraldar, helgileikjum um fæðingu Jesú, er hann alltaf einn af leikurunum. En hann er nánast alltaf í aukahlutverki og segir fátt eða ekkert. Í jólasálmunum er hann alltaf nærri, en segir ekkert þar heldur. Í raun gætum við alveg sagt að hann væri hinn fullkomni statisti, aukaleikari í mikilvægasta drama heimsins. Kannski vegna þeirrar stöðu tökum við ekki eins mikið eftir honum, ákvörðun og atferli, sem vert væri.

Slæmir kostir

Biblían beinir sjónum gjarnan að fólki í erfiðum aðstæðum. Jesú var sérstaklega umhugað um þau sem voru á mörkum eða höfðu lent út af í einhverjum skilningi. Jósef er einn þeirra ólánsmanna. Hann var í leiksoppur átakanlegra aðstæðna. María, konan sem hann var trúlofaður, hafði komið ólétt úr heimsókn hjá frændfólki sínu. Á tíma Jósefs var ekki farið léttilega með óþreyju holdsins. Brotið var talið svo alvarlegt að hana mátti lífláta. Hvað átti Jósef að gera? Staðan var eins og í grískum harmleik, kostirnir voru þrír og allir vondir. Jósef gat dregið hana til ábyrgðar og grýtt hana. Í annan stað gat hann skilið við hana. Aðferðirnar voru tvær: Að gera mikið úr á torgum og slíta trúlofun með svo miklum látum, að ekki færi framhjá neinum. En líka var hægt að kalla til grandvör vitni á lokaðan fund, gera grein fyrir aðstæðum og slíta trúlofun í ljósi brota. Í þriðja lagi, sem eiginlega var ekki raunverulegur kostur, gat Jósef látið svívirðuna yfir sig ganga.

Af því Jósef var tillitssamur valdi hann kost númer 2. Hann var ekki athyglissjúkur, hafði enga löngun til að auglýsa áfall sitt í Snuðrað og Hlerað sinnar samtíðar eða draga óhappakonu í svaðið umfram það sem orðið var. En Jósef hugsaði sér að skilja í kyrrþey. En þá varð hann fyrir vitrun í draumi, sem breytti afstöðunni til Maríu. Hann gerði sér grein fyrir að ávöxtur kviðar hennar yrði sá sem frelsa myndi þjóðina.

Í þágu annarra

Hann var þá enginn statisti heldur maður sem tók ákvörðun - ekki orðlaus heldur orðvar, ekki hugsunarlaus stjúpi heldur íhugull trúmaður, ekki maður með allt vitið útvortis, heldur maður sem vann á grundvelli gilda og samfélagsumhyggju, ekki sjálfhverfur einstaklingur, heldur ábyrgur maður, sem sá hlutverk sitt í stóru samhengi, en ekki aðeins í ljósi eigin langana eða þarfa - ekkert lúkk eða útlit.

Jósefsglíman var öll á dýptina, öll hið innra. Jósef var í sambandi við sjálfan sig, samfélag sitt, gildi, Guð og heilbrigði. Ef hann hefði verið upptekinn af lúkkinu hefði hann losað sig við Maríu og farið sína leið. Saga veraldar hefði orðið önnur. En hann axlaði ábyrgð, var tilbúinn að horfast í augu við aðstæður og vinna úr krísunni. Þess vegna var hann fullkomlega heppilegur uppalandi Jesú, gat veitt honum aðhald og stuðning. Þess vegna er Jósef ekki aukavera heldur flottur aðalleikari í sögu mannkyns. Ákvörðun hans var sú mikilvægasta og afdrifaríkasta, sem tekin hefur verið og hann hvikaði ekki frá stuðningi við konu, fjölskyldu og þar með Jesú. Ákvörðun við upphaf hjúskapar stóð, allt til enda.

Gildin

Hvað skiptir þig máli og hvernig raðar þú gildunum? Við getum alveg skilið að Jósef gegni hlutverki í jólasögunni. En í hvaða rullu er Silvía Nótt á meltutíma á öðrum degi jóla. Silvía Nótt er tilbúningur Gauks Úlfarssonar og Ágústu Evu Erlendsdóttur, leikkonu, sem ljær Silvíu Nótt líkama og mál (sjá Mbl. 30. desember, 2005, bls 60). Gaukur og Ágústa Eva tóku ákvörðun um að Silvía skyldi verða óandleg vera, eiginlega and-Kristur. Hún skyldi vera ofurseld peningasókn, frægðarleit og útlitsdýrkun. Því er Silvía Nótt með allt utan á sér. Hún lætur sig aðeins varða hinn ytri veruleika. Persóna hennar er andlaus sýndarveruleiki. Hún er sjálfhverf og öndverð öllum, sem hugsanlega standa í vegi hennar eigin þarfa. Eins og allir í svipuðum sporum er Silvía Nótt haldin fordómum gegn öllum, sem eru öðru vísi, útlendingum, lúserum af öllu tagi. Hún er því ljóslega alger andstæða trúarlegrar afstöðu, hún er gersneydd öllu því sem kristnin stendur fyrir og boðar. Stefna Silvíu er stefna myrkurs, líf inn í nótt.

“Spegill, spegill herm þú mér”

Gaukur og Ágústa Eva hafa búið til hvern þáttinn á fætur öðrum um Silvíu Nótt, efnishyggju hennar og pot. Það, sem virðist þáttur um grunnhyggna konu hefur síðan orðið spegill fyrir okkur, sem opinberar okkur sjálf sem sýndarfólk, sem malar gull, nennir ekki að sinna fólki og er 90% útlit. En foreldrar ættu að setjast niður með börnum sínum og ræða viðhorfin sem koma fram, því mörgum unglingum þykir þetta vera flott og sjá ekki í gegnum plottið.

Við ættum líka að staldra við og spyrja hvort þessi næturdrottining eigi við okkur erindi. Erum við ekki orðin börn næturinnar, gildagrönn, fjárplógar, sem svíkjum okkur sjálf, fortíð, veruleika, mannkyn og þar með Guð. Erum við orðin eitt risavaxið umbúðaþjóðfélag, sem sækist bara efir útliti, átakalausu ríkidæmi, flottum bílum, risvaöxnum skartgripum og að vera fræg? Ég held við ættum að staldra við, hætta að pirra okkur á Silvíu Nótt, horfast í augu við spegilinn.

Hverjum líkist þú?

Hvort ertu líkari Silvíu Nótt eða Jósef? Hvað gerir þú, þegar þú verður fyrir áfalli? Kaupirðu eitthvað til að lina sársaukann eða hugsar með þér hvað þetta geti kennt þér? Ef þú þarft að velja um eigin hag eða hag fjöldans ferðu leið Jóseps eða Silvíu? Hvað gerir þú ef þú veist af líðandi manni? Snýrðu silvískt baki við eða bregst við með ábyrgð? Hvort gefur þú fólkinu þínu tilfinningar eða lúkk, tíma eða hluti?

Silvía Nótt er ekki innfallin í sjálfa sig heldur innantóm. Lúkkið er aðalatriði. En í huga Jósefs var ekki aðalatriði, hvernig málin litu út hið ytra heldur hver hagur þjóðar hans væri, hvað hann gæti gert fyrir fólkið sitt. Líf hans var í tengslum við aðra og í samhengi. Í guðspjallstextanum er minnt á að erindi Guðs við menn er samstaða, hjálp, það sem nafnið Immanúel táknar.

Trúin og hamingjan

Gaukur Úlfarsson, annar höfundur Silvíuþáttanna segir þá deila talsvert á trúleysi nútímafólks. Hann segir í Moggaviðtali nú fyrir jólin: “Ég held að mörgum í dag finnist trúin ekki skipta miklu máli, hún sé eingöngu ef þú lendir í vandræðum....Stærsta ádeilan er kannski sú að við erum farin að hugsa of mikið útfrá efnishyggjunni og hugsum of lítið um Guð og trúna.” Og Gaukur bætir við: “Trúin er þó í mínu tilfelli það sem hefur fært mér hvað mesta hamingju í lífinu” (Mbl. 20. des. 2005, s. 60).

Hvað græði ég á því?

Á öllum íslenskum heimilum var fyrir jólin skipulagt hvaða jólagjafir skyldu gefnar. Á einu heimilinu var allt til og ekkert vantaði, hvorki fullorðna né börn. Mamman er klók og settist á rökstóla með syni sínum og sagði honum frá fátækt og örbirgð fólks í þriðja heiminum og hversu mikilvægt væri að hjálpa þessu fólki og kannski hjálpa við að gefa vatnslausu fólki brunn. Jú, sonurinn var alveg sammála því, að það væri gott að hjálpa. En þá kom spurning mömmunnar til drengsins sem átti allt: “Hvernig litist þér á, að við pabbi þinn slepptum því að gefa þér jólagjöf og gefa peningana í staðinn til Hjálparstarfs kirkjunnar?” Strákurinn rak upp stór augu og spurði: “En hvað græði ég á því?” Þetta er Silvía Nótt í hnotskurn. Hvað græði ég á því?

Getur verið að við séum að verða börn myrkrar græðgi? Er íslenskt samfélag að verða andlaus þjóð lúkksins, klónaður ættflokkur Silvíu? Hvað græði ég á því? Í sögu mannúðar, friðar og elsku hefur efnislegur gróði aldrei verið forsenda heldur aðeins afleiðing. Nútímavelferð hefði aldrei orðið til ef Silvía Nótt hefði ráðið. Fátæk börn, með augnveiki og útbelgdan maga, eiga aldrei möguleika í heimi Silvíulúkksins.

Lúkkið eða lífið?

Annar dagur jóla, við liggjum á meltunni og íhugum líf, gildi, okkur sjálf og hvað við viljum gera – undirbúum okkur fyrir nýtt ár. Hvar erum við stödd? Hver er klípa þín? Hvernig er fjölskyldumálunum háttað? Ef þú og þitt fólk haldið helst í hendina á Silvíu Nótt er kannski ráð að stoppa. Ef þú spyrð um leið og hamingju, gildi og stefnu þá er silvíska næturstefnan það versta sem hægt er að temja sér. Leið Jósefs er miklu betri, að halda á dýptina og bregðast við með umhyggju að leiðarljósi.

Hvert er mál jólanna? Að Guð elskar, kemur sjálfur, jafnvel í líki hins varnarlausa barns sem er ofurselt vali fólks, sem getur brugðist við með ýmsu móti, allt eftir því hvaða mann það hefur að geyma. Val okkar er algert, um eigin velferð, velferð okkar fólks, já raunar alls heimsins. Hvað viltu gera við boðskap jólanna?

Í bernskuleikjum var stundum farið í bófahasar. Við lærðum fljótt að benda með einhverju prikinu og æpa: “Stikkem öp. Peningana eð lífið”! Á okkur er sótt og við getum ekki flúið eða skellt skollaeyrum við. Lúkkið eða lífið? Hvort viltu? Amen.