Gleðilega jólahátíð kæru landsmenn.

Gleðilega jólahátíð kæru landsmenn.

Í desember var marga daga og víða um land sem himininn væri skreyttur í anda jólanna. Sólin sem var lágt á lofti sýndi litbrigði himinsins í vetrarstillunni þegar rökkva tók eða birta tók af degi.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
24. desember 2023
Flokkar

Prédikun flutt á aðfangadag 2023 í RUV.  Tekið upp í Ísafjarðarkirkju.

 Gleðilega jólahátíð kæru landsmenn. 

Í desember var marga daga og víða um land sem himininn væri skreyttur í anda jólanna.  Sólin sem var lágt á lofti sýndi litbrigði himinsins í vetrarstillunni þegar rökkva tók eða birta tók af degi. 

Hér á norðurhveli jarðar er mikill munur á nóttu og degi eftir því hvaða árstími er. Ég er nú stödd í Ísafjarðarkirkju sem vígð var á uppstigningadag árið 1995.  Áður hafði staðið kirkja hér á þessum stað í 124 ár. Við sem erum fædd hér á þessum stað eigum góðar minningar úr þeirri kirkju og finnst gott að vita að á hliðaraltari þessarar kirkju er styttan af Kristi þar sem hann er með útbreiddan faðminn, eins og í þeirri gömlu.  Þannig mætist hið gamla og hið nýja og heldur áfram að hafa áhrif á kyslóðirnar hér eftir sem hingað til.  Ég var einu sinni stödd í Kaupmannahöfn með vinkonu minni.  Við fórum í kirkju þar og það fyrsta sem vinkonan tók eftir var styttan af Kristi eins og í gömlu kirkjunni heima.  Kristur tekur á móti okkur hverju og einu með opinn faðminn eins og foreldrar og fjölskyldur taka á móti afkomendum sínum í kærleika.

Það er mikið myrkur á norðurhveli jarðar en nú verður breyting á.  Eftir 4-6 vikur geta þau sem búa milli hárra fjalla vænst þess að sjá sólina aftur eftir svartasta skammdegið og þá verða bakaðar pönnukökur og glaðst yfir ljósinu og lífinu sem sólinni fylgir.  Hér á Ísafirði er margt sem nefnt er í höfuð sólarinnar.  Kirkjan stendur við Sólgötu.  Sunnukórinn hélt sinn dansleik um það leyti sem sólin sést á ný og Sólrisuhátíð Menntaskólans er undirbúin með dagskrá sem stendur í nokkra daga.  Hæst ber væntanlega leikritið sem flutt er á hátíðinni. 

Ákveðið var fyrir margt löngu hjá Rómarkirkjunni að minnast fæðingar frelsarans, Jesú Krists, í kringum stysta dag ársins.  Vetrarsólstöður eru 21. desember en þann dag nýtur birtu skemst eða aðeins í rúmar fjórar klukkustundir.  Fæðing Jesú er í svartasta skammdeginu, rétt þegar daginn tekur að lengja og táknar þá von sem Jesús færir okkur mannfólkinu.  Vonin er ljósgeislinn sem skín í gegnum myrkrið og vísar okkur veg.   

„En það bar til um þessar mundir“  Einu sinni kunnu flestir landsmenn þann texta sem á eftir fer.  Þetta eru fyrstu orðin í jólaguðspjallinu sem lesið var hér áðan.  Lúkas sem skrifaði þessa frásögu í guðspjall sitt var læknir með mikinn áhuga á sögunni og tengdi atburði líðandi stundar við veraldarsöguna.  Já, það bar til að keisari einn, Ágústus að nafni fyrirskipaði að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina, sem á þeim tíma var Rómarveldi.

Lúkas staðsetur söguna frekar með því að segja að þá hafi Kýreníus verið landstjóri á Sýrlandi.  Fólkið hlýddi og fór hver til sinnar ættborgar því ekki voru tölvurnar í þá daga.

Næst víkur sögunni til þeirra Jósefs og Maríu.  Þau fóru til ættborgar Jósefs, Betlehem og þar varð María léttari.  Fæddi son sinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. 

Líkum má leiða að því að enn fæðist börn í þessum heimi við bágar aðstæður.  Í fátækum löndum, í stríðshrjáðum löndum.  Því miður fæðast ekki öll börn inn í heilnæmar og gefandi aðstæður og það er eitt af verkefnum okkar sem höfum meira en nóg að gefa af okkur til þeirra sem eru þurfandi.  Það lætur okkur Íslendingum vel eins og sjá má í öllum söfnunum sem boðað er til.  „Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum“ stóð við baukinn sem Hjálpræðisherinn kom fyrir við Bókhlöðuna hér á Ísafirði í mínu ungdæmi.  Þessi setning greipti sig inn í hug barnsins og hefur fylgt mér allt til þessa dags. 

Svo víkur sögunni að hirðunum í guðspjalli Lúkasar.  Hirðarnir gættu hjarðar sinnar svo vargar næðu henni ekki eða einhver úr hjörðinni striki frá hjörðinni.  Og þá gerðist undrið sem þeir áttu ekki von á þarna í myrkrinu og kuldanum.  Eins og hendi væri veifað stóð hjá þeim engill Drottins sem flutti þeim tíðindin sem margir höfðu beðið eftir um aldir.  „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“  Og þetta er boðskapur jólanna til allra manna:  „Yður er í dag frelsari fæddur.“  Þér er í dag frelsari fæddur.  Frelsari er sá sem frelsar frá myrkri, ótta, ógn og vanmætti, til ljóss, styrks, huggunar og vonar. 

 

Ein af mikilvægustu grunnþörfum barns er að mynda tengsl við þau sem annast það. Í flestum tilvikum eru það foreldrarnir. Kærleiksrík tengsl veita barninu öryggi í uppvextinum og mynda tilfinningabönd sem barnið býr að alla ævi.  Tengsl eru mikilvæg hverju barni og hverri manneskju.  Ef tengsl myndast ekki milli barns og umönnunaraðila getur það haft áhrif alla ævi.  Hið sama á við trúnna.  Trú er traust.  Trú er tengsl við æðri mátt.  Trú er tengsl við þau sem eiga þá sömu trú.  Jesús býður okkur að tengjast sér.  Bíður okkur kærleika sinn og leiðsögn um lífsins veg.  Mér er frelsari fæddur.  Þér er frelsari fæddur. 

 

Í myrkrinu á Betlehemsvöllum þar sem hirðarnir gættu hjarðar sinnar var engill sem flutti þeim boðin.  En það gerðist meira þessa dimmu nótt.  Með englinum var fjöldi himneskra herseita sem lofuðu Guð og sögðu: 

„Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.“

Það hafa margir dýrðarsöngvarnir verið ortir og sungnir eftir þennan atburð.  Einn þeirra, sem hefst á orðunum Guðs kristni í heimi var sunginn hérna áðan.  Ó, dýrð í hæstu hæðum, ó dýrð í hæstum hæðum.  Guðs heilagi sonur, ó, dýrð sé þér er viðlagið við öll vers sálmsins. 

Dýrð sé Guði sem sendi son sinn í heiminn til að mynda tengsl milli sín og hvers einstaklings.  Dýrð sé Guði sem elskar allar manneskjur og vill að þær allar kynnist kærleika hans, náðinni sem hann veitir og miskunninni sem frá honum streymir.

Og svo er talað um frið sem við öll þráum.  Auðvitað viljum við að friður ríki hvarvetna í heimi hér og enginn þurfi að búa við ófrið.  Hér er verið að tala um innri frið.  Þann frið sem Jesús gefur, frið í hjarta og frið í sálu og sinni.  Frið sem veitir hugarró og sátt við okkur sjálf og líf okkar.  

Guð hefur góðan vilja gagnvart hverjum einstaklingi sem fæðist hér á jörð.  Þess vegna sendi hann son sinn í heiminn.  Við lítum í jötuna og sjáum ekki aðeins lítið nýfætt barn heldur Guð með okkur.  Jesús er í senn Guð og maður.  Guð sem kom til jarðarinnar í syni sínum til að sætta heiminn við sig.  Til að við megum sjá að Guð er á meðal okkar.  Nær en blærinn, blómið.  Við eigum misjafnlega auðvelt með að koma auga á það en við sem reynt höfum vitum að vitneskjan og tilfinningin fyrir návist Guðs í lífi okkar léttir byrðar lífsins og gefur kjark og styrk til að takast á við verkefni dagsins og lífsins.

Ég bið þess að þú finnir þann frið sem Guð einn getur gefið.  Að þú finnir návist Guðs í lífi þínu.  Að þú takir á móti Jesú barninu í auðmýkt og þakklæti. 

Guð gefi þér gleði og frið á helgri hátíð, í Jesú nafni.  Amen.