Öll gerum við verkefnalista þegar mikið liggur við. Nú í jólaundirbúningnum er hann vísast langur. Hann er jafnvel eins og líf okkar í hnotskurn. Þar þarf að huga að líkamanum, andinn og samfélagið fær sitt og loks er það sálin og þau mikilvægu svið sem að henni lúta.
Verkefnalistar eru bráðnauðsynlegir til þess að henda reiður á öllu því sem þarf að gera en ég hef samt oft velt því fyrir mér hvort við ættum ekki að búa okkur til lista sem sýna hið gagnstæða. Hversu margir eru með lista yfir það sem þeir ætla ekki að gera, eða hætta að gera?
21 sólkerfi
Slíkir listar kunna að hafa meira gildi þegar til lengri tíma er litið heldur en allir verkefnalistarnir. Jú, við ættum að leiða hugann að því hvaða verð við greiðum fyrir þann lífsmáta sem við stundum. Einhvers staðar heyrði ég því fleygt að ef allar þjóðir stunduðu þá neyslu sem Íslendingar gera þyrftum við 21 jörð. Svo langir eru verkefnalistarnir okkar að skjótt myndi forðinn hverfa ef allir hefðu svo mikið fyrir stafni og við. Já, og við getum hugsað þetta lengra, því engin væri jörðin ef ekki væri fyrir hinar pláneturnar sem gegna mikilvægu hlutverki við að halda öllu hér í því viðkvæma jafnvægi sem hér ríkir. Gasrisarnir í útkantinum sem taka við hluta af loftsteinahríðinni, tunglið okkar sem mótar svo margt í lífríkinu, flóð og fjöru auk margs annars. Hvað þá sólina sem er auðvitað forsenda alls lífs. Nei, það þyrfti 21 sólkerfi fyrir þá verkefnalista sem við erum með!
Föstur
Víst gætum við gert margt vitlausara en að að halda skrá yfir það sem við ætlum ekki að gera. Þetta er alþekkt í kristninni. Í kirkjuárinu koma svo kallaðar föstur á undan stórhátíðum og þær eru nokkurs konar andstæður hátíðarinnar. Nú er einmitt jólafastan. Þetta er í anda þess jafnvægis sem við ættum að stefna að í lífi okkar. Ef við viljum sleppa af okkur beislinu þá þurfum við líka að kunna að takmarka hvað við látum eftir okkur. Þetta er ekki mjög flókið. Stundum öndum við frá okkur, en við þurfum líka að kunna að draga andann.
Þess vegna legg ég til að við búum okkur til lista yfir það sem við ætlum ekki að gera, rétt eins og við þekjum ísskápinn og skrifborðið með öllum þessum verkefnalistum. Á honum gæti staðið það sem við ætlum ekki að kaupa, borða, fara, vinna, neyta, ferðast og svo fram eftir götunum. Afleiðingin væri sú að líf okkar fengi á sig skýrari mynd. Það sem við ætlum raunverulega að gera fengi meiri tíma og meira vægi. Við myndum sinna því betur sem við teljum mikilvægast.
Hvílumst um stund
Kristur kunni vitaskuld þessa jafnvægislist. Þegar hann var búinn að starfa innan um fólkið, lækna, líkna, boða og biðja með þeim sem á vegi hans urðu þá sagði hann gjarnan við lærisveina sína: „Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman og hvílist um stund.“
Þetta er einmitt afrakstur þess að halda slíka skrá yfir það sem við ætlum ekki að gera. Við uppskerum hvíld sem gerir okkur betur hæf til þess að sinna því sem raunverulega viljum vinna að.
Guð gefi okkur frið á helgri jólahátíð.