Dramb, réttlæting og auðmýkt

Dramb, réttlæting og auðmýkt

Við eigum að njóta erfiðis okkar, við erum það sem við gerum, höldum við. Að kaupa fagnaðarerindið ókeypis virðist okkur ekki álitlegur kostur. En það er sú staða sem Jesús kennir okkur að vera í með dæmisögunni um faríseann og tollheimtumanninn.

Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

 Lúk. 18.9-14

Ég kem hér í helgidóminn oft í viku hverri. Ég leiði söfnuðinn í bæn til Guðs; við erum ekki margir sem gerum það hér í bæ. Ég vitna um Guð frammi fyrir fjölda manns og tala um hann, heilagleika hans og miskunn, fáir leggja eins mikið á sig og ég í því tilliti. Ég hef meir að segja verið reiðubúinn að gefa sál og líkama í þjónustu fyrir Guð.

Og svo gerir Guð mér það að láta mig útleggja þessa sögu um faríseann og tollheimtumanninn að kvöldi þessa dags frammi fyrir ykkur, mér, sem er borgað fyrir það að vera atvinnugóðmenni og að vera einn af þeim réttlátu og góð fyrirmynd í samfélaginu.

Þetta segi ég að sjálfssögu ykkur að ólöstuðum, eða hvað, leiðir ekki allur samanburður manna á milli til ranginda og að við upphefjum okkur á kostnað annarra.

Einn af kennurum mínum í guðfræði sagði í tíma athyglisverða reynslusögu. Það var á námsárum hans að hann leitaði Guðs af allri sálu svo lá við sturlun. Trú og tilgangur lífsins skiptir oft svo óendanlega miklu máli. Hann lýsti því fjálgleg með spaugulegri sjálfsgagnrýni að það hefði farið óskaplega í taugarnar á honum að hann sem hafði vandað líf sitt, numið orð Guðs og alla þá guðfræði sem hann náði í, sat einu sinni í helgidóminum þar sem inn kom ræfill og róni af götunni í því að Guðs orð var boðað. Sá hinn sami öðlaðist allt fyrir trúna og gat ekki annað en tjáð gleði sína yfir fagnaðarerindinu fyrir fátæka og vesæla meðan kennari minn sat með sárt ennið, vandlátur og dramblátur.

Nú sitjum við saman í helgidóminum, þú og ég, ekki þekki ég ástæður þínar, en nú veist þú nokkuð um mínar fyrir veru minni hér. Dæmisagan vekur þessar hugrenningar og á að gera það, vegna þess að hún er hárbeitt, nær inn í sálarfylgsni okkar og skúmaskot andans, til að prófa okkur.

Að kvöldi dags hefur kirkjan í gegnum aldirnar safnast saman og íhugað orðið, játað syndir sínar, hugleitt dagsverkið, litið til endalokanna óhjákvæmilegu, þegar myrkrið sígur yfir himinhvolfið. Það er hollt fyrir sálina að baða sig í ljósi dæmisögunnar, láta hana lýsa upp lífsgrundvöll sinn, horfast í augu við sjálfan sig og Guð.

1. Niðurlæging og upphafning

Í Guðs ríki gilda önnur lögmál en við erum vön í mannlegu samfélagi. Þar er þessi grundvallarregla sem dæmisagan um Faríseann og tollheimtumanninn endar á: “Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.” (Lúk. 18:14). Þessi orð er einnig að finna þar sem Jesús talar um hefðarsætin manna á meðal (Lúk. 14:11). Hver vill ekki komast á toppinn og slá í gegn í mannlegu samfélagi? Jesús kennir allt annað; að auðmýkja sig. Guð er sá sem upphefur. Jesús er okkur fyrirmynd í þessu. Hann lægði sjálfan sig; gjörðist fátækur okkar vegna, til þess að við auðguðumst af fátækt hans, skrifar Páll postuli (Fil. 2.5-11). Lúkas og Páll postuli eru samhljóma í þessu atriði varðandi niðurlægingu og upphafningu.

Augljósasta og kröftugasta dæmið er þegar í upphafi guðspjallsins, í boðun Maríu og lofsöng (Lúk 1:46-55).Lofsöngur Maríu hefur verið fastur liður í kvöldsöng kirkjunnar í gegnum aldirnar:

Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Annað talandi dæmi um þetta í frásögnum sem aðeins er að finna í guðspjalli Lúkasar, um hirðana sem fögnuðu Jesú nýfæddum er hann var lagður í jötu og gamalmennin sem glöddust er hann var borinn inn í helgidóminn átta daga gamall (Lúk. 2).

Dæmisögurnar í sérefni Lúkasar þar sem sagt er frá ferð hans upp til Jerúsalem að fullkomna það verk sem honum hafði verið falið hníga í sömu átt. Miskunnsami samverjinn var af hópi manna sem talinn var til trúvillinga meðal rétttrúaðra í Ísrael en Jesú upphefur hann. Ríki bóndinn var heimskur í auð sínum að hyggja ekki að sálarheill sinni. Dæmisagan um týnda soninn fjallar í raun um tvo syni, annar var alltaf hjá föðurnum, en hann gat ekki glaðst með honum þegar týndi bróðir hans kom heim og faðirinn vildi fagna honum, í raun var góði drengurinn týndur heima hjá sér, eins og gerist stundum hjá þeim sem ætla sig Guði þóknanlega, en glata kærleikanum. Dæmisagan um rík manninn og Lasarus er á sömu lund, þar er það fátæklingurinn sem hlýtur upphefð en ríki maðurinn glatast í auð sínum. Þær hníga allar í sömu átt þessar dæmisögur. Sá sem upphefur sjálfan sig mun niðurlægður verða en sá sem auðmýkir sjálfan sig mun upphafinn verða. Það er lögmál Guðs ríkis og andans.

2. Dramb, réttlæting og auðmýkt

Textaröðin samkvæmt endurskoðaðri A-textaröð slær á þessa sömu strengi um dramb, réttlæti og auðmýkt. Jesaja spámaður fjallar um drambið gagnvart Guði. Lokaversið dregur þessa þanka saman í eftirfarandi orð: “Og dramblæti mannsins skal lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera.” Pistillinn er valinn úr Rómverjabréfinu. Øivind Andersen, kennarinn sem ég vitnaði til hér í upphafi, bendir á í sínum skýringum að pistillinn er úr þeim hluta bréfsins (Róm. 3:21 - 5:21) sem fjallar um réttlætingu af trúnni einni. Hann segir: ”Þessi hluti fjallar um að verða réttlættur af trú, með áherslu á það að vera réttlættur. Við getum einnig sagt að hér er fjallað um það sem gerir manneskjuna kristna.” (s. 52). Guðspjall dagsins er svo dæmisagan um Farísea og tollheimtumann (Lúk 18:9-14) sem kennir okkur að bera okkur ekki saman við aðra en Guð. Það er leið auðmýktarinnar, leið kristinnar trúar.

Friðþægingarlærdómurinn hefur verið gagnrýndur af ýmsum trúarbragðafræðingum sem töldu fórnarskilning vera ógeðfeldan sem skynsamir menn gætu ekki haft fyrir lífsgrundvöll. Eflaust hefur sú gagnrýni leitt út í hinar öfgarnar að rétttrúnaðarmenn gerðu of mikið úr friðþægingarlærdómnum. Það sem fagnaðarerindið boðar okkur er að Jesús Kristur, Drottinn okkar og frelsari, gengur í okkar stað. Hann er staðgengill okkar. Synd okkar reiknast honum en réttlæti hans tilreiknast okkur til góða og eilífrar sælu.

Þetta er aðalatriðið í boðskap Jesú eins og dæmisagan um faríseann og tollheimtumanninn sýnir. Einnig er það grundvallaratriði í kenningu Páls postula um réttlætingu af trúnni einni, sem svo Lúther boðaði með miklum krafti og sannfæringu, reista á lausninni sem hann fann í sálarhremmingum sínum.

3. Lúther um réttlætingu af trú

Lúther segir um það hvernig hann öðlaðist frið í sálarangist sinni:
“Ég brann af löngun til að skilja Pál í Rómverjabréfinu, og þar var engin hindrun í vegi nema þetta eina hugtak, “réttlæti Guðs”, því að ég skildi það svo, að átt væri við það réttlæti, sem Guð tæki mið af í réttsýni sinni og réttlátri málsmeðferð, er hann væri að hegna ranglátum. Svo var komið fyrir mér, þótt ég væri lýtalaus sem munkur, að ég stóð frammi fyrir Guði sem syndari, órór í sinni. Og ég gat ekki trúað því, að ég fengi sefað hann með því að gera honum til hæfis. Þess vegna elskaði ég ekki Guð, þann réttláta Guð, sem refsaði syndurunum, heldur hataði hann miklu fremur og möglaði gegn honum. Engu að síður settist ég að Páli og brann af þorsta í að skilja, hvað hann var að fara. Dag og nótt velti ég þessu fyrir mér, unz mér varð ljóst, hvernig réttlæti Guðs og setningin, “hinn réttláti mun lifa fyrir trú”, gátu saman farið. Þá skildi ég, að sakir þessa réttlætis Guðs, réttlætir hann oss af náð og einskærri miskunn. Á þeirri stundu fannst mér sem ég væri með öllu endurborinn og gengi um opnar dyr inn í Paradís. Ritningin öll varð mér sem ný, og í stað þess, að “réttlæti Guðs” hafði áður fyllt mig hatri, þá varð það mér nú ósegjanlega ljúft og kært. Þessi setning hjá Páli varð mér hlið Paradísar.”

4. Bæn tollheimtumannsins - miskunnarbæn

Það er erfiðasta þraut bænalífsins að sleppa eigin verðleikum sem eru svo sem ekkert annað en gufa frammi fyrir Guði og setja allt sitt traust á miskunnsaman Guð. Það gengur þvert á þessi svokölluðu markaðslögmál okkar, í Guðs ríki færðu allt fyrir ekkert, kannski er það ástæðan fyrir því að fáir virðast hirða um fagnaðarerindið og Guðs orð, fólk vill ekki viðurkenna að það sé hjálpar þurfi, gjaldþrota gagnvart Guði. Við eigum að njóta erfiðis okkar, við erum það sem við gerum, höldum við. Að kaupa fagnaðarerindið ókeypis virðist okkur ekki álitlegur kostur. En það er sú staða sem Jesús kennir okkur að vera í með dæmisögunni um faríseann og tollheimtumanninn; að auðmýkja okkur, að þiggja gjöfina sem að okkur er rétt, fyrirgefningu Guðs í Kristi.

“Guð, vertu mér syndugum líknsamur!”, var bæn tollheimtumannsins. Við erum minnt á það í hverri guðsþjónusta að mæta Guði með þeim orðum. Við höfum ekki messu-upphaf með söngvum sem byrja: Hér kem ég í allri minni dýrð fram fyrir þig, Guð minn! Við förum með miskunnarbæn sem er um leið játning um okkur sjálf að verðug erum við ekki að koma fram fyrir Guð. Við komum fram fyrir Guð í nafni frelsara okkar, í Jesú nafni nálgumst við heilagan Guð, í trausti til miskunnar hans og náðar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.