Náð til verka

Náð til verka

Svo er umhugsunarefni hvaða áhrif hafi þessi stöðugi andróður gegn kirkjunni í fjölmiðlum sem gegnir umfangsmiklu hlutverki í samfélagsþjónustunni og sérstaklega með þeim sem minnst mega sín. Eru fjölmiðlar að láta reiðina sem nærist af rótleysinu bitna á þeim sem síst skyldi?
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
26. desember 2017
Flokkar

Flutt 26. desember 2017 í Heydalakirkja og Stöðvarfjarðarkirkju

Annar í jólum 2017 Heydalakirkja og Stöðvarfjarðarkirkja

Ég opna hlið míns hjarta þér,
ó, Herra Jesús, bú hjá mér,
að fái hjálparhönd þín sterk
þar heilagt unnið náðarverk. Amen.

Mikið náðarverk eru jólin. Engin hátíð rís hærra og hefur meiri áhirf á dagfar og lífshætti. Það er kristinn siður sem kallar til hátíðar og af trúnni ljómar boðskapur hennar.

„Sjá ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs. Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum“.

Ákallið er friður, Kristur Drottinn, þráir frið með fólki. Opnum við hliðið í hjartanu svo hjálparhöndin hans fái unnið þar náðarverk friðarins?

Það er inngróið í hefðina okkar að kalla jólin fjölskylduhátíð og hátíð barnanna. Haft er á orði, að á jólum verði allir eins og börn. Þjóðin fær kærkomið næði frá amstri dagana og vill rækta það besta sem auðgar fagurt mannlíf. Vera saman, elska, þakka, meta að verðleikum hið góða og fagra með ástina í fyrirrúmi. Afhverju gildir þetta ekki alltaf?

Við erum fámenn þjóð í stóru og fögru landi, eigum mikið ríkidæmi í auðlindum til lands og sjávar, erum menntuð og búum við betri lífskjör en flestar þjóðir. Njótum þæginda með tækjum og tólum sem teljast sjálfsögð gæði fyrir alla.
Gestsaugað sem myndi horfa yfir land og þjóð að hinu ytra gæti haldið að hér væri paradís á jörð.

En líður þjóðinni vel, þegar við horfum í lífið og það sem þar bærist? Eru gildin sem felast í boðskap jólanna um frið og kærleika í fyrirrúmi? Erum við í alsnægtum okkar að hlúa að hinu smáa og veika, góða og fagra eða þeim sem eru bestir, mestir og frekastir? Eru engin gæði gild nema þau sem meta má til fjár í hagvexti og vísitölum?

Fjölmiðlar segja stöðugar fréttir af vanlíðan fólks, fátæku fólki sem býr við þröng kjör, börnum sem líða vegna erfiðleika, fjölskyldum sem stríða við brotnar aðstæður, konum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og foreldrar hafa áhyggjur að börnin sín séu horfin inn í algleymi tölvunnar og eru ráðþrota.
Erum við að byggja upp samfélag fyrir vélar en ekki fólk?

Ég þekki unglinga sem skorti ekkert af veraldargæðum og vörðu stórum hluta af bernsku sinni í íþróttum, en fengu svo ákveðin skilaboð um að þeir væru ekki nógu góðir, kæmust aldrei í liðið og færi betur að gera eitthvað annað. Þetta lagðist þungt á unglingana og leiddi í alvarlegar ógöngur með uppgjöf og rugli.

Svo herjar áreiti tískunnar í sinni kepnni og boðar að allir eigi að vera eins samkvæmt krefjandi uppskriftum. Börnin eru varnarlaus, berast með straumnum og mega engan bilbug láta á sér finna og hvað sem það kostar.
Börnin verða ekki gömul, þegar þau skynja, að lífið er keppni og um fram annað ber að forðast: Að verða hafnað. Höfnun særir inn í innstu kviku, hvort sem er hjá börnum eða fullorðnum. Byggir gildismat nútímans á stöðugri hótun um höfnun, ef þú stendur þig ekki nógu vel? Er það hið félagslega einelti nútímans?

Þegar stjórnmálamenn standa frammi fyrir félagslegum vandamálum, þá kemur helst til greina að leysa vandann með meiri fjármunum til þess að setja plástur á sárin. Einu sinni státuðu stjórnmálaflokkar af stefnu sem hafði fjölskylduna að kjölfestu, þarfir hennar og velfarnað. Nú ber fjölskyldan æ sjaldnar á góma í pólitískum umræðum.

Er allt fengið með því að eiga hús, bíl og tölvu og fullar hendur fjár að auki? Vanlíðan herjar þar líka.
Það er orðið svo inngróið í vitund nútímans, að fjármunir geti búið til fullkomið líf. Ef út af bregður, þá virkar það eins og truflun á gangvirkinu í vélinni og eigi að laga strax með einhverjum töfrabrögðum, ef ekki lyfjum, þá með sérfræðingum, og það kosti peninga. Ef meiri fjármunir fást úr opinberum sjóðum, þá verði allt gott, annars hörmungar og jafnvel dauði.
Er það eina í boði í guðlausri veröld?

En lífið er ekki svo einfalt. Kann að vera að stærra og meira sé að baki og meinið leynist í gildismatinu og umgjörðinni sem á því byggir? Lyfin geta reynast drjúg hjálp í baráttu við sjúkdóma og sérfræðingar líka. En engin pilla er eða verður til sem læknar t.d. sorgina. Sérfræðingar geta heldur ekki upprætt sorgina og látið syrgjandanum líða eftir áfall eins og ekkert hafi ískorist. Þá er ekki mikið gagn í að setja plástur á kvíðann í lífi fólks, ef félagslegt umhverfi og aðstæður, sem kvíðanum valda, breytast ekkert.

Svo er umhugsunarefni hvaða áhrif hafi þessi stöðugi andróður í fjölmiðlum gegn kirkjunni sem gegnir umfanfsmiklu hlutverki í samfélagsþjónustunni og sérstaklega við fólkið sem minnst má sín. Eru fjölmiðlar að láta reiðina sem nærist af rótleysinu bitna á þeim sem síst skyldi?

Hátíð jólanna felur í sér að manngildið er í fyrirrúmi. Þar er ekkert rúm fyrir keppni, græðgi eða höfnun. Við erum öll jöfn í ljósi jólanna hvernig sem aðstæðum okkar er háttað. Jólin gefa tíma til að vera saman, næði til að deila kjörum og meta að verðleikum það sem þyngst vegur, mannvirðingu, vináttu, við hvert með öðru, fjölskyldan og þjóðin saman.

Við skreytum umhverfi okkar til þess að hlúa að þessum gildum, tendrum ljós til að ljóma yfir hið fagra og góða. Þjóðlífið leggur sig fram um að öllum eigi að líða eins vel og frekast má á jólum. Það er eins og slökkt hafi verið á vélinni, en fólkið tekið til sinna ráða og sett í öndvegi það sem kærast er og vegur þyngst.

Þetta ákall hvetur til siðbótar sem hefur ástina á lífinu að hugsjón, þar sem manneskjan er í fyrirrúmi. Að börnin fái notið friðar í stað kvíða, fái næði til að þroska forvitni sína og sköpunargleði í stað þess að þola yfirvofandi höfnun í stöðugri keppni, að foreldrar fá aukið svigrúm til að njóta samfélags með börnum sínum, að vinnumarkaður geri ráð fyrir að starfsfólkið eru foreldrar líka, fólk sem er umhugað um fleira en að standa sig vel í vinnunni.

Þetta er ákall um nærveru. Börnin þrá traust með nærveru í lifandi samfélagi. Það gerum við öll, að finna að við skiptum máli og getum treyst að mannhelgi sé kjölfestan í samfélaginu.

Opinberu kerfin og regluverkin þurfa að taka mið af þessu í þjónustu sinni, en ekki að byggja múra í kringum stofnanir sem líta á fólk eins og andstæðinga í keppni um velferðina.

Við horfum inn í fjárhúsið í Betlehem þar sem barnið hvílir í jötunni í skjóli og umsjá foreldra sinna, ósjálfbjarga barn sem á líf sitt og framtíð undir mönnum komið í von um að þroskast af visku og náð í faðmi ástríkis. Geta sagt með englum á Betlehmsvöllum, ekkert að óttast, hér er friður sem elskar lífið, og verða eins og hirðar sem taka mark á orði Guðs.
Í skírninni erum við að tjá þetta, að lýsa yfir að barnið er óumræðilega dýrmætt og viljum leggja allt að mörkum svo njóti friðar og farsældar.

Þessi ást viljum við að móti samfélagið, innviðina og umhverfið, og er á mannsins valdi frá vöggu til grafar.
Það er líka víða vel að verki staðið þar sem ástin á lífinu ræður för. Í því sambandi vil ég nefna sönginn og starfið hér í kirkjunni. Mikið leggur fólkið að mörkum, sem hér syngur í sjálfboðinni þjónustu, til að auðga fagurt mannlíf, þjóna fólki í verki, lyfta hugsun og vonum af hlýju og virðingu á æðri mið í fjársjóðinn þar sem ástin nærist.

Og fólkið sem unnir kirkjunni sinni, ekki síst þau sem bera hita og þunga af umsjá með kirkjuhúsinu, kirkjugarðinum og sjá til þess að þjónustan hér geti verið eins og best verður á kosið. Oft reynir á í söngnum og störfum öllum. Þar eru engir sigurvegarar, heldur engin keppni né höfnun. Aðeins þjónusta sem elskar lífið eins og útrétt hjálparhönd sem vinnur náðarverk.
Ég líki þessu fólki oft við engla sem af nærgætni og virðingu við mannhelgi að leggja sig fram og reynast mörgum svo vel í gefandi þjónustu. Það finnum við í áföllum og á sorgarstundum, og líka á stundum gleðinnar, alltaf þegar kallað er til helgrar þjónustu í kirkjunni. Guði launi og blessi þessa dýrmætu þjónustu og störfin öll.

Nú ómar englasöngurinn hér í fagurri kirkjunni okkar eins og náðarverk og boðar gleðileg jól. Megi sá fögnuður verða okkur ljós á lífsins vegi. Amen.