„Guð hefur vitjað okkar“

„Guð hefur vitjað okkar“

Í fréttum í gærkvöldi var viðtal við hælisleitanda frá Íran. Hann óttast að verða sendur til Frakklands í stað þess að mál hans verði tekið fyrir hér af útlendingastofnun. Hann er einn þeirra kristnu einstaklinga sem hefur verið refsað fyrir trú sína í heimalandi sínu...

Flóttamenn og hælisleitendur Í fréttum í gærkvöldi var viðtal við hælisleitanda frá Íran. Hann óttast að verða sendur til Frakklands í stað þess að mál hans verði tekið fyrir hér af útlendingastofnun. Hann er einn þeirra kristnu einstaklinga sem hefur verið refsað fyrir trú sína í heimalandi sínu. Það er vitað að kristnir menn eru víða teknir af lífi eða sæta ofsóknum. Þegar þeir knýja dyra verðum við að hlusta og hjálpa. Það sæmir ekki að senda þau frá okkur ef við höfum ráð til að taka við þeim. Á það vill biskup Íslands benda.

Það er ánægjulegt að það gengur vel að taka á móti flóttafólki sem valið er af flóttamannahjálp Sameinuðuþjóðanna. Fleiri eru á leiðinni. Ég hvet alla kristna karla og konur að sýna þeim kærleika í verki. Gullna reglan: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra,“ er sannur leiðarvísir í þeim efnum.

Samúð Jesú Guðspjall dagsins snertir okkur öll. Það fjallar um konu í neyð sem Jesús mætir. Við skulum skoða þrennt: samúð Jesú, orð hans og gjöf.

Samúð Jesú gagnvart móðurinni hlýtur að snerta við okkur, sem játum kristna trú. Í þeirri samúð sjáum við kærleiksþel Guðs sjálfs. Jesús birtir okkur meðaumkun Guðs með hverjum þeim sem syrgir og saknar. En einnig þeim sem býr við bágar aðstæður.

Jesús kenndi í brjósti um ekkjuna. Hryggð hennar og vonlaus staða snerti við honum. Hún var búin að missa manninn sinn, og nú var einkasonur hennar einnig látinn. Hvar átti hún nú höfði sínu að halla? Hvar var hjálp að fá? Ekkjur urðu að reiða sig á syni sína og skyldur þeirra við foreldrana. Nyti þeirra ekki við áttu þær allt undir ættingjum, sem erfðu eignir eiginmannsins. Við eigum ef til vill erfitt með að skilja, að það var skömm að vera ekkja. Álíka og fyrir eiginkonu sem ekki gat alið eiginmanni sínum barn. Staða ekkna var bæði viðkvæm og erfið.

Ítrekað lesum við á blöðum Gamla testamentisins að Guð sé Guð ekkna og munaðrleysingja, og að það sé sönn guðsdýrkun að annast þau.(Jes.1.17) Þess vegna tilheyrði það miskunnsemi að annast ekkjur og munaðarleysingja.

Jesús gaf kirkju sinni hið tvöfalda kærleiksboð, svo hún sýndi kærleika í verki. Samúð og góð verk eru skylda hvers kristins manns.

Máttarorð Jesú Lítum nú á orð Jesú. Hann reisti unga manninn upp frá dauðum með orði sínu. Hann sagði: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“

Við þekkjum tvo aðra einstaklinga sem hann vakti frá dauðum. Tólf ára stúlku og Lasarus, bróður Mörtu og Maríu. Þessi kraftaverk og upprisa Jesú sjálfs umbyltu algjörlega sýn fólks á dauðanum, en einnig heimsmynd þeirra. Dauðinn var ekki lengur það heljarafl, sem öllu hélt í greip sinni og aldrei sleppti nokkru sem hann tók. Hér var kominn sá, sem með orði sínu kallaði til baka hinn látna. Hann vakti þau með orðum sínum upp af svefni dauðans. Þess vegna játa kristnir menn: Jesús Kristur er Drottinn. Hann er Drottinn yfir lífinu og hann er Drottinn yfir dauðanum. Með upprisu hans sjálfs kom í ljós eilífa lífið og ódauðleiki mannsins. Heimsmyndin var breytt. Maðurinn Jesús hafði vald yfir dauðanum og hafði sigrað dauðann.

Hin kristna huggun og von er sú, að Jesús þekkir dánarheimin og hefur vald yfir honum. Þess vegna er það fagnaðarerindi að heyra orð hans: „Ég fer að búa yður stað, og þegar ég hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín svo þér séuð einnig þar sem ég er.“ (Jóh. 14:7) Það er huggun harmi gegn að trúa því að ástvinir okkar séu umvafðir kærleika Krists. Þegar við getum ekki lengur verndað, umvafið eða stutt þau sem við elskum, er svo gott að geta falið Guði almáttugum ástvin sinn, sjá hann í faðmi hans. Í starfi mínu sem prestur hef ég svo oft séð hvernig þessi bæn hefur hjálpað syrgjendum. Guð er kærleikur.

Er Jesús kallaði Lasarus út úr gröfinni sagði hann: 25„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. “(Jóh.7:25) og segir áfram: „og hver sá sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.“

Gjöf Jesú Við sem höfum heimt börnin okkar úr viðjum fíknar, sjúkdóma eða slysa, skiljum hve lífið er dýrmætt. Hið sama á við um þau sem hafa náð heilsu eða fengið annað tækifæri eftir slys eða alvarlega sjúkdóma. Við erum full þakklætis og auðmýktar gagnvart almættinu, sem gaf okkur börnin eða heilsuna á ný. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið í þessu lífi eða sjálfsagt að allt gangi að óskum. En þrátt fyrir það getum við og eigum við ávalt að vona hið besta og keppa að því. Það er innbyggt í hinni kristnu trú.

Ég hitti marga sem lýsa bæði í orði og verki, hve þakklát þau eru Guði eða æðri mætti, fyrir að hafa fengið heilsu á ný, fengið annað tækifæri. Það nýta þau á afar uppbyggilegan hátt til að hjálpa öðrum, oft þeim sem hafa lent í svipuðum kringumstæðum. Í þeirra huga er það Guð, sem bjargaði og gaf nýtt tækifæri. Honum ber að þakka.

Í guðspjallinu segir að Jesús hafi gefið ekkjunni son sinn aftur. Dauðinn hafði hrifsað einkasoninn til sín, tekið hann af ekkjunni. Hún hafði glatað honum og var alls laus, án allra trygginga eða samfélagslegrar hjálpar. En Jesús sótti hann í greipar dauðans og glötunar. Hann leysti hann úr böndum dauðans og gaf hann móður sinni á ný.

Þetta var kraftaverk. Og viðbrögð fólksins bentu til þess að fátt þessu líkt hafði hent þar um slóðir. Það sem gerðist var svo stórkostlegt að allt fólkið var frá sér numið af undrun og ótta. Það reyndi að orða upplifun sína með því að segja að mikill spámaður væri kominn fram. En aðrir tóku dýpra í árinni og sögðu einfaldlega að Guð sjálfur hefði vitjað þjóðar sinnar.

Og Lúkas leggur á það áherslu að Guð var að vitja lýðs síns í syni sínum. Hann var að sýna mátt sinn og vilja. Í kraftaverkinu sýndi hann bæði samúð, umhyggju og kærleika Guðs, en um leið að Guð væri máttugri en dauðinn. Hann gaf ekkjunni dýrmætustu gjöf sem hægt var að eignast, son sinn lifandi og heilbrigðan. Hann sem skapaði allt og á allt, gaf henni aftur það sem hún hafði misst.

Guð elskar þig og vill þér allt hið besta. Hann ber umhyggju fyrir þér. Leyfum orði hans að tala til okkar, orði sem huggar og styrkir. Megi líf okkar spegla þakklæti og samúð, og verk okkar vera öðrum til hjálpar. Amen.

Textar: Lexía: Job 19.25-27 Pistill: Ef 3.13-21 Guðspjall: Lúk 7.11-17