Börn spekinnar

Börn spekinnar

Börn spekinnar. Gat það verið að þessi kona tilheyrði þeim hópi, hún sem var kölluð bersyndug? Var ekki miklu fremur faríseinn barn spekinnar, lærður maður, virtur af samborgurunum? Aftur og aftur segja guðspjöllin okkur frá því að mat Jesú á fólki var allt annað en hefðbundið. Þá og nú gerir fólk mannamun.

Textar: Sálm 32.1-7, 1Jóh 1.5-10, Lúk 7.36-50

Við heyrðum í dag frásögn Lúkasar af kærleiksverki hinnar nafnlausu konu (Lúk 7.36-50). Guðspjallið er beint framhald frá síðasta sunnudegi (Matt 11.16-24, sbr Lúk 7.31-35). Fyrri hluta þess guðspjalls er að finna hér á undan frásögn dagsins, orð Jesú um fólkið sem ekki vildi þekkja verk Guðs í veröldinni, hvorki í Jóhannesi spámanni né Mannssyninum Jesú Kristi. Merkileg eru niðurlagsorðin hjá Matteusi: En spekin sannast af verkum sínum, sem hér hjá Lúkasi eru á þessa leið: En öll börn spekinnar sjá og játa hvar hún er að verki. Og svo er sagt frá bersyndugu konunni.

Mér finnst þetta merkilegt samhengi því að Jesús bendir á auma konu - sem allir litu niður á - sem barn spekinnar. Þessi kona sá Jesú augum trúarinnar og játaði að í honum sé spekin að verki. Símon farísei hins vegar, sá sem bauð Jesú til máltíðarinnar, var svo uppfullur af sjálfum sér að hann sá hvorki né heyrði hina sönnu speki sem lýsti af verkum Jesú, orðum hans og veru.

En öll börn spekinnar sjá og játa hvar hún er að verki.

Börn spekinnar. Gat það verið að þessi kona tilheyrði þeim hópi, hún sem var kölluð bersyndug? Var ekki miklu fremur faríseinn barn spekinnar, lærður maður, virtur af samborgurunum? Aftur og aftur segja guðspjöllin okkur frá því að mat Jesú á fólki var allt annað en hefðbundið. Þá og nú gerir fólk mannamun. Blöðin greina í sérstökum dálkum frá viðburðum í lífum þekktra manna, karla og kvenna, og fara þar eftir mannvirðingarstigum. Það er kannski eðlilegt að almenning þyrsti í fréttir af fræga fólkinu en Jesús varar okkur við því að hampa sumum umfram öðrum, í krafti embætta þeirra eða forréttinda.

Hér dregur Jesús hins vegar fram verk og hugarfar þessarar nafnlausu konu, okkur til eftirbreytni. Það er ekki hver hún er í augum umheimsins sem er meginatriðið heldur það sem hún gerir. Gott verk gerði hún, segir Jesús um hana í frásögn Matteusar (Matt 26.10). Og mikilvægast er hugarfarið sem liggur að baki verkinu, hugarfar kærleikans, traustsins og vonarinnar: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið... (Lúk 7.47)

Það er þetta hugarfar – að geta treyst Guði og þegið allt frá honum - sem gerir konuna að barni spekinnar. Í því samhengi kemur mér í hug það sem Páll postuli segir við söfnuðinn í Korintu (1Kor 1.26-30, lesið líka frá versi 18):

26Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. 27En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. 28Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. 29Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. 30Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn.

Viska trúarlífsins felst í því að vera fús að þiggja, að læra að treysta, að geta lagt líf sitt í hendur Guðs sem gefur. Að vera barn spekinnar er að sjá hina sönnu speki trúarinnar, speki Guðs í Jesú Kristi.

En öll börn spekinnar sjá og játa hvar hún er að verki.

Í Orðskviðum Salómons er fjallað um spekina, meðal annars með þessum orðum: Að óttast Drottin er upphaf þekkingar (Okv 1.7). Guðsótti merkir "að lifa í virðingu og lotningu frammi fyrir Guði", eins og segir í inngangi að Orðskviðunum í Biblíu 2007. Það rímar við hugsunina úr Lúk 7.35, að sjá og játa að speki Guðs er að verki í Jesú Kristi.

Guðsótta sýnir bersynduga konan með kærleiksverki sínu í garð Jesú. Varla er til meiri virðing og lotning en sú að úthella tárum sínum og sorg yfir brotnu lífi við fætur meistarans, þerra þá með djásni sínu, höfuðhárinu, sem helst skyldi hulið í viðurvist ókunnugra, kyssa þá og smyrja ilmandi smyrslum, sem hún hefur að öllum líkindum lagt mikla vinnu í að útbúa. Konan gefur Jesú allt sem hún á, afhjúpar sjálfa sig algjörlega og færir honum líf sitt allt í þessari táknrænu gjörð.

Höfum við gefist Jesú með slíkum innileik og ástúð? Höfum við komið fram fyrir Guð með allt sem okkar er og sýnt honum þá virðingu og lotningu sem ber? Erum við börn spekinnar, höfum við séð elskurík verk Guðs og brugðist við með sæmandi hætti með játningu ekki aðeins vara heldur veru okkar allrar?

En öll börn spekinnar sjá og játa hvar hún er að verki.

Samtal Jesú og Símonar farísea segir margt um hugarfar þessa mikilsmetna gestgjafa borið saman við hugarfar konunnar sem kærleiksverkið vann. Það segir ekkert um hvernig Guð telur syndir heldur hvernig okkur mönnunum gengur að viðurkenna vanmátt okkar gagnvart kærleiksboðorði Guðs. Konan sá sínar mörgu syndir og grét vegna þeirra. Faríseinn taldi sjálfan sig nokkuð lausan við slíkt og fannst hann ekki þurfa að sýna neina iðrun.

Bæði voru að sjálfsögðu sek í augum hins algilda kærleika, bæði höfðu brotið gegn vilja Guðs, hinu góða, fagra og fullkomna (Róm 12.2). Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð (Róm 3.23) eða eins og segir í pistli dagsins: Ef við segjum: „Við höfum ekki synd, þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur” (1Jóh 1.8).

Við þurfum að sjá og játast sannleikanum, speki Guðs sem birtist okkur í Jesú Kristi. Sú þekking kann að birta okkur sjálf í óhagstæðu ljósi um sinn er við horfumst í augu við ófullkomleika okkar, en eina rökrétta svarið er að koma með brest okkar og þá sundrung sem hann hefur valdið í lífi okkar að fótum Jesú og þiggja þar náð hans og fyrirgefningu. Veist þú ekki að það er gæska Guðs sem vill leiða þig til iðrunar (Róm 2.4, sbr. þýð 1981)? Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin... (Sálm 32.1).

Og þaðan, frá stöðu iðrunarinnar, játningu syndarinnar, uppgjöfinni við fætur Jesú, er vegurinn greiður til heilla lífs, til uppréttara lífs, til lífs í fyllstu gnægð (Jóh 10.10). Þráir þú líf í reisn, virðingarvert líf? Þiggðu þá viðreisnina sem Guð vill gefa þér. Í guðsóttanum gefst þér allt...

En öll börn spekinnar sjá og játa hvar hún er að verki.

Í Jakobsbréfi (3.17-18) segir um spekina að ofan og um þá ávexti sem hún muni bera í lífi okkar:

En sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. En friðflytjendur uppskera réttlæti og frið.

Þarna er frelsaranum lýst. Þannig er Jesús Kristur, hreinn, friðsamur, ljúflegur, sáttgjarn, fullur miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdrægur, hræsnislaus. Og þetta eru þær einkunnir sem prýða eiga líf þeirra sem ganga fram í guðsótta. Ég segi fyrir mig að þannig langar mig að vera.

Og þetta gerist í skref fyrir skref, ef við leyfum heilögum anda Guðs að helga líf okkar og móta okkur til myndar Jesú Krists. Stundum eru skrefin smá og jafnvel finnum við okkur renna til baka í hálku lífsgöngunnar. En í annan tíma tökum við stökk fram á við og upplifum á sterkan hátt þá undursamlegu umbreytingu sem fylgir því að leyfa Guði að vinna verk sitt.

Höldum okkur nálægt speki Guðs í Jesú Kristi, hinum krossfesta og upprisna, dag hvern, já hverja stund. Dveljum við fætur Jesú, bæði andlega talað í okkar daglegu verkum og einnig með því að taka frá tíma sem við helgum Guði algjörlega, án truflunar. Á slíkum stundum fær heilagur andi frið til að vinna verk sitt í lífi okkar, til að móta okkur æ meir til myndar Guðs, fylla okkur spekinni að ofan.

Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér. Verið eigi sem skynlausar skepnur, hestar og múldýr; með beisli og taumi þarf að temja þær, annars koma þær ekki til þín. Miklar eru þjáningar óguðlegs manns en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku. Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, allir hjartahreinir menn hrópi af gleði. Sálm 32.8-11

Trúr er Guð sem hefur kallað ykkur til samfélags við son sinn Jesú Krist, Drottin vorn. Hann mun styrkja ykkur allt til enda og gera ykkur óaðfinnanleg á degi Drottins vors Jesú Krists. Amen. (1Kor 1.9, 8).