Því sorgmæddur var ég…

Því sorgmæddur var ég…

Sálgæsla við syrgjendur er tvímælalaust eitt mikilvægasta verkefnið sem kirkjan sinnir. Þegar þessari þjónustu er vel sinnt sýnir fólk þakklæti og velvild í garð kirkjunnar og starfsfólks hennar.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
08. febrúar 2012

Hvað er þá maðurinn? Mynd: Ingólfur HartvigssonFyrir nokkrum árum var í gangi tilraunaverkefni í tveimur prófastsdæmum og einni sókn á höfðuborgarsvæðinu um eftirfylgd í söfnuðum. Verkefnið þetta fól í sér að efla eftirfylgd, þ.e. kærleiksþjónustu og sálgæslu í söfnuðum landsins.

Þrátt fyrir góða vinnu og vandað hefti sem starfshópurinn samdi um verkefnið (og finna má á efnisveitu kirkjustarfins) hefur lítið farið fyrir verkefninu síðan. Reyndar fannst mér það ekki ná eyrum kirkjufólks þrátt fyrir kynningu.

Ástæða þess að ég vek athygli á eftirfylgdinni er að það hefur runnið upp fyrir mér síðustu árin hvað við eigum sem kirkja enn langt í land með að sinna vel verkefnum kærleiksþjónustu og sálgæslu innan okkar vébanda. Hvað sjálfan mig áhrærir hef ég dregist inn í sálgæslu vegna sorgar og áfalla síðustu árin. Í þrígang á skömmum tíma fékk ég heimsóknir foreldra sem höfðu misst börn sín, m.a. í sjálfsvígum og sagði frá reynslu sinni af ónógri eftirfylgd og sálgæslu. Ég hef verið spurður; hvað eruð þið – hvað er kirkjan – að gera í þessum efnum. Mér varð svarafátt.

Ég vil samt nefna áður en lengra er haldið að margir prestar og djáknar sinna sálgæslu og eftirfylgd af stakri samviskusemi. Mér kemur í hug sá prestur sem annaðist sennilega flestar jarðarfarir á landinu á sinni tíð. Það var sr. Árni Bergur Sigurbjörnsson. Ég veit dæmi þess hvernig hann sinnti af kostgæfni og fagmennsku því fólki sem hafði misst. Þrátt fyrir annríkið þá sýnist mér hann hafa fylgt aðstandendum látinna einstaklega vel, enda skipulagður í vinnubrögðum. Kona sem missti son sinn í sjálfsvígi sagði frá því opinberlega að hún hefði farið í sálgæsluviðtöld til sr. Sigurðar Pálssonar vikulega í fjögur ár. Dæmi um frábæra eftirfylgd.

Samt virðist mér að vinnubrögð okkar presta og djákna séu ærið misjöfn hvað eftirfylgdina áhrærir. Ég þekki dæmi um erfið ótímabær dauðsföll þar sem eftirfylgdin var engin, ekki einu sinni símtal eftir jarðarförina. Ég þekki aðstandendur sem íhugað hafa að segja sig úr þjóðkirkjunni vegna þess að þeim fannst presturinn bregðast hvað eftirfylgd áhrærir. Þó er það þumalputtaregla að fylgja fólki í heilt ár við erfið dauðsföll.

Fyrir þessu kunna að vera nokkrar ástæður. Í sumum stórum prestaköllum er álag á prestunum gríðarlega mikið. Sjálfur þekki ég það þegar ég þjónaði í stóru prestakalli á höfðuborgarsvæðinu hvernig ég hafði stöðugt samviskubit yfir því að sinna syrgjendum ekki nógu vel. Eftir á að hyggja held ég að það hafi m.a. stafað af því að ég var ekki nógu skipulagður í vinnubrögðum. Tillögur nefndarinnar um eftirfylgd í söfnuðum geta hjálpað hér.

Svo getur það líka verið að sumir prestar taki að sér of margar jarðarfarir og vanmeti þann tíma sem þarf til eftirfylgdar, t.d eftir erfið ótímabær andlát. Í þannig tilvikum má benda á að það þekkist að prestar sem eru í önnum vilji helst ekki taka að sér jarðarfarir utan sinna sókna til þess þá að geta sinnt syrgjendum betur.

Önnur ástæða fyrir ónógri eftirfylgd kann hreinlega að vera að einhverjir telji ekki þörf á sálgæslu (eða telji slíkt hreinlega ekki skyldur prestins) eða hreinlega vilji ekki sinna henni vegna þess að þeim þykir sálgæslan erfið. Þessu er til að svara að það telst hreinlega til frumskyldna sókna að sinna sálgæslu samkvæmt heildarskipan þjónustu kirkjunnar og er hluti af starfsreglum presta (2.gr. starfsreglna 2011). Þá er því líka til að svara að mjög margir syrgjendur vænta þess að fá stuðning prests eða kirkju þegar um erfið andlát er að ræða – og fylgd þar á eftir. Ef þeir fá ekki þennan stuðning finnst þeim presturinn, jafnvel kirkjan hafa brugðist.

Nú er það ljóst að sálgæsla á misvel við presta og djákna. Í þannig tilvikum þarf að efla þá hugsun að eftirfylgd og sálgæsla getur verið vinna í teymi. Í sumum sóknum kemur djákni virkur inn í eftirfylgdina, m.a. til að létta álagi af prestinum. Ein leiðin til að létta á álaginu getur verið að beina fólki í farveg með sína sorgarvinnu. Hjá Nýrri dögun hefur orðið mikil aukning á stuðningshópum fyrir syrgjendur. Þá hafa prestar og djáknar víðs vegar um landið verið að gera átak í því að koma slíkum hópum á laggirnar. Það hefur sýnt sig að slíkir hópar þar sem syrgjendur styðja hverjir aðra á jafningjagrunni undir handleiðslu fagfólks er eitthvert öflugasta verkfærið í sorgarvinnunni. Í einni sókn sem ég heimsótti nýlega var gerð skoðanakönnun meðal kirkjufólks – það sem flestir óskuðu eftir var að koma á laggirnar stuðningshópi fyrir syrgjendur.

Sálgæsla við syrgjendur er tvímælalaust eitt mikilvægasta verkefnið sem kirkjan sinnir. Þegar þessari þjónustu er vel sinnt sýnir fólk þakklæti og velvild í garð kirkjunnar og starfsfólks hennar. Nú á tímum þegar margir spyrja sig til hvers þurfi þjóðkirkju er besta svarið að veita góða þjónustu þegar fólk þarf á að halda. Góð eftirfylgd við syrgjendur er eitt skýrasta dæmið um þjónustu sem almenningur leggur upp úr að kirkjan veiti. Vöndum því til verksins. Notum það góða verkfæri sem starfshópurinn um eftirfylgd í söfnuðum lét okkur eftir.