Trúin þá og trúin núna

Trúin þá og trúin núna

Er kristnin bara fortíðarfyrirbæri, eitthvað sem lifir í lokuðum fornaldarheimi? Eða snýst trúin um lífið hér og nú? Fyrr í sumar átti ég spjall við forystumann í íslenskum fjölmiðlaheimi um möguleika varðandi kirkju og trú í fjölmiðlum. Hann var með þá hugmynd að gott fræðsluefni fyrir sjónvarp væri að fjalla um gamla altaristöflu í lítilli kirkju, gott ef hún var ekki í eyðibyggð.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
03. september 2002

Er kristnin bara fortíðarfyrirbæri, eitthvað sem lifir í lokuðum fornaldarheimi? Eða snýst trúin um lífið hér og nú?

Fyrr í sumar átti ég spjall við forystumann í íslenskum fjölmiðlaheimi um möguleika varðandi kirkju og trú í fjölmiðlum. Hann var með þá hugmynd að gott fræðsluefni fyrir sjónvarp væri að fjalla um gamla altaristöflu í lítilli kirkju, gott ef hún var ekki í eyðibyggð.

Mér brá nokkuð við þessi orð. Var þetta myndin sem maðurinn hafði af kristinni trú í samtímanum? Var gömul altaristafla það markverðasta sem hann sá við trúna? Gamall arfur sem flestir eru hættir að nota, en hugguleg stúdía fyrir sagnfræðinga og fornleifafræðinga? Og ef þessi mynd hans af þjóðkirkjunni var rétt, var þá ekki bara best að gera hana að deild í þjóðminjasafninu?

Mér hefur oft síðan verið hugsað til þessara orðaskipta því mér finnst þau endurspegla hvernig margir líta á kristnina sem menningararf úr fortíðinni, eitthvað sem tilheyrir gamla bændasamfélaginu á Íslandi sem er löngu horfið. Ég get heldur ekki varist svipuðum hugrenningum þegar fólk innan kirkjunnar talar um stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi eins og hún var fyrr á öldum, en hugar síður að stöðu kirkjunnar meðal þjóðarinnar í dag. Þegar menn segja að nútímaleg vinnubrögð eigi ekki við vegna þess að arfur kirkjunnar sé svo sérstakur. Varla af þessum heimi.

Mín upplifun af kristinni trú er allt önnur. Fyrir mér er kristnin lifun sem hjálpar mér að takast á við mína tilveru eins og hún er hér og nú. Hún er liðsmaður í "baráttunni við raunveruleikann" svo fengið sé orðalag að láni frá Sigurjóni Björnssyni sálfræðingi. Hún knýr mig til að takast á við sjálfan mig, horfast í augu við bresti mína, og spyrja einnig hvernig ég geti notað hæfileika mína í þágu annarra, lifað hinu góða lífi í sátt við Guð og menn, þ.á.m. sjálfan mig.

Vissulega á hin kristna lifun uppruna sinn í fortíðinni - í lífi og starfi Jesú Krists. Í dauða hans og upprisu. En það er trú okkar kristinna manna að þessi Kristur sé raunveruleiki daginn í dag ekkert síður en fyrir tvö þúsund árum, þ.e. ef við kjósum að taka hann alvarlega. Svo er það annað: Fyrst Guð tók heiminn það alvarlega að hann gerðist manneskja, hljótum við sem störfum í þágu kristninnar þá ekki einnig að taka þetta venjulega líf alvarlega?

Reyndar hefur mér lengi fundist Kristur koma til okkar úr framtíðinni. Guð varð maður til að opinbera okkur manneskju framtíðarinnar. Nokkurs konar "alheimsfrumsýning" á hinni sönnu manneskju þar sem fegurð, góðvild og skynsemi kallast á. Þetta sjónarhorn úr framtíðinni finnst mér víða að finna í Nýja testamentinu. "En þá munum vér sjá augliti til auglits" segir Páll postuli í fyrra Korintubréfi og vísar til framtíðarinnar í ríki Guðs þar sem Kristur ríkir.

Frumskylda kirkjunnar er að boða trú á þennan Krist og hampa þeim lífsgildum sem eru henni samfara - og síðan þjóna lifandi fólki með þessari trú og lífsgildum núna! Skyldurnar við fortíðina og menningararfinn ber ekki að vanrækja, en þær verða seint efstar á forgangslistanum í starfi kirkjunnar.