Blessuð ósamkvæmnin

Blessuð ósamkvæmnin

Kolakowski segir að ósamkvæmni sé nauðsynleg til að aðlagast heimi sem er löðrandi í allskonar andstæðum og þverstæðum. Í veröld mannsins er ekki bara annaðhvort eða. Þar er stundum bæði annaðhvort og eða. Stundum er hvorki annaðhvort né eða heldur eitthvað allt annað.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
21. október 2013

Árið 1958 sendi pólski heimspekingurinn Leszek Kolakowski frá sér greinarkorn sem hann nefndi Lof ósamkvæmninnar (In Praise of Inconsistency). Þar lofar hann þá áráttu mannanna að vera ekki alltaf samkvæmir sér. Kolakowski tekur svo djúpt í árinni að segja að án ósamkvæmninnar eigi mannkynið litla tilvistarvon. Séu menn samkvæmir sjálfum sér haldi þeir áfram réttlátum stríðum uns síðasti andstæðingurinn sé fallinn. Ofstækismennirnir eru samkvæmir sjálfum sér og senda án afláts alla á bálið sem ekki eru á sama máli og þeir. Það gera þeir staðfastlega þangað til engir eru eftir nema þeir sárafáu þverhausar sem eru sammála ofstækismönnunum. Tækju menn samkvæmnina á orðinu breyttist heimurinn í einn allsherjarvígvöll manna sem halda sínu striki, eru samkvæmir sér og stoppa aldrei. Sem betur fer er þó heimurinn ekki bara einn stór vígvöllur. Vonin lifir á meðan menn leyfa sér þann munað og lúxus að vera ósamkvæmir sér. Kolakowski segir að ósamkvæmni sé nauðsynleg til að aðlagast heimi sem er löðrandi í allskonar andstæðum og þverstæðum. Í veröld mannsins er ekki bara annaðhvort eða. Þar er stundum bæði annaðhvort og eða. Stundum er hvorki annaðhvort né eða heldur eitthvað allt annað. Á sumum málum eru bara um hér um bil 50 gráir skuggar. Nýlega heyrði ég annan heimspeking tala um þá tilhneigingu í allri umræðu á Íslandi að stilla upp tveimur gjörsamlega andstæðum pólum. Hér eru málin yfirleitt ekki nema svört eða hvít. Engir gráir skuggar, hvað þá litir. Almenningi er gefið til kynna að annaðhvort þurfi hann að vera með eða á móti. Einungis séu tveir valkostir, hvor til sinna öfga, já eða nei. Þjóðinni er skipti í tvær fylkingar. Síðan er þeim flokkum att saman og kynt vel undir katlinum. Reynt er að haga umræðunni þannig að þar sé eins langt á milli fólks og hægt er. Öfgafyllstu sjónarmiðin eiga að ráða ferðinni því þá er von á mesta hasarnum og það selur blöðin. Í ofstækinu eru minnstar líkur á að fólk geti nálgast hvert annað og skilið sjónarmið hvert annars. Í ofstækinu loka menn eyrunum því þeir eru svo sannfærðir um eigin málstað. Í ofstækinu eru menn svo samkvæmir sjálfum sér að þeir heyra ekkert nema öskrin í sjálfum sér.