Rauði þráðurinn í kirkjustarfinu

Rauði þráðurinn í kirkjustarfinu

Kærleiksþjónusta er rauði þráðurinn í öllu kirkjulegu starfi. Það er full ástæða til að kynna sér vel hvernig kirkjan vinnur í anda kærleika og þjónustu, bretta svo upp ermarnar og láta til sín taka.

Hvað gerir kirkju að kirkju? Einfaldasta svarið er að það er hópur fólks sem trúir á Jesú Krist. Þrír meginþættir starfs kristinnar kirkju eru helgihald, boðun trúarinnar og þjónusta við náungann. Allt starfið miðar að því að mynda gott samfélag þar sem meðlimirnir leitast við að sýna hvert öðru kærleika og starfa saman að þessum þrem meginþáttum. Helgihaldið er t.d. messan á sunnudögum og þar fer einnig boðun fram. Þjónustan fer fram í kirkjunni allri þegar launaðir starfsmenn og sjálfboðaliðar mæta fólki og leitast við að reynast þeim Kristur.

Heil kirkja

Án þjónustu við náungann er kirkjan ekki heil. Hugtök sem notuð eru um þessa þjónustu er kærleiksþjónusta og einnig gríska orðið diakonia. Viðhorf þess sem sinnir þessari þjónustu er að vera þjónn sem er þýðing á orðinu diakon. Kristur leit á sig sem þjón og eins og hann segir í Matt. 20.28 Mannsonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna. Þetta er guðfræðilegur grunnur starfs kirkjunnar við fólk í erfiðum aðstæðum. Stundum líkist starfið venjulegu félagslegu starfi sem ýmsir inna af hendi en það sem skilur slíkt starf frá þjónustu kirkjunnar er þessi fræðilegi, guðfræðilegi grunnur. Mikilvægt er að veita þjónustu án skilyrða t.d. um að vera virkur í kirkjunni. Það sem kirkjan er að gera hér er að sýna trúna í verki en ekki að prédika með orðum.

Velferðarsamfélagið

Íslenska samfélagið er talið velferðarsamfélag sem með markmiði að allir geti lifað lífi sínu með reisn og fengið þjónustu til þess. Það er hins vegar staðreynd að margir búa við vanda sem velferðarsamfélagið ræður ekki við. Þá hafa frjáls félagasamtök komið fólki til hjálpar. Oft er talað um þau sem þriðja geirann.

Það má spyrja sig hvort þriðji geirinn grafi ekki undan velferðarsamfélaginu og sinni því sem er lagaleg skylda að gera. Svo má vera en þó virðast frjáls félagasamtök vera nauðsynleg. Hlutverk þeirra er einnig að krefja samfélagið um að sinna skyldum sínum og vera talsmaður þeirra sem búa við erfiðar aðstæður t.d. fátæka. Hjálparstarf kirkjunnar og söfnuðir Þjóðkirkjunnar starfa á þessum vettvangi. Einnig er starfað á mörgum stofnunum t.d. sjúkrahúsum, og meðal sérstakra hópa t.d. fanga og aðstandenda þeirra.

Áhrif þjónandi viðhorfs kemur fram í stjórnunarfræðum sem heita Þjónandi forysta. Þar er lögð áhersla á að leiðtoginn líti á sig sem þjón og það ætti að vera fyrirmynd starfsfólks kirkjunnar.

Kærleiksþjónusta er rauði þráðurinn í öllu kirkjulegu starfi. Það er full ástæða til að kynna sér vel hvernig kirkjan vinnur í anda kærleika og þjónustu, bretta svo upp ermarnar og láta til sín taka. Nóg er af verkefnum og alltaf pláss fyrir góða verkamann.