Varanleg vongleði

Varanleg vongleði

Í sálmi númer 319 í flokknum ,,Synd og náð” í sálmabók þjóðkirkjunnar, www.tru.is/salmabok, lýsir sr. Matthías Jochumsson því ferli sem á sér stað þegar manneskjan horfist í augu við sjálfa sig og finnur til undan fjarlægð sinni frá Guði. Skáldið málar tilvistarþjáninguna sterkum litum og dregur ekkert undan þegar hann lýsir reynslu sinni af sekt og skömm sem dregur hann nær sturlun og rænir hann sálarró: ,,Af sturlun lestist lífs míns rót sem lauf, er skrælnar sólu mót, og enga fann eg eirð né frið, því eg var sekur Guð minn við.” Hann talar jafnvel um ,,dauðasynd” sem í hugmyndaheimi Biblíunnar er að hafna Guði (syndin gegn heilögum anda, Matt 12.32).

Viðsnúningur Síðan lýsir Matthías þeim viðsnúningi sem hann varð fyrir þegar ,,hönd þín kom og náði´ í mig,” eins og það er orðað í sálminum. Honum fannst hönd Guðs liggja þungt á sér um leið og hann upplifði sárlega fjarlægð sína frá Guði. En umbreytinging varð með þrá hjartans eftir fyrirgefingu: ,,Ég sagði: Guð, ég sekur er, - ég sagði: Drottinn, líkna mér, - ég sagði: Faðir, fyrirgef” og loks sá hann og skildi ,,kærleiks almátt” Guðs sem tilreiknar ekki afbrotin heldur afmáir syndina, já varpar þeim öllum í djúp hafsins, eins og segir hjá Míka spámanni (7.19). Og sálminum lýkur í gleði yfir fyrirgefingu Guðs og þakklæti sem kemur beint frá hjartanu:

Ó, Drottinn Guð, mitt skýli´ og skjól, Minn skjöldur, borg og líknarsól, Nú finn ég glöggt þú minnist mín, Nú man og les ég orðin þín: Ég leiði þig, en lif í mér, Þú lærir, en ég kenni þér.

Nú gleðst ég mínum Guði í, Nú glóa skírnarföt mín ný. En syng nú, allur heimsins her, Sem hefur reynt, hvað náð Guðs er. Já, syngjum hátt í hverjum stað: Guðs heilagt nafn sé vegsamað.

Himingleðin í hversdagsleikanum Í guðspjalli dagsins (Lúk 15.1-10) lýsir Jesús gleði Guðs og engla hans og fögnuði á himnum yfir ,,einum syndara, sem tekur sinnaskiptum.” Jesús bregður upp mynd úr hversdagslífinu í Palestínu til að hjálpa áheyrendum sínum að skilja hina himnesku gleði. Fyrst segir hann frá karli – fjárhirði - og síðan konu - húsmóður - sem bæði týna hjartfólginni eign sinni, kind annars vegar og pening hins vegar. Þau leggja bæði mikið á sig til að finna aftur það sem týndist og gleði þeirra er ósvikin þegar sauðurinn og drakman koma í leitirnar. Og þau kalla saman vini sína, nágranna og vinkonur til að samgleðjast sér.

Hirðirinn og húsmóðirinn eru myndir af Guði sem Jesús gefur til að hjálpa okkur að skilja hið yfirnáttúrulega. Hvorug stéttin hafði sérstakan heiðurssess í hinu lagskipta þjóðfélagi. Enn neðar voru síðan tollheimtumenn og bersyndugir. Hinir sjálfsskipuðu andlegu og veraldlegu leiðtogar þess tíma litu niður á þessa þjóðfélagshópa, og furðuðu sig á því að Jesús skildi umgangast slíkt fólk. Tuðið í faríseunum og fræðimönnunum höfum við heyrt oft áður: ,,Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.” Fyrir þeim var það hneisa sem fyrir okkur hljómar eins og hrós. En Jesús lét ekki sjálfsskipaða siðapostulana stýra sér heldur fór sínar eigin leiðir, bauð þau sem aðrir fyrirlitu velkomin í sinn félagsskap og borðaði jafnvel með þeim sem jafngilti því að líta á þau sem vini sína. Þetta var algjör nýjung á hans tíma, nokkuð sem við kannski getum ekki alveg skilið sem erum alin upp við jafnræði og virðingu fyrir hverri manneskju.

En það er líka merkilegt að Jesús skuli nota venjulegt fólk, verkamenn og húsmæður, sem mynd af Guði og gleði himnanna. Við erum kannski vanari því að Guði sé líkt við voldugan konung (t.d. Op Jóh 11.17) eða ríkan húsbónda (t.d. Lúk 14.16-24). Hirðislíkingin er þó alþekkt í Gamla testamentinu (t.d. Sálm 23 og Esek 34) og hjá Jesaja spámanni (49.15) er að finna orðin þekktu: ,,Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki.”

Aldrei ein á ferð Einmitt um þetta snúast ritningartextar dagsins. Að Guð gleymir okkur ekki. Ef við týnumst – sjálfum okkur og Guði – fer Guð á stúfana að leita okkar. Hönd hans kemur og nær í okkur, eins og skáldpresturinn Matthías orðaði það. Guð lætur sér annt um okkur, við erum dýrmæt í augum hans. ,,You´ll never walk alone,” söng Anna Jónsdóttir sópran svo gekk mér beint í hjartastað hér í Hallgrímskirkju á tónleikum þeirra Kára Allansonar sl. fimmtudag. ,,Aldrei einn á ferð” heitir þetta lag þeirra Rodgers og Hammerstein á íslensku (í þýðingu Bjarka Elíassonar) og maður þarf ekkert að vera ,,púlari” (stuðningsmaður Liverpool) til að hrífast með.

Frumkvæði Guðs sem leitar að týndu börnunum sínum kemur sterklega fram í pistli dagsins (Ef 2.4-10). Guð elskar. Guð endurlífgar. Guð reisir okkur upp. Guð býr okkur stað. ,,Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því” (Ef. 2.8). Ekki frekar en sauðurinn getur ratað heim úr óbyggðunum eða peningurinn úr skúmaskotinu sem hann féll í. Að því leiti til erum við á svipuðu róli og þessir gripir sem voru svo dýrmætir eigendum sínum í dæmisögu Jesú; hver sauður skipti máli fyrir afkomu fjölskyldunnar og hugsanlega hefur peningur konunnar verið hluti af brúðarskarti hennar sem hafði svipað tilfinningalegt gildi og giftingarhringurinn fyrir okkur.

Mismunandi viðbrögð Þó við rötum ekki heim leitar Guð okkar – og finnur, án undantekninga. Viðbrögð okkar þegar það gerist geta verið mismunandi. Matthías Jochumsson lýsir tilvistarangist sinni frammi fyrir Guði þegar hann upplifði algjöran vanmátt sinn, yfirtekinn af sektarkennd. Vanmátturinn færði hann yfir á svið löngunarinnar eftir fyrirgefingu og í syndajátningunni fékk hann að reyna á máttugan hátt – sem lýst er í reynsluheimi sálmsins – að Guð er kærleiksríkur í almætti sínum, fús að fyrirgefa. Og í þeim kærleiksmætti megnaði hann að snúa til baka til lífsins, sæll og glaður, reiðubúinn að læra að ganga veg Guðs.

Einhver annar kynni að hafna Guði. Svo eru þau líka til – eins og Jesús gefur í skyn í dæmisögu sinni um hirðinn – sem líta svo á að þau hafi enga þörf fyrir að grípa í útrétta hönd Guðs og gangast undir þá umbreytingu hugarfars og breytni sem Guð kallar okkur til. Vitnisburður þeirra sem megnuðu að yfirstiga vanmátt sinn með því að fela sig mætti Guðs og stigu þar með frá dauðanum til lífsins, andlega, félagslega og jafnvel líkamlega talað, er hins vegar margróma. Líklega tilheyrum við flest eða öll sem sækjum kirkju í dag þeim mikla kór sem lofar Guð fyrir lífgjöf eftir að hafa gengið í gegn um margvíslega tilvistarkreppu, játað syndir okkar, beðið um og þegið fyrirgefningu Guðs sem gefur kraft til góðra verka.

Metanoia – rótttæk hugarfarsbreyting Orðið sem notað er í gríska textanum um þennan viðsnúning – frá örvæntingu til varanlegrar vongleði – er ,,metanoia.” Eins og Grétar Halldór Gunnarsson, guðfræðingur og doktorsnemi, bendir á í grein í júní hefti Kirkjuritsins (2014, 80 árg. 1 hefti, bls. 20), var þetta gríska orð þýtt sem ,,iðrun” áður fyrr og er svo enn í inngöngubæninni. Hér í guðspjallstexta dagsins er þetta hugtak íslenskað sem ,,sinnaskipti” annars vegar (v. 7) og ,,bæta ráð sitt” hins vegar (v. 10). Grétar leggur í grein sinni áherslu á að orðið merki ekki að dvelja í sekt sinni heldur að ,,sjá hlutina með nýjum hætti, öðlast nýja vitund og sjá um leið sína gömlu vegi í nýju ljósi.” Þess má geta að heimspekingurinn og sálfræðingurinn William James (1842-1910) notaði hugtakið metanoia um “varanlega grundvallarbreytingu á lífsstefnu einstaklingsins” – og Carl Jung (1875-1961) nýtti það líka í sinni sálarfræði.

Þetta er samsett orð. ,,Meta” táknar breytingu og ,,noia” merkir hugsun eða viðhorf. Við gætum því notað íslenska orðið ,,hugarfarsbreyting” til að nálgast merkingu gríska hugtaksins metanoia. Enn betra væri ,,rótttæk hugarfarsbreyting” því að samkvæmt orðabók Louw og Nida er áherslan á breytnina sem fylgir hugarfarsbreytingunni: ,,Að breyta lífsháttum sínum sem afleiðingu af algjörri hugarfarsbreytingu,” segir í þeirri bók. Það er líka í takt við hvatningarorð Páls postula í pistli dagsins – að við erum ,,smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka” (Ef. 2.10).

Frá kreppu til kærleiksverka Það er sem sagt þetta sem veldur gleði Guðs – að við heyrum þegar Guð kallar okkur til sín og leyfum Guði að leiða okkur í gegn um tilvistarkreppurnar, út til varanlegrar grundvallarbreytingar á hugarfari okkar og lífsháttum. Leidd af Guðs hönd verðum við þátttakendur í gleði himnanna, í þeirri umbreytingu hugarfarsins sem færir okkur inn í hið góða verk Guðs sem okkur er ætlað að vera þátttakendur í. Í samneyti við Jesú og þau hin sem hafa heyrt þegar hann kallar okkur saman í kærleika sínum getum við glaðst með Guði sem er eins og hirðir og húsmóðir, vinum Guðs og vinkonum, nágrönnum og grannkonum, já englum Guðs á himni og jörð og sagt með síra Matthíasi:

En syng nú, allur heimsins her, Sem hefur reynt, hvað náð Guðs er. Já, syngjum hátt í hverjum stað: Guðs heilagt nafn sé vegsamað.
Friður sé með söfnuðinum og kærleikur, með trúnni frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Náð sé með öllum þeim sem elska Drottin vorn Jesú Krist með ódauðlegum kærleik (Ef. 6.23-24). Amen.