„Vesalingarnir“ í Wansworthfangelsinu

„Vesalingarnir“ í Wansworthfangelsinu

Um 20 fangar taka þátt í sýningunni, sem er hugvitssamlega sett upp. Upplifun, sem torvelt er að koma í orð, djúpstæð, ógnandi á vissan hátt en þó svo mögnuð. Í samhengi þess að þarna fá þeir, sem eru á bak við luktar dyr samfélagsins tækifæri til að sýna hæfileika sína á jákvæðan, uppbyggjandi og skapandi hátt.
fullname - andlitsmynd Sigurður Arnarson
08. apríl 2007
Flokkar

Fyrir rúmum mánuði síðan stóð hópur fólks fyrir framan flennistóra járnhurð. Það stóra að það er hægt að keyra flutningabíl í gegnum hliðið, sem hún hylur.

“Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins”, stendur í pistli dagsins en hliðið, sem hér um ræðir er aðalhlið stærsta fangelsis Bretlands, sem hýsir um 1470 fanga.

Og ef áfram er lesið í pistlinum stendur: “Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það”.

Efalaust hafa þeir, sem dvelja innan veggja fangelsa verið einhvern tíman réttlátir á æviskeiði sínu en í fangelsi hafa þeir verið dæmdir vegna ranglátra verka. En það er ekki þar með sagt að þeir geti ekki eða hafi snúið lífi sínu við og farið eftir brautum réttlætisins.

Því alltaf er von og hana er ekki hægt að taka frá manni. Það kennir Kristur með fordæmi sínu og trú og kærleika. Að fara inn um hlið Drottins er að taka við Drottni og að hann sé leiðtogi lífsins en ekki eitthvað annað.

* * *

Það var “stressaður” prestur í þann veginn að stíga í prédikunarstól í illræmdu fangelsi þegar hann hrasaði og féll á gólfið.

Viðstaddir ráku upp skellihlátur. Presturinn reis upp, steig í prédikunarstólinn og sagði: “Ég er eiginlega búinn að flytja prédikuna.”

Viðstaddir hljóðnuðu og lögðu við eyru. Presturinn hélt áfram og sagði: “Prédikunin fjallaði um það að þau sem misstíga sig, geta staðið upp aftur og haldið áfram ef þau kæra sig um. Þeirra er valið”.

* * *

Nú hreyfist þessi stóra hurð, fer til hliðar og gengið er inn í port, þar sem önnur janfstór hurð blasir við en það er hægt að sjá í gegnum hana, inn í fangelsisgarðinn.

Fremri hurðin lokast. Fyrir ofan eru skotheldar glerrúður og fyrir innan þær horfa á hópinn fangaverðir.

Ein rúðan er þakin förum eftir byssuskot og við þá sjón fer um mann hrollur.

Fangavörður ávarpar hópinn, ráðleggur viðstöddum að halda sig í röð lengst til hægri að áfangastað því að hætta sé á að hlutum verði hent í hópinn. Sumir flissa við þessi viðvörunarorð, en aðrir verða áhyggjufullir á svip.

Það er að koma kvöld.

Hópurinn heldur áfram ferð sinni innar í þennan kalda og ógnvekjandi veruleika. Fólk setur hljótt og gluggar með rimla birtast. Úr einum þeirra heyrast blístur. Úr öðrum ókvæðisorð og svívirðingar og allt í einu er skvett vökva að hópnum en engin verður fyrir skvettunni.

Það er verið að hræða og ógna.

Áfram er haldið. Hópurinn er að fara að sjá söngleik, sem í leika fangar og atvinnusöngvarar. Söngleikurinn heitir Vesalingarnir og er byggður á hinni þekktu sögu Viktors Hugo og fjallar um baráttu góðs og ills.

Sístætt umfjöllunarefni og það er vægast sagt tilfinningaþrungið að sjá þessa sýningu í fangelsi, umkringdur eftirlitsmyndarvélum og fangavörðum.

Um 20 fangar taka þátt í sýningunni, sem er hugvitssamlega sett upp. Upplifun, sem torvelt er að koma í orð, djúpstæð, ógnandi á vissan hátt en þó svo mögnuð. Í samhengi þess að þarna fá þeir, sem eru á bak við luktar dyr samfélagsins tækifæri til að sýna hæfileika sína á jákvæðan, uppbyggjandi og skapandi hátt. Aðilar, sem hafa hlotið dóma fyrir að hafa framkvæmt ýmiss skuggaverk en fá hér tækifæri til að miðla einhverju tæru, einlægu og heiðarlegu frá hjörtum sínum.

Ekki með grímur töffaraskapar, ógnar eða hryllings. Heldur manneskjur, með þrár og vonir, að miðla með áhuga og hæfileikum einhverju, sem getur eða og hefur opnað nýjar víddir fyrir þeim og þeim sem á þá horfa. Enda sjást á tár á hvörmum, hvort sem það er hjá einhverjum áhorfendum eða leikurum.

Þegar sýningunni er lokið er mikið klappað og fagnað og hugir og hjörtu viðstaddra lyftast í hæðir og augnablikið er óendanlega fullt af gleði.

En raunveruleikinn tekur fljótt við aftur.

Áhorfendur eru beðnir um að bíða um stund á meðan föngunum er fylgt aftur í raunveruleika klefa sinna.

Og áhorfendahópurinn gengur sömu leið til baka og hann kom. Út fyrir fangelsisveggina en eftir sitja fangarnir í þeim flókna veruleika, sem fangelsi er.

Vonandi ná þeir sem fyrst fótfestu og tökum á lífinu og sviptivindum þess.

* * *

Þó að fólk sé ekki bak við luktar dyr fangelsis geta samt hugur og hjarta verið hlekkjuð í viðjar til dæmis fíknar, óvildar, reiði, lyga, vanlíðunar, þunglyndis og svo framvegis.

Páskarnir snúast um sigur.

Sigur lífsins yfir dauðanum.

Það er von eftir dauðann.

Jesús Kristur, sonur Guðs er tekinn höndum, fangelsaður, hæddur og líflátinn

En á páskamorgni þegar þrjár konur koma til að vitja grafar hans er hann farinn.

Upprisinn.

Þvílíkt undur að margir trúðu því ekki og trúa ekki enn þá.

Það er ýmislegt í þessu lífi sem erfitt er að trúa eða taka á.

14. ára drengur myrtur hér í Lundúnum í fyrradag.

22. ára gömul vanfær kona myrt einnig á Föstudaginn langa í suður Lundúnum.

* * *

Þær eru margar glímur hins daglega lífs, mislangar og erfiðar og rista misdjúpt.

Sumar taka stóran toll. Lífið blasir við en svo kemur dauðinn allt í einu og það er allt svart og upp í mót.

Ólýsanleg kvöl og pína.

Sama hvað er beðið, Drottinn virðist ekki hlusta.

Reiði út í hann, reiði út í einhvern annan eða eitthvað.

* * *

Upprisan er kjarni kristinnar trúar.

Við eigum hlutdeild í því sem Jesús ávann okkur með krossdauða sínum og upprisu og fjötrar myrkurs, syndar og dauða eru rofnir.

Og engillinn sagði við þær: “Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér.”

Hinn mikla blessun páskanna veitist okkur eins og ljós inn í dimmu, eins og ársól yfir myrkra jörð, eins og sigur lífsins yfir dauðanum.

Hið góða er sterkara en hið illa og það fengu til dæmis fangarnir og öll hin, sem tóku þátt eða sáu uppfærsluna á “Vesalingunum” í Wansworth fangelsinu í síðasta mánuði að upplifa.

Kærleikurinn er yfirsterkari en hið illa. Hann er máttugri en hatrið.

Ljósið er öflugra en myrkrið.

Lífið er sterkara en dauðinn.

Sigurinn er okkar vegna hans, sem elskar okkur hvert og eitt eins og við erum, þó ólík séum með til dæmis mismuandi þrár, vonir og drauma því að fyrir honum erum við öll jöfn og einstök.