Kærleikurinn, drifkraftur umhyggju og hjálpar

Kærleikurinn, drifkraftur umhyggju og hjálpar

Heimurinn þekkti ekki skapara sinn. Hefur eitthvað breyst? Er það enn svo að við þekkjum ekki hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, eins og Jóhannes orðar það? Trú er gjöf sem öllum stendur til boða. Trúin er samband við Guð, sem endurnýjast án afláts í baráttunni við hið illa.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
25. desember 2017
Flokkar

Jes 62.10-12; Tít 3.4-7; Jóh 1.1-14.

Við skulum biðja:

Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, og upphaf gleðinnar. Með fæðingu Jesúbarnsins sendir þú bjartan geisla inn í myrkur jarðar. Gef að þetta ljós lýsi einnig hjá okkur. Lát það geisla í öllu sem við gerum, svo að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð kæri söfnuður.

Hann fékk bátsferð inn fjörðinn, gekk síðan yfir heiði og þaðan yfir aðra heiði til að komast heim um jólin. Til að geta verið með fjölskyldu sinni sem bjó enn á fæðingarstað hans, afskekktum firði á Vestfjörðum.

Margar sögurnar eru til af því hve fólk lagði mikið á sig til að vera með sínu fólki á jólum. Enn er það svo að við viljum dvelja nálægt þeim sem okkur þykir vænt um og vera með þeim sem þykir vænt um okkur.

Kærleikurinn sem tengir fólk er mikilvægari en allt annað, sérstaklega þegar eitthvað bjátar á. Væntumþykja birtist m.a. í jólagjöfunum sem við gefum og fáum. Kærleikur er sterkt afl sem birtist í mörgum myndum í daglegu lífi okkar og þegar áföll verða í lífi einstaklings eða samfélags er hann drifkraftur umhyggju og hjálpar.

Í gærkveldi heyrðum við lesið úr guðspjalli Lúkasar um fæðingu barnsins hennar Maríu. Í dag heyrum við jólaboðskapinn frá guðspjalli Jóhannesar. Ef við lesum guðspjöllin þá fáum við heillegri mynd af jólasögunni en ef við lesum aðeins eitt guðspjallanna. Mattheus segir söguna um vitringana sem voru leiddir af stjörnu að jötu barnsins þar sem þeir færðu því gjafir. Markús segir ekki frá fæðingunni en byrjar guðspjallið á Jóhannesi skírara sem kallaður var fyrirrennari Jesú og vitnar í spádóm úr Gamla-testamentinu máli sínu til stuðnings.

Við þráum ljós og birtu og lýsum upp umhverfi okkar í dimmasta skammdeginu. Jólaljósin eru kærkomin á þessum dimmasta tíma ársins og það er gaman að rifja það upp að við minnumst Jóhannesar skírara þegar sólin er hæst á lofti, á Jónsmessunni og núna í svartasta skammdeginu minnumst við fæðingar Jesú, komu Guðs í heiminn, á Kristsmessu, eða jólum eins og við nefnum þau á íslensku. Þá hækkar sól á lofti að nýju og þannig flytur þessi uppspretta alls lífs hér á jörðu boðskap Jóhannesar og Jesú. Ljósið er uppspretta lífsins og strax í fyrstu málsgreinum Biblíunnar birtast okkur þessar andstæður, myrkur og ljós. Í sköpunarsögunni í 1. Mósebók segir: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.

Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós. Guð sá að ljósið var gott og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. Guð nefndi ljósið dag en myrkrið nótt.
Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.“

Í orði Guðs er sköpunarkraftur. Guð sagði og það varð. Jóhannes guðspjallamaður byrjar guðspjall sitt með því að tala um orðið. „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.“ Guðspjallið hefst á þeim boðskap að Jesús sé Orðið, á grísku logos, hið skapandi orð Guðs, hans eilífa hugsun og speki í heiminn kominn sem maður. „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika.“ Segir þar einnig.

Guð er með okkur. Það er boðskapur jólanna. Við lifum ekki í myrkri. Við lifum í ljósi. Þessar miklu andstæður lífsins birtast í mörgum myndum. Sterkar eru þær í sambandi við gang himintunglanna og við sem búum svona norðarlega á hnettinum finnum það og sjáum á árstíðunum, þar sem myrkrið grúfir yfir í skammdeginu og lítill munur er á birtu dags og nætur fyrri part sumars. En myrkur getur líka læst sig í sál mannsins sem sér þá stundina enga birtu þó sól sé á lofti. Jólin segja okkur að ljósið skín líka í myrkrinu. Það er alltaf von í öllum aðstæðum. Líka þeim sem eru hvað erfiðastar og virðast óyfirstíganlegar. Það er fagnaðarboðskapur jólanna og þess vegna óskum við hvert öðru gleðilegra jóla.

Gjafir lífsins eru margar og eiga að standa öllum til boða. Því miður eru mörg sárin og tárin sem falla. Kvíði og depurð sækja að. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Segir Jóhannes einnig í guðspjalli sínu. Vegna elsku til mannanna barna kom Jesús í þennan heim til að leyfa okkur að reyna elsku sína og kenna okkur að koma fram við hvert annað í ljósi þeirrar elsku. Með lífi sínu, breytni sinni og framkomu kennir Jesús okkur hvernig við eigum að lifa í heimi sem Guð elskar, á meðal samferðamanna sem Guð elskar.

Heimurinn er ekki alltaf sanngjarn. Ófriður ríkir, mannréttindabrot viðgangast, ofbeldi og niðurlæging eru daglegt brauð víða um heim. Misskipting á sér stað þar sem sumir hafa meira en nóg en aðrir ekki nóg. Það er sístætt verkefni að glíma við hinn myrka heim kærleiksleysisins. Árangur næst m.a. með því að þau sem brotið er á gangi fram fyrir skjöldu og segi hingað og ekki lengra. Metoo byltingin hefur sýnt hve samtakamáttur þeirra sem tala af eigin reynslu getur haft mikil áhrif, til góðs fyrir einstaklinga og samfélag.

Jesús sjálfur fékk að reyna að myrkraöfl heimsins reyna að kæfa ljósið og allt það góða sem lífið gefur. Strax á fyrstu dögum sínum flúði hann með foreldrum sínum undan valdboði Heródusar konungs sem gaf út þá skipun að öll sveinbörn skyldu drepin þar sem til þeirra fyndist. Heródesar heimsins eru margir. Þeir hika ekki við að ganga fram með ofbeldi, kúgun og frelsissviptingu ef svo ber undir.

Jesús fékk líka að reyna háðung og gagnrýni á hérvistardögum sínum svo ekki sé talað um niðurlæginguna þegar hann hékk varnarlaus á krossi og beið dauða síns. Þar kemur skýrasta táknið um myrkur og ljós fram, því dauðinn hafði ekki síðasta orðið heldur lífið. Niðurlægingin ekki síðasta orðið heldur sigurinn. Bölið ekki síðasta orðið heldur blessunin. Á þetta getum við horft þegar mótlæti heimsins tekur sér bústað í hjörtum okkar, að lífið, ljósið og blessunin hefur alltaf síðasta orðið. Í því liggur von okkar og trúin á að hið góða sigri að lokum, í öllum aðstæðum lífsins og líka við dauðans dyr.

Lítið barn í jötu. Er eitthvað til umkomulausara í heimi hér en lítið ósjálfbjarga barn sem á allt undir því komið að foreldrar og aðrir fullorðnir annist það svo það fái vaxið og dafnað? Á lífsleiðinni erum við stundum eins og ósjálfbjarga barnið. Við þurfum á öðrum að halda. Við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir það að þurfa á hjálp að halda. Þvert á móti er það sjálfsagt mál að leita til annarra. Í lífinu gefum við og þiggjum.

Jólin minna okkur á gjöfina stærstu og mestu, þegar Guð gekk inn í mannlega tilveru í barninu Jesú og kaus að deila kjörum með fólki og vera til taks fyrir fólk, í blíðu og stríðu.

Jóhannes guðspjallamaður segir eins og við heyrðum áðan lesið frá altarinu: „Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.“

Heimurinn þekkti ekki skapara sinn. Hefur eitthvað breyst? Er það enn svo að við þekkjum ekki hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, eins og Jóhannes orðar það? Trú er gjöf sem öllum stendur til boða. Trúin er samband við Guð, sem endurnýjast án afláts í baráttunni við hið illa. Hún er ekki eitthvað sem við meðtökum í eitt skipti fyrir öll og býr með okkur. Við þurfum stöðugt að fylla á okkar andlega tank til að viðhalda henni og missa hana ekki. Það er svo margt í heimi hér sem er mótdrægt en við megum ekki stoppa þar heldur verðum að halda í þá von sem trúin gefur um það að bráðum komi betri tíð með blóm í haga. Lífið snýst ekki bara um það sem augað sér og hægt er að þreifa á heldur einnig andleg gæði eins og umhyggju, vináttu, traust og kærleika.

Látum ekki hið illa stjórna orðum okkar og gjörðum eða skemma líf okkar. Lítum til hans sem var í heiminn borinn og þekkir mannlegar tilfinningar og bresti betur en nokkur annar. Hann þekkir líka styrk okkar hvers og eins og veikleika okkar og hefur svo mikla trú á börnum jarðar að hann treysti þeim til að fara og skíra og kenna.

Trúin á Jesú, Guðs son gefur okkur gleðileg jól, í dag og alla daga. Amen.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé með yður öllum. Amen.