Sjálfhverf íhugun

Sjálfhverf íhugun

Vandamál heimsins er að manneskjur skilja ekki hvað í því felst að vera manneskja, fólk telur sig vita svo mikið um Guð, að Guð vilji þetta en ekki hitt, að þessi sé Guði þóknanlegur en ekki hinn og samt er sannleikurinn sá að leiðin til Guðs liggur í gegnum mennskuna.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
24. ágúst 2009
Flokkar

“Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en að missa föður sinn.” Þannig hljóðar upphafssetning Brekkukotsannáls eftir Halldór Kiljan Laxness. Hún er ein af þessum frægu setningum Nóbelsskáldsins sem hafa ögrað lesendum í gegnum tíðina og án efa valdið hneykslan manna þegar bókin var fyrst gefin út. Laxness hafði sérstakt lag á því að segja sannleikann með afgerandi og ögrandi hætti eins og miklum hugsuðum er lagið. Sé setningin skilin með bókstaflegum hætti ræðst hún vitanlega að réttlætiskennd lesandans en sé hún skoðuð í víðara samhengi er ljóst að Laxness er að vísa til miklu stærri veruleika og sammannlegs, nefnilega þess að mótlæti krefur manneskjur um þroska. Við þekkjum það sem höfum fengið smá nasaþef af lífinu að mótlæti er vont og sárt og jafnvel óskiljanlegt meðan það gengur yfir en þegar vindurinn verður að hlýrri golu sjáum við að tilvera okkar hefur öðlast nýjan tilgang, séum við annars vegar tilbúin að skoða þann möguleika. Álfgrímur, aðalsöguhetja Brekkukotsannáls er tilbúinn til þess þó hann sé barn að aldri, í foreldraleysinu finnur hann mest til með foreldrunum fyrir að hafa ekki notið samvista við hann vegna þess að “börn eru nú einu sinni þarfari foreldrum en foreldrar börnum.” (Halldór Laxness, Brekkukotsannáll,s.5). Hvað mótlætið varðar þá öðlast það auðvitað engan tilgang ef fólk dregur ekki ályktanir af því. Í guðspjalli dagsins er Jesús einmitt að benda á mikilvægi þess að draga ályktanir af mótlæti og hann bendir á gildi fyrirgefningarinnar í því samhengi. “Sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið” segir Jesús og kemur þar að innsta eðli og gildi fyrirgefningarinnar sem er nefnilega gagnvirkt. Til þess að geta fyrirgefið mikið þarf maður að hafa dregið ályktanir af mótlæti og komist yfir ákveðinn þroskaþröskuld sem leiðir til þess að maður öðlast meiri getu til að meta og elska aðrar manneskjur, og til þess að elska mikið þarf maður að horfast í augu við vanmátt sinn með áþreifanlegum hætti þannig að maður viti og skilji að manneskjur hafa mörk, og fari maður yfir þau er engin leið til baka úr þeim ógöngum önnur en sú sem liggur í fyrirgefningunni. Með öðrum orðum, við þurfum að þrá fyrirgefningu og við verðum að fá hana til þess að lífið viðhaldist, heilbrigt og gott. Vandamál heimsins er að manneskjur skilja ekki hvað í því felst að vera manneskja, fólk telur sig vita svo mikið um Guð, að Guð vilji þetta en ekki hitt, að þessi sé Guði þóknanlegur en ekki hinn og samt er sannleikurinn sá að leiðin til Guðs liggur í gegnum mennskuna. Á undanförnum árum og áratugum höfum við lifað í samfélagi einstaklingsins, allir hafa verið að leita að sjálfum sér, raunar eins og eftir nál í heystakk og orðið ágengt eftir aðstæðum. Við höfum horft upp á þetta á öllum sviðum mannlífsins, ekki bara í fjármálaheiminum heldur í fjölskyldulífinu og í trúarlífinu, trúarþema síðustu ára var ég og Guð, minn Guð og mín leið til að nálgast Guð, setningar eins og “ég þarf ekki að fara í kirkju til að tala við Guð” hafa verið mjög hipp og kúl, svona á svipuðu kalíberi og “ég er að vinna að eigin efni.” Og í þessu felst svo stór og afdrifaríkur misskilningur, því það er ekkert til sem heitir þú og Guð, það er bara VIÐ og Guð, samfélag mannanna og Guð, Guð á erindi við þig í gegnum samfélagið en ekki á einkamál.is og þess vegna þarftu að rækta tengsl við manneskjur til þess að eignast samfélag við Guð. Af hverju heldurðu að Jesús Kristur hafi verið að eyða orku í að safna saman öllum þessum lærisveinum sem voru margir hverjir ekki einu sinni sérstaklega skemmtilegir, hvað þá heiðarlegir, sumir þeirra voru alveg ótrúlega lengi að skilja og draga ályktanir og aðrir voru algjörar skræfur og dauðans tuðarar, bara eins og við hin. Heldurðu að Jesús hefði ekki alveg ráðið við það sjálfur að opinbera guðdóm sinn, ekki þurfti hann á Klínikdömum að halda þegar hann var að lækna sjúka eða reisa við hina dauðu. Nei, hann hefði getað gert þetta allt saman sjálfur og samt sigrað dauðann en með því að skapa þetta samfélag í kringum sig var Jesús að kenna þér og mér, hvernig við eigum að nálgast Guð, og það er enn og aftur í gegnum samfélag við aðra. Jesús leiddi þennan hóp við hlið sér til að kenna þeim að hafa næmi og skilning fyrir manneskjum, svo þeir gætu alltaf þekkt leiðina til Guðs, þess vegna leiddi hann þá út á jaðar samfélagsins, heim til fordæmdra tollheimtumanna, í návist holdsveikra, innflytjenda, kvenna, að dánarbeðum og í brúðkaup, hann var að kenna þeim að hlusta eftir hinum sammannlega tón sem þú heyrir bara í raunverulegum samskiptum, þessi tónn heyrist ekki á netinu. Sá sem upplifir að vera fyrirgefið mikið, lærir fyrst þá að þekkja og skynja algóðan Guð, sá hinn sami þarf því að ganga með öðrum manneskjum til að upplifa þessa helgu tilfinningu sem felst í fyrirgefningunni. Ástæða þess að þetta hugtak, fyrirgefning hefur ekki verið á topp 10 lista yfir heitustu orðin undanfarin ár er vegna þess að við höfum ekki lifað í samfélagi heldur með sjálfum okkur og þess vegna hefur þetta orð ekki borið svo mjög á góma. Við höfum í raun lifað í persónulegri afstæðishyggju varðandi siðferði, vegna þess að menn eiga bara sinn Guð og sitt samband við Hann, menn hafa átt sinn banka og sínar flugvélar og raunar bara sín siðferðilegu viðmið og þess vegna hefur orðið fyrirgefning bara tilheyrt sunnudagaskólasögum og 12 sporunum. Ekki fyrr en nú, nú kalla allir eftir því að menn biðjist fyrirgefningar en vita samt ekki hvernig það á að fara fram eða hverja á að biðja og hverjir eiga að biðja. Fjölmiðlarnir eru eins og foreldri sem leiðir barn sitt á fund við vin sem er í sárum, þrýstir fram hönd barnsins og segir “segðu fyrirgefðu” og barnið bítur saman vörunum og muldrar “fyrirgefðu en það varst samt þú sem byrjaðir.” Mótlæti krefur menn um þroska og það á að vera útgangspunktur íslenskrar þjóðar í dag, við þurfum ekkert á samanbitinni fyrirgefningarbeiðni frá eigin herrum að halda, við þurfum fyrst og fremst sem þjóð að græða siðferðilega á þessu ástandi, þessu mótlæti, þannig að hér byggist upp raunverulega kristið samfélag þar sem við lærum að þekkja manneskjur og finnum hinn sammannlega takt sem verður þess valdandi að við völtum ekki yfir hvert annað í hugsunarleysi og sjálfhverfri íhugun. Ástæðan fyrir því að Halldór Kiljan Laxness var jafn stórkostlegur rithöfundur og raun ber vitni, er sú að hann heyrði hinn sammannlega tón sem gerði það að verkum að hann skildi svo vel hvað það merkir að vera manneskja. Hann skoðaði fólk í bókstaflegri merkingu, ferðaðist um landið og hlustaði á fólk tala og hann horfði á það vinna og hann dró ályktanir af hreyfingum fólksins og samskiptum við dýr og menn, já hann sá jafnvel náttúruna og veðráttuna endurspeglast í andlitsdráttum þess. Halldór Laxness hafði ósvikinn áhuga á fólki og þess vegna var hann þessi einstaki ritsnillingur. Hugsaðu þér líka að alveg síðan hrunið mikla átti sér stað hefur hvert einasta guðspjall Nýja testamentisins talað inn aðstæðurnar og alla þá siðferðilegu anga sem hafa legið út frá því, þess vegna er það ekki bara vegna skorts á frumleika sem að prestarnir tala um þetta málefni sunnudag eftir sunnudag heldur er það einfaldlega vegna þess að Jesús Kristur hefur svarið við vanda okkar í dag, af því að vandinn er fyrst og síðast siðferðilegur en til þess að skilja svar Jesú verðum við fyrst að skilja hvað það merkir að vera manneskja. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.