G8 - Ísland ögrum skorið

G8 - Ísland ögrum skorið

Við megum ekki missa vonina, bjartsýnina og trúna.  En við eigum að vera raunsæ. Í sálminum um viðburðina á Betlehemsvöllum er gerð tilraun til að lýsa atviki sem átti eftir að hafa grundvallandi áhrif á mikinn hluta heimsbyggðarinnar kynslóð eftir kynslóð.

Bjart er yfir Betlehem var yfirskrift ágætrar greinar eftir Svein Rúnar Hauksson sem birtist í Fréttablaðinu 29. nóvember.  Hann hefur verið óþreytandi að benda á óréttlætið sem Palestínumenn á herteknu svæðunum eru beittir og ekki síður þeir sem eru landflótta og ríkisfangslausir.  Nú á aðventunni syngja börn og fullorðnir saman í kirkjum og á heimilum:  “Bjart er yfir Betlehem...“  Eru það ekki öfugmæli?

Jólafrásögnin er falleg og einföld.  Yfir henni ríkir ævintýrablær.  Við túlkum frásögnina í tali og tónum.  Sálmar jólanna eru tilraun skáldanna að túlka boðskapinn.  Sú Betlehem sem við syngjum um var hernumin þegar barnið fæddist fyrir u.þ.b. 2000 árum.  Borgin er einnig hernumin í dag.  Var og er bjart yfir Betlehem? Bjarminn yfir Betlehem er táknrænn. Hann er tákn um von. Vonin snýst um frelsi, frið og farsæld.

Mikilvægur áfangi í sjálfstæðisbaráttu okkar var þegar Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 1918.  Undanfarin ár hefur minna farið fyrir þessum degi sem áður skipaði veglegan sess sem einn af stóru hátíðisdögunum.  Við þurfum að þekkja rætur okkar en það eru innan við 100 ár síðan við vorum þegnar dönsku krúnunnar.  Þetta þurfa börnin okkar að vita.  1. desember er dagur sem vert er að gefa gaum og nota til þess að fræða og rifja upp.

Löng hefð er fyrir hátíðahöldum í Háskóla Íslands og sá siður var í heiðri hafður einnig þetta árið.  Liður í hátíðahöldunum er guðsþjónusta í umsjá stúdenta í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.  Lokasálmurinn í ár eins og svo oft áður var um ögrum skorið land „ sem á brjóstum borið og blessað hefur mig“. Eru það hugsanlega öfugmæli eftir Hrun að halda því fram að landið hafi borið okkur á brjóstum og blessað?

Þarna reynir á okkur.  Við megum ekki missa vonina, bjartsýnina og trúna.  En við eigum að vera raunsæ. Í sálminum um viðburðina á Betlehemsvöllum er gerð tilraun til að lýsa atviki sem átti eftir að hafa grundvallandi áhrif á mikinn hluta heimsbyggðarinnar kynslóð eftir kynslóð.  Fegurð sögunnar snertir okkur sem erum kristin og við viljum kenna börnunum okkar um atburði jólanna.  Okkur ber líka skylda til að uppfræða þau um ástandið sem ríkir í Betlehem um þessi jól.  Við megum ekki láta okkur standa á sama um óhugnaðinn sem þar á sér stað.  Við eigum að sýna ábyrgð.

Það gildir einnig um landið okkar.  Það er svo margt sem við eigum í því.  Gjöful fiskimið, stórbrotna náttúru, vatn og orku.  Við eigum að sjá gæðin í því sem landið okkar gefur. Fræðum börnin okkar, kennum þeim virðingu í umgengni, verndun og nýtingu auðæfanna. Við skulum vera meðvituð um bakgrunninn.  Verum vakandi fyrir líðan og ástandi systkina okkar á fjarlægum slóðum.  Viðurkennum skipbrot samfélagsins sem hafði alla burði til að vera fyrirmyndarsamfélag jöfnaðar og velmegunar.  Leitum jafnvægis milli bláeygðar bjartsýni og niðurbrjótandi svartsýni.  Verum þakklát en raunsæ.

Syngjum Bjart er yfir Betlehem og Ísland ögrum skorið meðvituð um samhengið. Megi frelsi, friður og farsæld vera einkunnarorð aðventunnar.