Skírn Jesú

Skírn Jesú

Í kristni er öll áhersla á þessa einu fórn sem er Jesús Kristur. Við þurfum ekki að fórna neinu í hinum gamla skilningi. Okkur er aðeins ætlað að trúa og biðja. Þar liggur okkar leið. Að fylgja Jesú og láta líf okkar allt benda á hann. Líf okkar bendir á Jesú ef í lífi okkar er að finna kærleika og umhyggju fyrir öðru fólki og vissu um að Guð er skapari og lífgjafi alls sem er.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Nú höfum við fagnað og  heilsað nýja árinu sem ber töluna 2023. Oft er talað um áramótin sem kaflaskil. Vissulega eru kaflaskil hjá annálariturum og bókhaldsfólki sem gerir upp liðið ár. Fyrir okkur flest er nýja árið eins og nýr dagur.  Líklegt er því að líf okkar haldi áfram í sömu skorðum og það var á árinu sem við kvöddum. Stundum þráum við breytingar en oft sem betur fer gengur lífið bara harla vel og við ánægð með það sem er í kringum okkur og þá daga sem við höfum lifað. Þegar svo er þá væri gott að muna að sýna því þakklæti og kunna að gleðjast yfir því góða sem við eigum.

Eitt versta bölið er að hjakka í sama fari óánægju og vansældar. Oft skortir afl og þrótt til að komast úr slíku fari. Mörgum reynist trúin sá aflgjafi sem breytir slæmu dögunum til hins betra. Það þekkja þau fjölmörgu sem eignast hafa trú á hinn lifandi frelsara. Soninn sanna er kom í heiminn til að breyta og bæta böl fólksins.

Áður en Jesús hóf sitt starf þá var maður sem undirbjó komu hans. Sá hét Jóhannes auknefndur skírari. Hann hafði tekið upp á því að prédika yfir fólkinu sínu í Palestínu um Guð og hann skírði svokallaðri iðrunarskírn. Það þýddu að þau er heyrðu boðskap Jóhannesar um hið góða og eftirsóknarverða líf og trúðu orðum hans, þau létu einnig skírast með niðurdýfingarskírn. Þá var þeim er skírast lét dýft á bólakaf í vatn. Jóhannes var ekki maður sem fylgdi tíðaranda í nokkru. Hann klæddist fatnaði úr úlfaldahári og át flest það er náttúran gaf. Hann talaði ekki til að þóknast fólki, smjaður og vinsældir voru ekki markmið hans.

Jóhannes var fyrst og síðast maður sannleikans. Hins afdráttarlausa sannleika sem segir hvað sé gott og fallegt og hvað sé ljótt, illska og synd. Hefði hann lifað í dag þá hefði hann kært sig kollóttan um vinsældir og fjölda fylgjenda á Instagram, Facebook eða öðrum slíkum miðlum. Eflaust hefði hann þó vakið mikla athygli því hann var og er öðruvísi en allir. En það er einmitt vegna þess hve heiðarlegur hann var og samkvæmur sjálfum sér. Þegar hann síðar var handtekinn fyrir að segja sannleikann um valdhafa þess tíma þá reyndi hann aldrei að hagræða sannleikanum og var tilbúinn að deyja fyrir sannleikann. Jóhannes var hálshöggvin og höfuð hans fært fram á silfurfati sem þakklætisvottur til hennar sem bað um að hann yrði líflátinn. Að færa einhverjum eitthvað á silfurfati er oft sagt. Það tengist Jóhannesi skírara og fórn hans fyrir sannleikann.

Það var fjöldi fólks sem var í kringum Jóhannes, hann hafði lærisveina og svo þau öll sem komu til að hlusta á öll hans orð hverju sinni. Þau höfðu komið til hans vegna þess að þau höfðu andlegar þarfir. Þorsta eftir einhverju sem gæfi þeim lífsfyllingu og afl til að breyta sínu innantóma lífi. Hin einlæga prédikun Jóhannesar um syndir og brot fólks gagnvart Guði og öðru fólki gerði því ljóst að það varð að bregðast við.  Skírn er hreinsun. Orðið skír merkir það sem er hreint, skíragull er t.d. hreint gull. Að láta vatnið umlykja sig í skírn var ákveðin hreinsunarathöfn.

Í Guðspjalli dagsins hittast þeir Jesús og Jóhannes. Hér eru sannarlega mikil og merk kaflaskil. Sá sem hóf ákveðið verk mætir hinum sem tekur við því og tekur það yfir á lokastig. Nú var kominn tími til að Jesús stigi fram og Jóhannes stigi til baka. Jóhannes sagði: "Sjá Guðs lamb, sem ber synd heimsins." Þannig bendir hann á Jesús, bæði með fingri sínum, orðum, starfinu öllu og svo skírn þeirri sem átti sér stað þarna. Jesús þáði skírn af Jóhannesi. Jónannes færðist  í fyrstu undan að skíra Jesú. Hann taldi að nær væri að Jesús myndi skíra hann. Því hafnaði Jesús

Jóhannes kallar Jesús Guðs lamb. Þau orð færa okkur að  hinni daglegu fórn í musterinu á tímum gamla sáttmálans. Það er tímans áður en Jesús kom í heiminn. Á hverjum morgni og kvöldi var fórnað lambi á altarinu. Sú fórn á sér ákveðna forsögu m.a. í páskafórninni. En þegar Ísraelsmenn flýðu til frelsisins fyrir margt löngu, þá var lambi fórnað  nóttina þegar þjóðin voru leiddir úr þrældómi í Egyptalandi.

Ísraelsmönnum hafði verið boðið af Guði að hvert heimili skyldi slátra lambi og blóðinu skyldi smyrja á dyrakarma við innganginn að húsinu.  Aðeins þeim heimilum var bjargað, frá hinum grimmu örlögum að missa barn, þar sem hurðarkarmar voru smurðar með blóði sláturlambsins. Engill dauðans gekk fram hjá húsi þeirra. Þegar Ísraelsmenn stökktu blóði lambsins á dyrastafi sína, voru þeir frjáls þjóð. Skömmu síðar voru þeir leiddir úr þrældómi í Egyptalandi. Síðan þá héldu Ísraelsmenn páska á hverju ári til að minnast flóttans frá Egyptalandi. Á hverju ári var fórnað lambi. Páskalambið var fyrirmynd komandi friðþægingarfórnar, Guðslambsins, sonar Guðs Jesú Krists.
Þess vegna bendir Jóhannes á Jesú og kallar hann lamb Guðs.

Eftir að hafa hitt Jóhannes og þegið skírn af honum var  tími til kominn fyrir Jesú að koma fram. Hann kallaði lærisveina til sín, prédikaði fyrir fólki, læknaði sjúka, reisti upp dauða, gerði tákn og undur og leitaði  syndara með orði fyrirgefningar og náðar. Hið mikla hlutverk Jesú varð opinbert. Hann kom til að sætta okkur við Guð. Allir menn hafa syndgað, þó ekki allir hafi gert sér grein fyrir synd sinni frammi fyrir Guði. Hvernig var hægt að taka sekt syndarinnar burtu? Fórn var nauðsynleg. Nú kom Jesús, sem átti að vera fórn Guðs sjálfs - ekki fórn mannsins. en Guðs fórn, Jesús er Guðs lamb.


Mörg hundruð árum áður en Jesús fæddist ritaði spámaðurinn Jesaja þess orð:

"En hann var særður vegna vorra synda,
kraminn vegna vorra misgjörða.
Honum var refsað svo að vér fengjum frið
og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir.
." Jes 53.5-7

Þessi orð vísa til Jesú Krists. Refsingin var lögð á hann.  Hinn saklausi, heilagi sonur Guðs var dæmdur til dauða. Mannlegu páskalambi var fórnað. Jesús, frelsari heimsins. leið dauða á krossi. Nú þarf ekki fleiri fórnarlömb. Guð er sáttur. Öll sekt er tekin af. "Sjá Guðs lamb, sem ber synd heimsins "  er niðurstaðan! Kross Jesú er grundvöllur kristinnar trúar okkar, okkar eina von  um framtíðina eigi að komast á friður í heiminum og sátt milli okkar sem tilheyrum þjóðum heimsins, sátt hvert við annað og sátt við Guð.  Krossinn opnar leið gegnum dauða og dóm og inn í eilífðina með Guði.

Að fórna einhverju hefur lifað með mannkyni frá örófi alda. Í heiðnum sið tíðkuðust ýmsar fórnir. Í skák er það alþekkt að fórna taflmanni til sigurs. Að heita á kirkjur er gamall siður. Þannig var ákaflega algengt að heita á t.d. Strandarkirkju og gefa henni gjöf þegar bæn um var svarað. Við sjálf höfum örugglega heitið á eitthvað, gefið loforð eða fjármuni til að eiga þannig viðskipti við Guð eða örlögin.

Í kristni er öll áhersla á þessa einu fórn sem er Jesús Kristur. Við þurfum ekki að fórna neinu í hinum gamla skilningi. Okkur er aðeins ætlað að trúa og biðja. Þar liggur okkar leið. Að fylgja Jesú og láta líf okkar allt benda á hann. Líf okkar bendir á Jesú ef í lífi okkar er að finna kærleika og umhyggju fyrir öðru fólki og vissu um að Guð er skapari og lífgjafi alls sem er.

Af kærleika til okkar hefur hann sem er Guð frá eilífð sett fram sinn eigin son sem friðþægingarfórn. Jesús leið dauða á krossinum, en reis upp aftur á þriðja degi. Tómi krossinn og tóma gröfin vitna um sigur. Jesús hefur tekið burt sekt syndarinnar og sigrað dauðann og djöfulinn og illskuna alla. Okkur er boðið að ganga með Jesú í trú og kærleika. Áfram til eilífa lífsins.

Gleðilegt nýtt ár!

Prédikun Selfosskirkju 8. janúar 2023